Fréttir vikunnar 14.-17.sept 2020
Við höfum einsett okkur að leggja mikla áherslu á lýðræðisvinnu í skólanum og kenna nemendum að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Helsta verkfærið til þess er að virkja þá til samræðna um fjölbreytt málefni þannig að þeir þjálfist í að mynda sér skoðun, koma henni á framfæri og rökstyðja mál sitt. Þetta gerum við í mörgum kennslustundum og einnig með sérstökum nemendaþingum. Fyrsta þing þessa vetrar var á þriðjudaginn og þá unnu nemendur í hópum með orðaforða sem tengist Uppbyggingarstefnu. Hver hópur fékk orð sem tilheyra einni af félagslegum grunnþörfunum og átti að flokka orðin eftir því hvort framkoman sem þau lýsa hefur jákvæð eða neikvæð áhrif fyrir aðra en þá sem beita henni. Þetta var fjörug og skemmtileg umræða því eitt skilyrðið var að hópurinn yrði að ná samkomulagi um hvernig flokka skyldi orðin. Þetta verkefni studdi því við bæði lýðræðismarkmiðin okkar og vinnuna við að efla orðaforða nemenda.
Dagur íslenskrar náttúru var tekinn alvarlega í skólanum og nemendur á miðstigi fengu þá sérstaka fræðslu og unnu verkefni þar sem þeir völdu sér að vera eitt lifandi náttúrufyrirbæri og lýstu því, sumir völdu að vera dýr, aðrir plöntur og aðrir eitthvað enn furðulegra.
Nemendur á yngsta stigi eru í upplifunarsmiðju þessar vikurnar og þar er ýmislegt brallað, í morgun ætluðu þeir að grilla brauð við opinn eld en það gekk svona og svona og þá þurfti að grípa til plans B, en það er líka lærdómur og allir skemmtu sér konunglega eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
Bestu kveðjur frá okkur í skólanum
Jóna