VALMYND ×

Fréttir vikunnar 16.-20.nóvember. 2020

Allir segja sína skoðun
Allir segja sína skoðun
1 af 2

Í þessari viku fóru foreldraviðtöl fram að loknum skóladegi nemenda. Þau voru með óvenjulegu sniði að þessu sinni þar sem við erum enn beðin um að takmarka aðgengi fullorðinna að skólanum eins og við getum og viðtölin fóru því fram gegnum fundaforritið zoom. Það gekk bara ljómandi vel í flestum tilvikum þó að netsambandið hafi aðeins verið að stríða okkur.

Skólastarfið var að mestu hefðbundið að öðru leyti en því að í dag, föstudaginn 20.nóvember héldum við annað nemendaþing skólaársins. Dagurinn er alþjóðlegur dagur réttinda barna og að þessu sinni tengdum við vinnu þingsins við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Aðstæður barna í ólíkum löndum eru mjög misjafnar og til að vekja nemendur til umhugsunar um að það hafa það ekki allir jafn gott og langt er frá því að réttindi allra barna séu tryggð byrjuðum við á að sýna myndbönd frá Unicef þar sem fjallað er um heimilisleysi og barnaþrælkun. Að því loknu tók nemendur til við spurningarnar sex sem voru til umfjöllunar í dag. Þær voru

  1. Hvað finnst ykkur mikilvægast að læra í skólanum?
  2. Er eitthvað sem er ekki kennt í skólanum en þið mynduð vilja læra?
  3. Hvaða námsgrein teljið þið að nýtist ykkur best fyrir framtíðina?
  4. Hvernig finnst ykkur að starfsmenn skólans eigi að vera í samskiptum við ykkur?
  5. Hversu mikið og hvernig finnst ykkur að foreldrar ykkar eigi að taka þátt í skólastarfinu eða aðstoða ykkur í náminu? (Hvað geta foreldrar gert til að hjálpa?)
  6. Hversu miklu máli skiptir að líða vel í skólanum? Hvað skapar vellíðan í skólanum?

Þar sem enn er ekki leyfilegt að blanda nemendum milli sóttvarnarhólfa tók yngsta stigið ekki þátt í hópvinnunni en var með sérstakan umræðufund um tvær fyrstu spurningarnar í sinni bekkjarstofu. Það er skemmst frá að segja að nemendur stóðu sig frábærlega í þessari vinnu og eru orðnir mjög færir í að tjá skoðanir sínar með skipulegum hætti.  Frekari úrvinnsla niðurstaðna bíður og verða þær birtar um leið og þær liggja fyrir.

Á mánudaginn ætlum við svo að reyna að gefa kórónuveirunni langt nef og halda lestrarhátíðina okkar þó að við megum ekki fá gesti í skólann. Krakkarnir eru búnir að æfa margskonar upplestur og ljóðaflutning og hátíðin hefst klukkan 10:15. Þeir sem vilja fylgjast með eru beðnir um að senda póst á jonab@isafjordur.is og fá þá hlekk á mánudaginn þar sem hægt verður að hlusta á krakkana

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.