VALMYND ×

Fréttir vikunnar 17.-21. maí

Brúarsmiðir Reykjavíkurborgar í heimsókn
Brúarsmiðir Reykjavíkurborgar í heimsókn
1 af 4

Það er búið að vera mjög mikið um að vera hjá okkur þessa vikuna. Á mánudag fengum við heimsókn frá Umboðsmanni barna sem ásamt þremur starfsmönnum embættisins hitti alla nemendur og átti sérstakan tíma með 6.bekk. Þessir gestir höfðu orð á því hvað nemendur í þessum skóla þekktu réttindi barna vel og væru færir í samræðum.

Á þriðjudag vorum við með fjölmenningarfræðsluna fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Þá komu ,,Brúarsmiðir“ frá Reykjavíkurborg til okkar og voru með umfjöllun um mikilvægi þess að leggja sig fram um að skilja ólíka menningu og hvað hægt er að gera til að efla þátttöku í samfélagi.  Þær voru svo einnig með fræðslu um íslenska skólakerfið fyrir foreldra sem ekki hafa reynslu af því sjálfir.  Þessir fræðslufundir voru mjög gagnlegir. Við þökkum öllum þeim sem mættu kærlega fyrir þátttökuna og skemmtilegar umræður. Auðvitað eru aðstæður fólks misjafnar til að sækja svona fundi og við gerum ráð fyrir að þeir sem ekki mættu hafi haft gildar ástæður fyrir því, en við hefðum gjarnan viljað sjá meiri þátttöku frá foreldrum með íslenskan bakgrunn því það er sameiginlegt verkefni okkar að byggja upp samfélag þar sem ætlast er til af öllum að þeir bæði gefi og þiggi.

Við vorum beinlínis hrærð yfir viðbrögðum brúarsmiðanna eftir heimsóknina og því ætla ég að setja hér með hluta úr tölvupóstinum sem þær sendu að heimsókn lokinni

,, Ég vil byrja að þakka fyrir okkur J Við vorum heillaðar af ykkar flotta og metnaðarfulla skólastarfi J Mér finnst alveg magnað að sjá hvað þið eruð að gera og metnaðurinn er einstakur“

Það er ekki oft sem við fáum sérfræðinga að sunnan í skólann og því er okkur mikils virði að fá jákvæð viðbrögð og þetta sýnir okkur að litlir skólar á enda veraldar geta alveg verið framúrskarandi í sínum verkefnum.

Á miðvikudag tóku síðan stelpurnar í 9.bekk þátt í viðburðinum ,,Stelpur og tækni“ sem sendur var út frá Háskólanum í Reykjavík. Þetta er í annað sinn sem við tökum þátt í þessu og eitt af því sem farið var að bjóða rafrænt með tilkomu Covid-19 svo það hefur líka haft jákvæð áhrif í einhverju.  Stelpurnar okkar voru mjög ánægðar með verkefnin sem þær unnu í gegnum þetta.

Á fimmtudag fundaði svo skólaráðið og þar var farið yfir helstu upplýsingar vegna komandi skólaárs. Nemendur komu með tillögu um að kaupa fleiri áhugaverðar bækur og að stytta matartímann aftur í 30 mínútur og þær tillögur verða settar í framkvæmd fyrir næsta ár.

Fyrir utan allt þetta voru svo nemendur yngsta stigs að smíða blómaker og nemendur miðstigs héldu uppskeruhátíð eftir lestrarátakið sitt. Þar fengu nemendur eina poppbaun fyrir hverja mínútu sem þeir lásu á tilteknum tíma og söfnuðu þannig saman með lestrinum yfir þremur kílóum af poppbaunum.