VALMYND ×

Fréttir vikunnar 18.-22.jan 2021

Nýju tölvurnar bornar upp
Nýju tölvurnar bornar upp
1 af 4

Að þessu sinni getum við sagt frá því að nú er búið að endurnýja tölvukost skólans að mestu leyti. Til þessa hafa flest tækin hjá okkur verið svokallaðir ,,cero clientar“ sem eru ekki raunverulegar tölvur, á þeim var ekki myndavél og mjög erfitt að sýna myndbönd sem eru stór þáttur í kennsluefni nútímans. Þeim hefur nú verið skipt út og erum við komin með nýjar vélar sem eru með flestu því sem venjuleg heimilistölva hefur og þetta verður mikill munur hjá okkur. Það vantar að vísu ennþá nokkra skjái en við bíðum þolinmóð eftir þeim. 

Nú er búið að lestrarprófa alla nemendur með janúarprófi Lesferlis og foreldrar eiga von á niðurstöðum í næstu viku. Það er gaman að sjá að flestum hefur farið vel fram.  Einnig má rifja upp að öllum nemendum á mið- og yngsta stigi fór aftur yfir sumarmánuðina svo það er alveg augljóst að þegar nemendur lesa ekki fimm sinnum í viku fer þeim aftur. Við vonum að þið foreldrar vinnið áfram af kappi með okkur í þessu því það skiptir verulegu máli fyrir öll börn að geta lesið með sæmilegum hraða og skilningi.

Með þessari frétt fylgja einnig myndir af stærðfræðivinnu yngsta stigs og þar má sjá að stærðfræðivinna í skólanum snýst um ótal margt fleira en að vinna með tölur á blaði.  Stærðfræði er svo margt meira en það og finnst í flestu sem við gerum með einum eða öðrum hætti.

Við erum byrjuð að skipuleggja skóladagatal næsta vetrar því nú langar okkur að fara af stað með samvinnuverkefni milli allra skóla á norðanverðum Vestfjörðum sem felst í að innleiða það sem kallað er leiðsagnarnám. Ef af verður mun það krefjast þess að sem flestir starfsdagar skólanna séu sameiginlegir og til að það megi verða þurfa allir að gefa eitthvað eftir af sínum óskum.  Leiðsagnarnám felur í sér að efla ábyrgð nemenda á eigin námi með því að hvetja þá sífellt til að hugleiða eigin framfarir og hvaða tækni þeir geta notað til að læra hluti. Gera þá meðvitaða um hvað þarf til að læra og byggja upp hugarfar vaxtar þannig að nemendur skiljið að tilsögn til þeirra og leiðréttingar eru ekki gerðar til að setja út á þá heldur til að veita þeim tækifæri til að gera betur.

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.