Fréttir vikunnar 2.-6.nóvember
Þá er þessari fyrstu viku skólastarfs með nýjum sóttvarnarreglum að ljúka. Eldri nemendurnir okkar hafa staðið sig vel í að vera með grímur og gert sitt besta til að virða tveggja metra regluna þó að auðvitað gleymist það stundum. Við erum ánægð með að geta haldið úti allri þeirri kennslu sem veitt er í okkar skóla og að það eina sem hafi þurft að fella niður sé valið í GÍ, en þar eru valgreinar ekki kenndar meðan á þessu stendur þar sem í þeim blandast nemendur úr ólíkum námshópum. Við vonum nú samt öll að þetta ástand vari sem styst.
Á fimmtudaginn ræddum við um Kompásþátt miðvikudagsins við nemendur mið- og unglingastigs. Þátturinn var um stafrænt kynferðisofbeldi og við leggjum til að foreldrar horfi á þennan þátt með börnum sínum og ræði efni hans. Hlekkurinn er https://www.visir.is/g/20202032830d
Í þessari viku fengum við niðurstöður úr bæði nemendakönnun Skólapúlsins og samræmdum prófum í 4.og 7. bekk. Þessar kannanir eru hluti af þeim mælikvörðum sem notaðir eru til að leggja mat á skólastarf og við tökum að sjálfsögðu mark á þeim og bregðumst við eftir því sem er í okkar valdi.
Af niðurstöðum okkar úr Skólapúlsi er það helst að frétta að nemendur okkar eru áhugasamari um lestur og stærðfræði en gengur og gerist og þeim líður einnig almennt vel í skólanum, en við eigum lönd að vinna þar sem þeir meta hvernig þeim gengur að finnast þeir tilheyra nemendahópnum. Nokkrar skýringarmyndir af niðurstöðunum fylgja með þessari frétt. Þess ber þó að geta að svona niðurstöður eru ekki neinn stóri sannleikur heldur mat nemenda á þeim degi sem þeir svara spurningakönnuninni samanborið við svör annarra nemenda á landinu.
Niðurstöður okkar í samæmdum könnunarprófum voru mjög góðar í stærðfræði en ekki eins góðar í íslensku, rétt eins og við bjuggumst við. Það að nemendur okkar nái svona góðum árangri í stærðfræðinni segir okkur að hægt sé að gera mun betur í íslenskunni því námsgetan er í lagi og því er ekki ásættanlegt að svona margir krakkar hjá okkur séu undir landsmeðaltali í íslensku. Við höfum verið með sérstök verkefni í gangi til að styðja við íslenskuna og vonandi eru þau að byrja að skila sér því staðan er betri í ár en í fyrra, en betur má ef duga skal og allt mun þetta ganga enn betur ef við hjálpumst öll að, skóli, heimili og samfélag, við að hvetja nemendur til dáða.
Við minnum svo á foreldraviðtölin sem verða í þarnæstu viku og verða rafræn að þessu sinni og að þeim foreldrum sem vilja nota tækifærið og æfa sig í rafrænum fundum er boðið á prufufund mánudaginn 9.nóv. kl.17:00. Til að taka þátt í honum þarf að senda póst á jonab@isafjordur.is.
Bestu kveðjur úr skólanum og hafið það gott um helgina