Fréttir vikunnar 25.-28.maí
Veðrið hefur leikið við okkur þessa viku og því hefur verið mikið um útivist hjá nemendum og svo hefur tíminn verið nýttur í kannanir og allskonar frágang á verkefnum.
Nemendur 2.bekkjar luku við að smíða blómakassana sem þeir voru að gera í smiðjunni útivist og upplifun og settu niður sumarblóm. Ég fullyrði að þetta eru krúttlegustu blómakassar á Vestfjörðum og þó víðar væri leitað.
1.bekkur fékk að vanda gefins hjólahjálma frá Kiwanis. Rétt er að minna á að allir yngri en 15 ára eiga að vera með hjálm á hjóli.
Við fengum niðurstöður úr Lesfimiprófum Menntamálastofnunar og þar má sjá að nemendur skólans eru í góðri framför, enda hafa þeir lagt mikið á sig.
Ærslabelgurinn sem Kvenfélagið Ársól gaf samfélaginu hefur heldur betur gert lukku og gleðin þar verið mjög mikil eins og sjá má á þessu myndbandi hér https://www.youtube.com/watch?v=mqt_GyUSlbc
Þá var hefðbundið ,,hopp í sjóinn“ á dagskrá hjá unglingunum í dag og þar var líka mikil gleði.
Dagskrá næstu viku mun litast af útivist og gleði alla daga.
Á mánudag fara bæði mið- og yngsta stig í heimsóknir. Yngsta stig fer á Ísafjörð og í Önundarfjörðinn og miðstigið heimsækir vini okkar á Þingeyri. Unglingastigið verður hér heima en fær að prófa að fara á kajak og fleira skemmtilegt. Þetta er jafnframt síðasti dagur í mötuneyti hjá okkur.
Á þriðjudag fara bæði miðstig og unglingastig í hjólaferðir. Unglingastigið hjólar með Söru á Ísafjörð og Bryndís fer með sem bílstjóri og sérlegur aðstoðarmaður. Miðstigið fær hjólin sín flutt inn að Botni og hjólar þaðan með Eddu og Jónu út í Selárdal. Jói aðstoðar við að koma krökkunum inn eftir. Yngsta stigið verður í útivist með Ásu og Lindu.
Á miðvikudag verða allir hópar í tiltekt, frágangi og leikjum. Þann dag verður hópleikur klukkan 11:00 sem allir bæjarbúar eru velkomnir með í. Klukkan 12 verður svo sameiginlegur matur fyrir alla nemendur og kennara.
Skólaslit verða svo föstudaginn 4.júní. Yngsta- og miðstig mæta klukkan 10:00 og fá sinn vitnisburð en unglingastigið mætir klukkan 17:00 í útskriftarathöfn fyrir 10 bekk og afhendingu vitnisburðar fyrir aðra.
Gaman væri ef sem flestir foreldrar gætu komið með nemendum á skólaslitin.
Kveðja
Starfsfólkið í skólanum