Fréttir vikunnar 25.-29.maí
Það er skrýtið að hugsa til þess að síðasta heila vika skólaársins er nú liðin. Það var margt í gangi hjá okkur eins og venjulega. 9. og 10.bekkur lögðu af stað í skólaferðalagið snemma á mánudagsmorgun, þau fóru með Bryndís í ferð um Suðurland og koma heim í dag. Við eigum von á frekari fréttum af ferðum þeirra í næstu viku.
Við fengum heimsókn frá Einari Mikael töframanni sem sýndi töfrabrögð og kenndi okkur nokkur trix, en til stendur að hann kenni unglingunum í Fablab smiðjunni næsta vetur. Eins og sjá má af meðfylgjandi myndum voru nemendur mjög áhugasamir.
Yngsta stig fór í sinn árlega vorleiðangur með elsta hópi leikskólans. Að þessu sinni fóru þau til Súðavíkur og heimsóttu Melrakkasetrið og súkkulaðiverksmiðjuna Sætt og salt. Krökkunum fannst mjög gaman að skoða sýninguna í Melrakkasetrinu en upp úr stóð þó að hafa fengið súkkulaði að smakka.
Loka ,,föstudagsverkefni“ var í gangi hjá okkur miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Vinnan við það gekk vonum framar og nemendum hefur farið mikið fram í sjálfstæði í vinnubrögðum í vetur. Þá eru þeir einnig orðnir áræðnari við ýmiskonar tilraunir og öruggari við að kynna verkefnin sín. Að þessu sinni voru nokkrir nemendur að afla sér upplýsinga um mótorcross og þá vildi svo til að Edda Björk kennari hafði góð tengsl við áhugamenn um það og fékk þá hingað til okkar til að sýn hjól og búnað. Það vakti mikla lukku. Skil á verkefnunum verða á þriðjudaginn og við ráðgerum að taka skilin upp og gera þau sýnileg á heimasíðu skólans.
Í dag var síðasti vinnudagur hennar Emiliu í mötuneytinu hjá okkur og þökkum við henni kærlega fyrir að hafa hugsað svona vel um okkur. Gangi þér vel á nýjum vettvangi Emilia.
Síðasti skóladagur þessa skólaárs er þriðjudaginn 2.júní. Þá byrjum við á að skila lokaverkefnum, gerum svo ráð fyrir að fara í gróðursetningu og eftir það í leiki. Klukkan 12:00 munum við svo grilla pylsur fyrir nemendur og að því loknu fara þeir heim.
Miðvikudaginn 3.júní er starfsdagur og þá leggja starfsmenn lokahönd á vitnisburði nemenda og fleira.
Fimmtudaginn 4.júní eru svo skólaslit. Þau verða með óvenjulegum hætti í ár þar sem enn er mælt með að gæta varúðar vegna smithættu. Nemendur í 1.-9.bekk koma í skólann klukkan 10:00 og fá sinn vitnisburð. Nemendum 10.bekkjar er boðið í skólann síðdegis ásamt forráðamönnum þar sem þeir verða formlega útskrifaðir úr grunnskóla. Nánari tímasetning á því verður ljós á mánudaginn.