Fréttir vikunnar 31.maí.-4.júní
Dagskráin þessa vikuna litaðist af útivist og gleði hjá okkur. Allir námshópar fóru í ferðir og sumir fleiri en eina og nýttu góða veðrið til að læra um samvinnu og hjálpsemi, þrautseigju, áræðni og til að skoða umhverfi sitt bæði nær og fjær. Yngsta stigið fór ásamt elstu nemendunum af leikskólanum í rútuferð til Ísafjarðar þar sem þeir skoðuðu Dúkkusafnið í Hæstakaupstað svo var haldið á Þórustaði þar sem allir sem vildu fengu að fara á hestbak. Miðstigið heimsótti vini okkar á Þingeyri og fékk meðal annars að fara út í fiskeldiskví þegar verið var að fóðra, þau hjóluðu svo út í Selárdal og reyndu sig meðal annars við að vaða í læknum í ísköldum vorleysingunum. Unglingastigið fékk að prófa kajak á Lóninu, fór í árlega hjólaferð í gegnum göngin til Ísafjarðar og svo í bogfimi. Á miðvikudag var svo tiltekt í skólanum, sameiginlegur leikur fyrir alla og hamborgarar að lokum. Á fimmtudag unnu starfsmenn að námsmatinu og svo voru skólaslit í dag sem verða gerð skil í sérstakri frétt.