VALMYND ×

Fréttir vikunnar 7.-11.desember

Ævar Þór les fyrir nemendur
Ævar Þór les fyrir nemendur
1 af 3

Þessi vika var um margt viðburðarík hjá okkur og sum verkefni hennar sýndu okkur með áþreifanlegum hætti að þó að maður búi landfræðilega séð á enda veraldar þarf það ekki að trufla það að maður geti haft samskipti við fólk víða að og notið menningarviðburða, jafnvel þó að þeir séu langt í burtu. 

Við fengum upplestur frá Ævari vísindamanni, hann las fyrir miðstigið úr bókinni sinni ,,Þín eigin undirdjúp“. Krakkarnir voru áhugasamir og spurðu margra spurninga, þetta var kannski ekki eins og að fá rithöfund í eigin persónu á staðinn en kostaði líka bara brotabrot af því sem það hefði kostað og var mjög skemmtilegt.

Svo fylgir með þessari frétt mynd af miðstiginu þar sem krakkarnir voru að gæða sér á pitsusnúðum sem þeir bökuðu með kennaranum sínum í viðurkenningarskyni fyrir góða ástundun í lestrarátaki síðustu vikna. 

Á föstudaginn var svo unglingastigið þátttakandi í fjölþjóðlegri ráðstefnu um mannréttindi í tengslum við Erasmus+ verkefnið okkar. Þetta var síðasti hluti þeirrar vinnu og þessi partur var skipulagður af okkur hér á Íslandi og við stýrðum þessari ráðstefnu.  Nemendur frá samstarfslöndunum áttu að að heimsækja okkur í þessari lotu en auðvitað var það ekki hægt.  Krakkarnir gerðu í staðinn flott myndband af áhugaverðum stöðum á Íslandi undir tónlist frá Mugison til að sýna þeim sem ekki fengu að koma í heimsókn.  Í verkefnavinnunni lögðum við áherslu á hvað einstaklingar gætu gert til að vinna með því að mannréttindi séu virt og fengum meðal annars fyrirlestra frá Amnesty International.  Krakkarnir voru búnir að kynna sér málefni íbúa Chagoseyja og greina hvernig nánast allar greinar Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna voru brotnar af Bretum þegar þeir voru fluttir burt frá heimkynnum sínum í kringum 1970.  Nemendur okkar gerðu líka samantekt yfir hvað þeir eru búnir að læra í allri þessari mannréttindavinnu sem við höfum verið í síðustu tvö ár. Hlekkur á myndbandið með þeirri samantekt er hér https://youtu.be/pfq1xE5GG7Y

Næsta vika

Næsta vika er síðasta skólavikan fyrir jólafrí.  Vegna sóttvarnafyrirmæla munum við ekki vera með venjulega jóladagskrá að þessu sinni. Skóladagarnir verða að mestu hefðbundnir mánudag til fimmtudags þó að eitthvað verði gert af jólaföndri og við reynum að hafa dagskránna létta.  Á föstudaginn eru svo litlu jólin í skólanum. Þá er skóli frá klukkan 9:00 -11:30 og ekki hádegismatur í skólanum.  Þá er gert ráð fyrir að nemendur komi prúðbúnir í skólann og kennararnir sjá um að dagskráin verði bæði hátíðleg og skemmtileg. Við höldum í þá hefð að hafa pakkaleik á litlu jólunum, allir nemendur eru beðnir að koma með litla gjöf í skólann þann dag, hún má ekki kosta meira en 1000 krónur. Nemendur draga svo um hver fær hvaða gjöf. 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum