VALMYND ×

Fréttir vikunnar 9.-13.mars

Óskilamunir í skólanum
Óskilamunir í skólanum

Við, eins og aðrir höfum þurft að innleiða breytingar á daglegu starfi til að reyna að hindra útbreiðslu Covid-19 veirunnar.  Við höfum sett spritt í allar skólastofur og leggjum aukna áherslu á handþvott. Núna þurfa til dæmis allir að fara og þvo sér um hendur áður en þeir fara í mötuneytið sem er jú bara góður siður og þar er öllum skammtað á diska. Við fylgjumst með tilmælum frá Landlækni og Almannavörnum og förum eftir þeim leiðbeiningum sem þar eru gefnar eftir bestu getu. Útfærsla á samkomu banni hefur lítil áhrif hjá okkur þar sem við erum sjaldan svo mörg í einu á sama stað. Ef frekari takmarkanir verða mun ég setja fréttir af því inn á heima- og facebook síður skólans.

Æfingar á leikritinu eru komnar á fullt og nemendur hafa fengið með sér heim lýsingu á hvernig búningurinn þeirra gæti verið. Ef þið eruð í vandræðum með að útvega það sem þarf, endilega hafið samband við okkur sem fyrst. Við höfum ákveðið að halda æfingaplani vegna árshátíðarinnar þó að líklega verðum við að fresta sjálfri sýningunni, allavega miðað við fréttir dagsins í dag.

Í tengslum við þróunarverkefni skólanna hér á Suðureyri höfum við skipulagt seinni fræðslufundinn fyrir foreldra á þessu skólaári þann 14.apríl. Þar verður fjallað um fjölmenningu og fleira. Ítarleg lýsing hefur verið send ykkur í tölvupósti og við vonumst eftir að allir geti verið með okkur þennan dag.

Mynd af óskilamunum sem safnast upp í skólanum er nú komin á facebook-síðuna. Við höfum beðið nemendur að skoða hvort þeir eigi eitthvað af þessu en enginn þeirra kannast við fötin sem öll eru ómerkt. Við viljum endilega koma þessu til skila svo eigendur geti notað fötin sín svo ef þið kannist við eitthvað af þessu biðjum við ykkur um að sækja.  Allir óskilamunir verða sendir í Rauða krossinn þegar skóla lýkur í vor.