Fréttir vikunnar 9.-13.nóv
Krakkarnir okkar hafa verið ótrúlega duglegir að fara eftir sóttvarnarreglunum þessa viku og eiga skilið hrós fyrir það. Við vonum að við losnum við grímurnar sem fyrst, en meðan þær eru skylda notum við þær.
Á miðvikudaginn unnu unglingarnir með félögum okkar í Svíþjóð, Hollandi, Grikklandi og Búlgaríu í Erasmus+verkefninu okkar. Vinnan fór fram í gegnum Teams og tókst bara mjög vel. Eins og áður vorum við að fjalla um Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og næsta verkefni okkar í þessu, sem jafnframt er það síðasta, verður ráðstefna sem við munum halda þann í samstarfi við Amnesty international þann 11.desember.
Við höfum ákveðið að fresta lestrarhátíðinni okkar um viku í þeirri von að þá verði búið að létta þannig á sóttvörnum að við megum vera grímulaus. Hún verður því 23.nóvember. Þið munið fá nánari fréttir af henni þegar nær dregur.
Í dag voru nemendur miðstigs að skila af sér í áhugasviðsverkefni. Að þessu sinni var verið að fjalla um höfundarrétt og nemendur gerðu ýmist útvarpsleikrit eða vídeoþætti. Þeim fer stöðugt fram í þessari vinnu og það verður gaman þegar við getum farið að bjóða gestum á lokakynningar.
Nú ættu allir að vera búnir að fá heim miða um foreldraviðtölin sem munu fara fram í gegnum forritið zoom að þessu sinni, það er talsverð áskorun og við hlökkum til að prófa þetta því ef vel gengur getum við líka boðið ykkur að fylgjast með öðrum viðburðum í skólanum með þessari tækni.
Hafið það gott um helgina
Kveðja
Starfsfólkið í skólanum