Græddur er geymdur eyrir
Í dag kom bankamaðurinn Hrafn Snorrason í skólann á vegum Fjármálavits og fræddi elstu nemendurna um fjármál og peninga. Hópnum var skipt upp í fjóra smærri hópa þar sem hver einn vann sitt verkefni. Það var fólgið í því að gera sér upp persónu og að áætla hvað hún kostaði með öllu því sem henni fylgir s.s. fatnaði, tómstundum o.s.frv. Dýrasta persónan fór yfir tvær milljónir og sú ódýrasta reyndist vera um fimm hundruð þúsund krónur.
Af þessu gátu krakkarnir lært að það veltur á eigin eyðslu hvernig manni reyðir af í ólgusjó fjármálaheimsins.
Athyglisvert var hve nemendurnir höfðu sterka vitund fyrir peningum svo segja má að hin gömlu súgfirsku gildi vinnusemi og sparnaður séu enn við lýði í firðinum fagra.