VALMYND ×

Helstu fréttir vikunnar 29.október – 2.nóvember

Helstu tíðindi úr skólanum þessa vikuna eru að nokkuð hefðbundin vinna var í skólanum flesta daga.  Unglingarnir stóðu þó fyrir hrekkjavökuballi á þriðjudaginn.  Öllum nemendum var boðið, þó í mislangan tíma.  Yngri nemendur fóru heim kl.21 en þeir eldri voru til 22.  Skemmtunin tókst mjög vel, sumir nemendur, og foreldrar, höfðu lagt mikið í búningana sína og var útlit sumra vægast sagt ógnvekjandi.  Margskonar dansar voru dansaðir og unglingarnir voru hin besta fyrirmynd fyrir yngri krakkana um hvernig maður hagar sér á dansleikjum.

Yngstu nemendurnir fóru með Ásu í heimsókn á leikskólann, sem er líður í samstarfi leik-og grunnskóla um skólabyrjun.

Unglingarnir fóru í FabLab á Ísafirði í dag og vonandi koma þeir með eitthvað skemmtilegt heim.  Ef mikil eftirspurn verður munum við hugsanlega fara einn dag í viðbót í FabLabið enda er margt hægt að læra þar.

Foreldraviðtöl voru einnig í þessari viku, þar var rætt hvernig gengur almennt í skólanum með sérstakri áherslu á hvernig gengur að vinna að markmiðunum sem hver og einn setti sér í haust.  Þeir sem ekki hafa komist í þessari viku munu fá úthlutað tíma í þeirri næstu.

Á fimmtudagskvöldið var söfnunarþáttur á RÚV þar sem fjallað var um kynferðisofbeldi og forvarnir.  Tvö af viðtölunum sem þar voru eru nú komin inn á facebooksíðu skólans þar sem mikilvægt er að foreldrar horfi á þau til að átta sig betur á þeim veruleika sem börn og unglingar lifa við í dag.

Í næstu viku er baráttudagur gegn einelti, við erum að undirbúa vinnu vegna hans sem vonandi mun birtast ykkur þann 8.nóvember.  Í næstu viku munið þið líka fá boð á fund hjá foreldrafélaginu sem verður þann 13.nóvember kl.17:00.  Við erum líka byrjuð að undirbúa ,,Lestrarhátíð Suðureyrar” sem haldin verður á degi íslenskar tungu, þann 16.nóvember.  Ef einhver vill leggja hugmyndir inn í þá vinnu er bara að hafa samband við okkur, við tökum því fagnandi.

Kveðja

Jóna