VALMYND ×

Í vikulokin

Það koma líklega aldrei alveg hversdagslegar vikur í skólanum.  7. bekkur tók sín samræmdu próf í þessari viku og hver svo sem niðurstaðan verður get ég sagt með sanni að allir vönduðu sig og gerðu sitt besta. 

Mér finnst afskaplega gaman að sjá hvað krakkarnir hér á Suðureyri leika sér skemmtilega saman í skotbolta í frímínútum þó að auðvitað komi stundum hnökrar í þann leik eins og annan.  Annan leik sem ég sá í fyrsta skipti á skólalóðinni í dag og kalla ,,hanaslag" ræddi ég um við krakkana.  Sá leikur gengur út á að hlaupa hver á annan, helst þar til annar aðilinn fellur.  Ég tók þá einhliða ákvörðun að banna slíka ofbeldisleiki á skólatíma og hef látið krakkana vita af því.

Í næstu viku verða foreldrafundir á þriðjudag og miðvikudag.  Okkur langar til að ræða við ykkur um ýmsa þætti er snúa að skólagöngu barna og samstarfi heimila og skóla.  Á þriðjudaginn eigum við líka von á Þorgrími Þráinssyni rithöfundi sem verður með innlegg fyrir unglingastig og miðstig og þá fáum við jafnframt heimsóknir frá krökkunum á Flateyri og Þingeyri sem verða með okkur í þessu.  4.bekkur fer svo í samræmt próf á fimmtudag og föstudag svo það er alltaf nóg að gera hjá okkur.