VALMYND ×

Skólaslit

Ágætu lesendur

Í dag var Grunnskólanum á Suðureyri slitið í 112 skiptið. Það eru alltaf skemmtileg tímamót þegar skólanum er slitið á vorin. Í vetur höfum við lagt megináherslu á að efla færni nemenda í lestri og málnotkun, vinnu með nemendalýðræði og að efla sköpunargleði ásamt því að auka ábyrgð nemenda á eigin námi. Þá vorum við líka með þróunarverkefni um eflingu foreldrasamstarfs á dagskrá, en það gekk ekki sem skyldi vegna sóttvarnaráðstafana, þó tókst okkur að halda einn fræðslufund með foreldrum í lok maí. Á þeim fundi var fjallað um mikilvægi þess að foreldrar geri sér grein fyrir hvað felst í því að ala barn upp í fjölmenningarsamfélagi, muninn á íslensku og pólsku skólakerfi og almennt um íslenska skólakerfið fyrir foreldra af erlendum uppruna.  Það er mjög mikilvægt að við hugsum öll um hvað við getum gert til að efla samstöðu í samfélaginu og upplifun íbúa á því að þeir eigi þetta samfélag allir saman, beri allir ábyrgð á að það gangi vel og að við getum átt góða samleið sem íbúar.

Það hefur verið ákaflega lærdómsríkt að fá að stýra þessum skóla undanfarin þrjú ár og ég kveð Grunnskólann á Suðureyri full af þakklæti til nemenda, samstarfsmanna og foreldra. Við höfum unnið saman að mörgum frábærlega skemmtilegum og árangursríkum verkefnum. Þar má telja nemendaþingin sem hafa eflt getu nemenda til þátttöku, málefnalegra samræðna og vitundar um mikilvægi þess að láta sig samfélagið varða. Áhersluna á lestur og orðaforða sem hefur skilað skemmtilega góðum árangri og svo síðast en ekki síst áhugasviðsverkefnið, sem hefur eflt sköpunargleði nemenda og ábyrgð þeirra á eigin námi. Það hefur verið einstaklega skemmtilegt að fylgjast með nemendum vaxa og þroskast og sjá þá taka margvíslegum framförum í námi, hegðun, ábyrgð og almennri þátttöku sem er einmitt forsenda þess að byggja upp gott samfélag. 

Ég er sannfærð um að þegar fram í sækir er sú námsreynsla sem nemendur hafa fengið hér í skólanum þeim gott vegarnesti inn í framtíðina. Framtíð sem við vitum ekki hvernig verður en þar mun örugglega koma að góðum notum að kunna að einbeita sér, vinna skipulega, geta átt í góðum samskiptum og leyst úr viðfangsefnum á skapandi hátt, en þetta höfum við haft að leiðarljósi í skólanum undanfarin ár.

Ég þakka samstarfsfólki fyrir góða og öfluga samvinnu því uppbygging skólamenningar er samstarfsverkefni allra sem að skólastarfinu koma og án þess hefði ekki verið hægt að gera neitt af þessu. Þá þakka ég foreldrum og öllum öðrum samstarfsmönnum fyrir góða samvinnu og síðast en ekki síst þakka ég nemendum Grunnskólans á Suðureyri fyrir skemmtilegt samstarf.

Takk fyrir mig

Jóna Benediktsdóttir