VALMYND ×

Suðurferð í úrslit

1 af 2

Með sigri sameiginlegs liðs Suðureyrar og Súðavíkur í Vestfjarðarriðli Skólahreystis tryggðum við okkur sæti í úrslitum. Úrslitin fóru fram í Laugardalshöllinni í beinni útsendingu á rúv 2. maí.

Í liðinu voru Flóki Hrafn Markan (upphífingar og dýfur), Hjördís Harðardóttir (armbeygjur og hang), Hera Magnea Kristjánsdóttir (hraðabraut), Ragnar Berg Eiríksson (hraðabraut), Gabríel Bjarkar Eiríksson (varamaður) og Þórunn Birna Bjarnardóttir (varmamaður).

Við tókum daginn snemma á miðvikudag, flugum suður og leigðum bíl. Sóttum boli fyrir stuðningsfólkið, fengum okkur gott að borða og böðuðum okkur. Síðan var farið á æfingar í laugardalshöllinni. Stuðningsfólkið að vestan fór með rútu og var mætt tímanlega fyrir keppni til að hita aðeins upp fyrir átök kvöldsins.

Það er óhætt að segja að mikil spenna hafi verið í loftinu þegar keppnin byrjaði. Stuðningsfólk  öskraði og hvatti og keppendur stóðu sig einstaklega vel. Þjálfarar liðsins, Karlotta Dúfa Markan, Sara Hrund Signýjardóttir og undirritaður lögðu mikla áherslu á það fyrir keppni að allir settu sér það markmið að bæta sig. Þótt önnur lið séu á vellinum er keppnin fyrst og fremst við sjálfan sig. Gera betur í dag en í gær.

Það hafa allir sýnt gífurlegar framfarir í vetur og persónuleg met fallið reglulega. Liðið endaði í 7. sæti í frumraun sinni í úrslitum Skólahreystis og erum við öll að springa úr stolti. Það voru hressir og ánægðir krakkar sem yfirgáfu höllina þetta kvöld. Umræðan í rútunni snéri að mestu að því hverjir yrðu í liðinu á næsta ári og hvort við kæmumst ekki lengra þá.

Áður en farið var að sofa í Hólmaseli horfðu krakkarnir á Skólahreysti á sarpinum. Morguninn var tekin snemma og farið niður í bæ. Sara tók hálfan hópinn í smá göngutúr um miðbæinn á meðan hinn helmingurinn skoðaði borgarsögusafnið. Krökkunum fannst safnið skemmtilegt en það átti þó ekki roð í tökur á Ófærð sem við fengum að fylgjast með við Austurvöll. Áður en haldið var heim fórum við í sund og fengum okkur að borða.

Frábær ferð með frábæru fólki. Einhverjir nemendur höfðu það á orði að við þyrftum að fara suður oftar. Það væri svo gaman að fara í svona ferðir. Það er ljóst að svona ferðir gera mikið fyrir krakkana og það er mikið nám fólgið í mikilli samveru og auðvitað eru svona ferðir frábært tækifæri til að skoða og gera ýmislegt sem ekki gefst færi á dags daglega. Við viljum því þakka þeim fyrirtækjum og velunnurum skólana kærlega fyrir að gera okkur kleift að fara í þessa ferð.

 

Klofningur   Fisherman   HG   Air Iceland connect   Sea angling

TAKK fyrir okkur :)

 

Hér eru myndir úr ferðinni.

 

Krakkarnir voru okkur öllum til mikils sóma og ég hvet alla til að ræða við þau, óska þeim til hamingju og spyrja þau út í ferðina, keppendur jafnt sem stuðningsfólk.