Vikan 11.-15.mars
Þessa viku er búið að vera mjög mikið að gera hjá okkur eins og þið sjálfsagt vitið. Á þriðjudaginn fórum við til Þingeyrar þar sem nemendur 7.bekkjar tóku þátt í undankeppni litlu skólanna vegna Stóru upplestrarkeppninnar og nemendur 6.bekkjar fóru með til að undirbúa sig fyrir næsta vetur. Einn nemandi frá okkur komst áfram og annar var valinn sem varamaður.
Nú á þriðjudaginn fengum við einnig tæknideild Ísafjarðarbæjar í heimsókn til að athuga, í annað sinn, hvort hætta sé á að mygla sé vandamál í skólanum. Þeir tóku sýni víða úr húsnæðinu og ég mun láta ykkur vita þegar niðurstöður úr þeim koma.
Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag þreyttu nemendur 9.bekkjar samræmd próf í íslensku, stærðfræði og ensku.
Eftir hádegi á miðvikudaginn héldu svo nemendur 9. og 10.bekkjar til Reykjavíkur þar sem við fórum, ásamt nemendum frá Flateyri og Þingeyri, á tvær sýningar. Annars vegar Norðurljósasýningu og ,,Vatnið í náttúru Ísland" í Perlunni og hins vegar sýninguna ,,Mín Framtíð" sem er kynning allra framhaldsskóla á landinu og um leið Íslandsmeistaramót í iðngreinum. Það voru því nokkuð þreyttir unglingar sem komu heim seint á fimmtudagskvöld.
Nú vikunni lauk svo með því að nemendur á miðstigi fóru í heimsókn til Orkubús Vestfjarða og skoðuðu virkjunina í Engidal. Þessi heimsókn var í tengslum við orkuverkefni sem þeir hafa verið að vinna undanfarna daga.
Svo þið sjáið að það var engin lognmolla hjá okkur frekar en fyrri vikurnar.
Á morgun er svo fjölmenningarhátíðin haldin í Félagsheimilinu og ég hvet ykkur öll til að fjölmenna á hana. Þar verður örugglega gaman.