Vikan 16.-20.september
Helstu fréttir af skólastarfinu í vikulokin.
Þessi vika var nokkuð hefðbundin hjá okkur. Við tókum að vísu þátt í Olympíuhlaupi Íslands sem að þessu sinni var ákveðið að hefja á Ísafirði og bauð ÍSÍ okkur þangað og þar töluðu afreks-íþróttamenn við nemendur. Af okkar hálfu voru það nemendur 4.-10 bekkjar sem tóku þátt í þessu.
Nemendur í 4. og 5. bekk fengu afhenta ipada til að nota í skólanum. Þeir fara ekki með þá heim og er því ábyrgð á tækjunum alfarið skólans. Þetta er samkvæmt stefnu Ísafjarðarbæjar um að nýta tækni í skólastarfi svo nemendur læri að tæknin er eðlilegur hluti af daglegu lífi og gert hluti sem þeim væru annars ófærir og auðgað nám sitt.
Þó að við séum tæknivædd og viljum að nemendur okkar komi vel tæknilæsir út úr grunnskóla hefur gildi þess að skoða hlutina með eigin augum og að fá að handfjatla þá ekki minnkað. Yngstu nemendurnir voru til dæmis í fuglaskoðun innanhúss í dag eins og meðfylgjandi myndir sýna.
Miðstigið lauk við að vinna sinn bekkjarsáttmála í dag og mynd af honum fylgir með þessari frétt. það er svo gaman að sjá hversu vel þeir vita hverskonar hegðun og framkoma skapar besta umhverfið. Svo er það okkar, fullorðna fólksins að hjálpa þeim að stýra hegðun sinni á þann veg.
Afrakstur nemendaþingsins er enn í hönnunar-og skreytingaferli hjá nemendum en eitt af því sem mun komast til framkvæmda strax er að setja upp hugmyndabanka fyrir matráðskonuna okkar og að nemendur fái val um hvað verður á matseðli einu sinni í mánuði.