VALMYND ×

Vikan 9.-13.september

Hópurinn á Hesteyri
Hópurinn á Hesteyri
1 af 3

Þessi vika var allt í senn óvenjuleg, annasöm og skemmtileg hjá okkur. Sundkennsla hófst á þriðjudaginn og mun standa næstu fjórar vikurnar. Við fórum í ferð á Hornstrandir með nemendur 7.-10.bekkjar og skemmst er frá því að segja að í ferðinni reyndi á nánast alla þá þætti sem skilgreindir eru sem lykilhæfni í Aðalnámskrá grunnskóla. Allir nemendur fóru út fyrir eigin þægindaramma og tókust á við að gera eitthvað sem þá óaði fyrir fyrirfram. Þeir voru forvitnir um umhverfið og fundu margt skemmtilegt eins og marglyttur, dauðan ref, sveppi og auðvitað aðalbláber. Þeir óðu yfir á, hjálpuðust að, gáfu með sér af nestinu sínu, lánuðu hver öðrum þurra sokka og föt eftir þörfum. Þeir urðu þreyttir, svangir og blautir og fengu að borða, hvíla sig og náðu að þorna.  Krakkarnir voru í alla staði til fyrirmyndar og ég vona að ferðin verði þeim eftirminnileg. Á fimmtudaginn héldum við svo fyrsta nemendaþing vetrarins, umræðuefni að þessu sinni var hvernig við þurfum að haga okkur í matsal og frímínútum svo sem flestum líði vel. Fimm sjálfboðaliðar hjálpuðu svo til í morgun við að taka niðurstöðurnar saman og munum við vinna meira með þær eftir helgi og svo birtum við þær á vefnum.  Í dag var svo fyrsti tíminn í föstudagsverkefninu þar sem ætlunin er að færa nemendum eins mikið frelsi og hægt er til að velja viðfangsefni og hvernig þeir skila verkefnum. Flestir komust af stað í verkefni sem þeir höfðu áhuga á en það mun taka nokkrar vikur að slípa þetta til.