fréttir vikunnar 17.-21.febrúar
Fréttir vikunnar 17. - 21.febrúar 2020
Þessa vikuna er það helst að frétta af starfi skólans að miðstigið heldur áfram að vigta ruslið sitt og vinna með umhverfisvernd. Niðurstöður þeirra fyrir tvær síðustu vikur eru að almennt rusl var 147 gr., pappír 5982 gr., plast 1024 gr. og matarafgangar 4819 gr., alls tæplega 12 kíló. Krakkarnir eru meðvitaðir um að þetta er mikið af efni sem fer forgörðum en það góða í þessu er að almenna ruslið er mjög lítið svo það má sjá að nemendur eru duglegir að flokka í skólanum og við vonum að þeir séu líka duglegir að flokka heima og minna ykkur á ef þið gleymið ykkur. Þannig tökum við öll saman ábyrgð á umhverfinu.
Í dag héldum við þriðja nemendaþing vetrarins. Að þessu sinni unnu nemendur með einkunnarorð skólans líkt og foreldrar og starfsmenn gerðu fyrr í vetur. Niðurstöður eru ekki tilbúnar en við sjáum að krakkarnir eru orðnir vel þjálfaðir í þessum vinnubrögðum. Það finnst okkur ánægjulegt þar sem þetta er sú vinna sem styður einna best við lýðræði í skólastarfi og kennir nemendum að það er hægt að hafa áhrif á starfsumhverfi sitt með málefnalegri umræðu.
Unglingastigið vann svipaða vinnu fyrr í vikunni þegar við fengum nemendur þar til að hjálpa okkur við innra mat á skólastarfinu. Nú í vetur eigum við að meta hvernig gengur að vinna með grunnþætti menntunar í skólastarfinu og það er okkur afar dýrmætt að fá fram hvernig nemendur sjá þá vinnu og hvað þeir telja líklegt að gæti orðið til úrbóta.
Skólavikunni lauk svo með Tarsanleik í íþróttahúsinu.
Við minnum á að á öskudag 26.feb. er starfsdagur og svo vetrarfrí 27. og 28. febrúar
Í kvöld er þorrablót foreldrafélagsins og vonumst við til að hitta sem flesta þar.