VALMYND ×

Fréttir

Vegna slæmrar veðurspá á morgun, þriðjudag

Ísafjarðarbær hefur gefið út viðmið hvenær loki eigi stofnunum vegna óveðurs. Þar kemur m.a fram að stofnunum bæjarins er ekki lokað nema algjöra nauðsyn beri til og geti forstöðumaður lokað stofnun af einni eða fleirum ástæðum;

-Tilmæli frá Almannavörnum eða Lögreglu

-Rafmagnsleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að halda stofnuninni opinni

- Ófærð er svo almenn að ekki nái að kalla til lágmarks fjölda starfsmanna til að halda a.m.k skertri þjónustu

 

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og fréttum af veðri. Skólum verður ekki aflýst nema tilmæli komi frá Almannavörnum eða Lögreglu. Foreldrar verða að meta hvort óhætt sé fyrir börn þeirra að sækja skólann. Ef foreldrar velja að hafa börn sín heima þá þarf að láta skólann vita. 

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með á síðunum almannavarnir.is og vedur.is

Foreldrafélagið

Sælir foreldrar

Foreldrafélagið mun halda Aðalfund í skólanum þann 12. oktober kl 17:00. Kosið verður í nýja stjórn félagsins. Mikilvægt er að einn forráðamaður/foreldri komi frá hverju barni á fundinn. 

Yrkjusjóður

1 af 4

Nokkur fjöldi nemenda í grunnskólanum fór að grjóðursetja plöntur frá Yrkjusjóð. Markmiðið með því var að sporna gegn loftlagsbreytingum með því að efla skógrækt og landgræðslu og bæta hnignun vistkerfi sem eru mjög algeng hér á landi. Ríksistjórnin stendur fyrir þessu átaki og er markmiðið að eftir þrjú ár verði búið að gróðursetja eitt birkitré á hvern landsmann. 

Sundkennsla

Sælir lesendur

Nú mun sundkennsla hefjast hjá okkur í Grunnskólanum. Kennt verður á miðvikudögum hjá öllum árgöngum í staðinn fyrir íþróttatímana. Sundkennarinn heitir Magnús Már Jakobsson en hann hefur mikla reynslu sem sundþjálfari. 

Skólaslit

Ágætu lesendur

Í dag var Grunnskólanum á Suðureyri slitið í 112 skiptið. Það eru alltaf skemmtileg tímamót þegar skólanum er slitið á vorin. Í vetur höfum við lagt megináherslu á að efla færni nemenda í lestri og málnotkun, vinnu með nemendalýðræði og að efla sköpunargleði ásamt því að auka ábyrgð nemenda á eigin námi. Þá vorum við líka með þróunarverkefni um eflingu foreldrasamstarfs á dagskrá, en það gekk ekki sem skyldi vegna sóttvarnaráðstafana, þó tókst okkur að halda einn fræðslufund með foreldrum í lok maí. Á þeim fundi var fjallað um mikilvægi þess að foreldrar geri sér grein fyrir hvað felst í því að ala barn upp í fjölmenningarsamfélagi, muninn á íslensku og pólsku skólakerfi og almennt um íslenska skólakerfið fyrir foreldra af erlendum uppruna.  Það er mjög mikilvægt að við hugsum öll um hvað við getum gert til að efla samstöðu í samfélaginu og upplifun íbúa á því að þeir eigi þetta samfélag allir saman, beri allir ábyrgð á að það gangi vel og að við getum átt góða samleið sem íbúar.

Það hefur verið ákaflega lærdómsríkt að fá að stýra þessum skóla undanfarin þrjú ár og ég kveð Grunnskólann á Suðureyri full af þakklæti til nemenda, samstarfsmanna og foreldra. Við höfum unnið saman að mörgum frábærlega skemmtilegum og árangursríkum verkefnum. Þar má telja nemendaþingin sem hafa eflt getu nemenda til þátttöku, málefnalegra samræðna og vitundar um mikilvægi þess að láta sig samfélagið varða. Áhersluna á lestur og orðaforða sem hefur skilað skemmtilega góðum árangri og svo síðast en ekki síst áhugasviðsverkefnið, sem hefur eflt sköpunargleði nemenda og ábyrgð þeirra á eigin námi. Það hefur verið einstaklega skemmtilegt að fylgjast með nemendum vaxa og þroskast og sjá þá taka margvíslegum framförum í námi, hegðun, ábyrgð og almennri þátttöku sem er einmitt forsenda þess að byggja upp gott samfélag. 

Ég er sannfærð um að þegar fram í sækir er sú námsreynsla sem nemendur hafa fengið hér í skólanum þeim gott vegarnesti inn í framtíðina. Framtíð sem við vitum ekki hvernig verður en þar mun örugglega koma að góðum notum að kunna að einbeita sér, vinna skipulega, geta átt í góðum samskiptum og leyst úr viðfangsefnum á skapandi hátt, en þetta höfum við haft að leiðarljósi í skólanum undanfarin ár.

Ég þakka samstarfsfólki fyrir góða og öfluga samvinnu því uppbygging skólamenningar er samstarfsverkefni allra sem að skólastarfinu koma og án þess hefði ekki verið hægt að gera neitt af þessu. Þá þakka ég foreldrum og öllum öðrum samstarfsmönnum fyrir góða samvinnu og síðast en ekki síst þakka ég nemendum Grunnskólans á Suðureyri fyrir skemmtilegt samstarf.

Takk fyrir mig

Jóna Benediktsdóttir

Fréttir vikunnar 31.maí.-4.júní

Fyrir utan Dúkkusafnið í Hæstakaupstað
Fyrir utan Dúkkusafnið í Hæstakaupstað
1 af 8

Dagskráin þessa vikuna litaðist af útivist og gleði hjá okkur. Allir námshópar fóru í ferðir og sumir fleiri en eina og nýttu góða veðrið til að læra um samvinnu og hjálpsemi, þrautseigju, áræðni og til að skoða umhverfi sitt bæði nær og fjær. Yngsta stigið fór ásamt elstu nemendunum af leikskólanum í rútuferð til Ísafjarðar þar sem þeir skoðuðu Dúkkusafnið í Hæstakaupstað svo var haldið á Þórustaði þar sem allir sem vildu fengu að fara á hestbak.  Miðstigið heimsótti vini okkar á Þingeyri og fékk meðal annars að fara út í fiskeldiskví þegar verið var að fóðra, þau hjóluðu svo út í Selárdal og reyndu sig meðal annars við að vaða í læknum í ísköldum vorleysingunum. Unglingastigið fékk að prófa kajak á Lóninu, fór í árlega hjólaferð í gegnum göngin til Ísafjarðar og svo í bogfimi. Á miðvikudag var svo tiltekt í skólanum, sameiginlegur leikur fyrir alla og hamborgarar að lokum. Á fimmtudag unnu starfsmenn að námsmatinu og svo voru skólaslit í dag sem verða gerð skil í sérstakri frétt.

Rafhlaupahjól og vespur

Frá Samgöngustofu

Ágætu foreldrar

Hér er tilkynning frá Samgöngustofu og hlekkir þar sem hægt er að fræðast nánar um notkun og öryggi í tengslum við rafhlaupahjól og vespur

Vinsældir rafhlaupahjóla og léttra bifhjóla í flokki I (vespa) hafa aukist að undanförnu hér á landi enda frábær farartæki séu þau notuð rétt. Við hjá Samgöngustofu höfum nú tekið saman upplýsingar um notkun þeirra og öryggi

Rafhlaupahjól:
Upplýsingasíða um rafhlaupahjól: www.samgongustofa.is/rafhlaupahjol


Fræðslumyndband um rafhlaupahjól á íslensku, með enskum texta og með pólskum texta.

https://www.youtube.com/watch?v=2dAK5MKM3As&list=PL3prAqz9YEX4yyfaxFCn0vy65LFI05wEU&index=2

 

Upplýsingasíða um létt bifhjól í flokki I: www.samgongustofa.is/lettbifhjol


Fræðslumyndband um létt bifhjól í flokki I á íslensku, með enskum texta og með pólskum texta.    

https://www.youtube.com/watch?v=45V0Vj_zWTU

 

Fréttir vikunnar 25.-28.maí

Hoppað í sjóinn
Hoppað í sjóinn
1 af 3

Veðrið hefur leikið við okkur þessa viku og því hefur verið mikið um útivist hjá nemendum og svo hefur tíminn verið nýttur í kannanir og allskonar frágang á verkefnum.

Nemendur 2.bekkjar luku við að smíða blómakassana sem þeir voru að gera í smiðjunni útivist og upplifun og settu niður sumarblóm. Ég fullyrði að þetta eru krúttlegustu blómakassar á Vestfjörðum og þó víðar væri leitað. 

1.bekkur fékk að vanda gefins hjólahjálma frá Kiwanis. Rétt er að minna á að allir yngri en 15 ára eiga að vera með hjálm á hjóli. 

Við fengum niðurstöður úr Lesfimiprófum Menntamálastofnunar og þar má sjá að nemendur skólans eru í góðri framför, enda hafa þeir lagt mikið á sig.

Ærslabelgurinn sem Kvenfélagið Ársól gaf samfélaginu hefur heldur betur gert lukku og gleðin þar verið mjög mikil eins og sjá má á þessu myndbandi hér https://www.youtube.com/watch?v=mqt_GyUSlbc

Þá var hefðbundið ,,hopp í sjóinn“ á dagskrá hjá unglingunum í dag og þar var líka mikil gleði.

Dagskrá næstu viku mun litast af útivist og gleði alla daga.

Á mánudag fara bæði mið- og yngsta stig í heimsóknir. Yngsta stig fer á Ísafjörð og í Önundarfjörðinn og miðstigið heimsækir vini okkar á Þingeyri. Unglingastigið verður hér heima en fær að prófa að fara á kajak og fleira skemmtilegt. Þetta er jafnframt síðasti dagur í mötuneyti hjá okkur.

Á þriðjudag fara bæði miðstig og unglingastig í hjólaferðir. Unglingastigið hjólar með Söru á Ísafjörð og Bryndís fer með sem bílstjóri og sérlegur aðstoðarmaður. Miðstigið fær hjólin sín flutt inn að Botni og hjólar þaðan með Eddu og Jónu út í Selárdal. Jói aðstoðar við að koma krökkunum inn eftir. Yngsta stigið verður í útivist með Ásu og Lindu.

Á miðvikudag verða allir hópar í tiltekt, frágangi og leikjum. Þann dag verður hópleikur klukkan 11:00 sem allir bæjarbúar eru velkomnir með í. Klukkan 12 verður svo sameiginlegur matur fyrir alla nemendur og kennara.

Skólaslit verða svo föstudaginn 4.júní. Yngsta- og miðstig mæta klukkan 10:00 og fá sinn vitnisburð en unglingastigið mætir klukkan 17:00 í útskriftarathöfn fyrir 10 bekk og afhendingu vitnisburðar fyrir aðra.

Gaman væri ef sem flestir foreldrar gætu komið með nemendum á skólaslitin.

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum

Aukafrétt um lestur

Ágætu lesendur

Í dag vorum við að fá niðurstöður úr Lesfimiprófum Menntamálastofnunar fyrir þetta skólaár en stofnunin hefur skilgreint þrjú viðmið í lestri fyrir hvern árgang og undanfarin ár höfum við verið undir þeim viðmiðum í nokkrum árgöngum. Niðurstöðurnar núna eru samhljóma niðurstöðum í janúar sem við þorðum varla að trúa og sýna augljósar framfarir nemenda í lestri.  Við lok skólaársins 2020 voru þrír árgangar sem náðu ekki lágmarksviðmiði en nú er aðeins einn árgangur í þeirri stöðu. Við erum himinlifandi með þetta og þökkum öllum sem hafa lagt sig fram, nemendum, foreldrum og starfsmönnum þennan góða árangur.

Fréttir vikunnar 17.-21. maí

Brúarsmiðir Reykjavíkurborgar í heimsókn
Brúarsmiðir Reykjavíkurborgar í heimsókn
1 af 4

Það er búið að vera mjög mikið um að vera hjá okkur þessa vikuna. Á mánudag fengum við heimsókn frá Umboðsmanni barna sem ásamt þremur starfsmönnum embættisins hitti alla nemendur og átti sérstakan tíma með 6.bekk. Þessir gestir höfðu orð á því hvað nemendur í þessum skóla þekktu réttindi barna vel og væru færir í samræðum.

Á þriðjudag vorum við með fjölmenningarfræðsluna fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Þá komu ,,Brúarsmiðir“ frá Reykjavíkurborg til okkar og voru með umfjöllun um mikilvægi þess að leggja sig fram um að skilja ólíka menningu og hvað hægt er að gera til að efla þátttöku í samfélagi.  Þær voru svo einnig með fræðslu um íslenska skólakerfið fyrir foreldra sem ekki hafa reynslu af því sjálfir.  Þessir fræðslufundir voru mjög gagnlegir. Við þökkum öllum þeim sem mættu kærlega fyrir þátttökuna og skemmtilegar umræður. Auðvitað eru aðstæður fólks misjafnar til að sækja svona fundi og við gerum ráð fyrir að þeir sem ekki mættu hafi haft gildar ástæður fyrir því, en við hefðum gjarnan viljað sjá meiri þátttöku frá foreldrum með íslenskan bakgrunn því það er sameiginlegt verkefni okkar að byggja upp samfélag þar sem ætlast er til af öllum að þeir bæði gefi og þiggi.

Við vorum beinlínis hrærð yfir viðbrögðum brúarsmiðanna eftir heimsóknina og því ætla ég að setja hér með hluta úr tölvupóstinum sem þær sendu að heimsókn lokinni

,, Ég vil byrja að þakka fyrir okkur J Við vorum heillaðar af ykkar flotta og metnaðarfulla skólastarfi J Mér finnst alveg magnað að sjá hvað þið eruð að gera og metnaðurinn er einstakur“

Það er ekki oft sem við fáum sérfræðinga að sunnan í skólann og því er okkur mikils virði að fá jákvæð viðbrögð og þetta sýnir okkur að litlir skólar á enda veraldar geta alveg verið framúrskarandi í sínum verkefnum.

Á miðvikudag tóku síðan stelpurnar í 9.bekk þátt í viðburðinum ,,Stelpur og tækni“ sem sendur var út frá Háskólanum í Reykjavík. Þetta er í annað sinn sem við tökum þátt í þessu og eitt af því sem farið var að bjóða rafrænt með tilkomu Covid-19 svo það hefur líka haft jákvæð áhrif í einhverju.  Stelpurnar okkar voru mjög ánægðar með verkefnin sem þær unnu í gegnum þetta.

Á fimmtudag fundaði svo skólaráðið og þar var farið yfir helstu upplýsingar vegna komandi skólaárs. Nemendur komu með tillögu um að kaupa fleiri áhugaverðar bækur og að stytta matartímann aftur í 30 mínútur og þær tillögur verða settar í framkvæmd fyrir næsta ár.

Fyrir utan allt þetta voru svo nemendur yngsta stigs að smíða blómaker og nemendur miðstigs héldu uppskeruhátíð eftir lestrarátakið sitt. Þar fengu nemendur eina poppbaun fyrir hverja mínútu sem þeir lásu á tilteknum tíma og söfnuðu þannig saman með lestrinum yfir þremur kílóum af poppbaunum.