Fréttir
Fréttir vikunnar 11.-15.nóvember
Í skólanum gengur allt sinn vanagang þessa dagana. Við vinnum á hverjum degi að því að efla orðaforða og reyna að skapa hæfilega metnaðarfullt námsumhverfi fyrir nemendur. Á þriðjudaginn var foreldrafundur þar sem flutt voru fræðsluerindi um svefn og næringu og svo var unnið með einkunnarorð skólans ,,ástundun, árangur, ánægja“. Við álítum að þessi einkunnarorð geti orðið okkur hjálpleg í vinnunni með nemendum en til þess þurfum við að hafa á þeim sameiginlegan skilning og vita hvað við viljum gera með þau. Við munum vinna nánar úr tillögum foreldra og birta þær svo hér á fréttasíðunni.
Í dag var svo Lestrarhátíðin okkar. Nemendur höfðu æft ýmiskonar upplestur sem þeir fluttu fyrir foreldra og gesti og unglingarnir buðu upp á vöfflur með rjóma. Það er mjög hvetjandi fyrir unga lesara að hafa áheyrendur að því sem þeir lesa og við þökkum öllum sem komu fyrir þátttökuna.
Í næstu viku verða svo foreldraviðtöl. Að þessu sinni ætlum við að reyna að nýta þau líka til að efla ábyrgð nemenda á eigin námi með því að nemendur sjálfir velja hvað af því sem þeir hafa unnið að í vetur þeir vilja sýna foreldrum sínum. Þetta er tilraunaverkefni hjá okkur og eins og í öllum slíkum verkefnum þarf ekki að búast við að það verði fullkomið í fyrsta sinn en við erum spennt fyrir því að vera með eitt svona viðtal á hverju ári. Nemendur hafa fengið tímasetningar á viðtölunum sínum með sér heim.
Matseðill 11-15.nóvember
Mánudagur
Pólskt tómatsúpa með hrisgrjóni og pasta, ávextir
Þriðjudagur
Fiskur í raspi, kartöflur, salat, ávextir
Miðvikudagur
Chilli con carne, hrísgrjón, salat, ávextir
Fimmtudagur
Kjötfarsbollur, soðnar kartöflur og hvitkál, ávextir
Föstudagur
Sóðinn fiskur, kartöflur, gulrætur, ávextir
Fréttir vikunnar 4.-8.nóvember
Lesfimi og námsárangur
Nú erum við komin með niðurstöður bæði úr samræmdum prófum og fyrstu lesfimiprófum Menntamálastofnunar. Heildar árangur okkar nemenda á þessum prófum er ekki eins góður og við viljum hafa hann þannig að ljóst er að við þurfum að sameinast um að huga vandlega að því hvaða leiðir við getum notað til að bæta úr þessu. Lestrargeta nemenda í okkar skóla er almennt talsvert fyrir neðan landsmeðaltal og þar sem lestur er einn af lykilþáttunum í öðru námi teljum við mikilvægt að byrja þar. Ég ítreka því mikilvægi þess að nemendur lesi heima í það minnsta fimm sinnum í viku og að þið, ágætu foreldrar hlustið á þá og jafnvel spyrjið þá út úr því sem þeir lásu. Í skólanum leggjum við áherslu á að allir lesi á hverjum degi en við höfum ekki tækifæri til að hlusta á alla nemendur í 15 mínútur á dag sem er sá tími sem sérfræðingar segja að sé nauðsynlegur til að ná árangri og festa hann þannig að lestur verði sjálfkrafa ferli.
Hrekkjavökuball
Nemendur unglingastigs héldu hrekkjavökuball á þriðjudaginn. Flestir mætti í búningum og eldri nemendur stýrðu dansi og leikjum langt fram á kvöld. Nokkrar myndir af gleðinni fylgja með þessari frétt.
Nemendaþing
Í dag vorum við svo með annað nemendaþing ársins, umræðuefnið að þessu sinni var hvað hægt væri að gera til að fyrirbyggja einelti. Nemendur ræddu saman í hópum bæði um skilgreiningar á einelti og um hvað starfsfólk og nemendur gætu gert til að vinna gegn einelti. Flest af því sem nemendur nefndu snerist um viðbrögð við einelti en minna um hvað hver og einn gæti gert til að fyrirbyggja einelti. Það er vísbending fyrir okkur um að við ættum að vinna markvissar að því að fræða nemendur um gagnsemi jákvæðra og góðra samskipta í þessu efni.
Foreldraviðtöl
Dagana 14.- 19. nóvember verða foreldraviðtöl í skólanum. Að þessu sinni ætlum við að vera með viðtölin með breyttu sniði, svokölluð nemendastýrð foreldraviðtöl. Nemendur munu velja hvað þeir vilja sýna foreldrum sínum og hverju þeir vilja segja frá. Kennarar aðstoða nemendur við að undirbúa fundina. Nemendur og foreldrar fá úthlutað tíma þar sem þeir koma saman í skólann, kennarinn verður við í kennslustofunni til að svara spurningum sem upp kunna að koma en áherslan er á að nemendur útskýri fyrir foreldrum sínum hvað þeir eru að læra og hvernig þeir sinna náminu. Þetta er liður í því að efla ábyrgðartilfinningu nemenda fyrir eigin námi og vonandi leið til að auka skilning þeirra á mikilvægi þess að leggja sig ávalt fram um að sinna verkum sínum vel. Kennarar eru byrjaðir að undirbúa nemendur og það verður spennandi að sjá hvað þeir ákveða að sýna foreldrum sínum. Foreldrar fá fundarboð með tímasetningu fljótlega.
Að lokum
Almennur foreldrafundur verður haldinn í skólanum miðvikudaginn 13.nóvember. Á dagskrá verða tvö stutt en mikilvæg fræðsluerindi, veitingar og svo samræður um einkunnarorð skólans. Fundurinn verður frá kl.17:00 – 19:00. Túlkað verður á pólsku og taílensku og vonandi líka á ensku. Vonandi sjá allir sér fært að mæta því þátttaka ykkar í skólastarfinu skiptir miklu máli fyrir nemendur.
Matseðill 4-8.nóv
Mánudagur
Tómatsúpa með kjöti og grænmeti, nýbakað brauð með smjöri og osti, ávextir
Þriðjudagur
Fiskibollur, hýðishrísgrjón, sósa, grænmeti, ávextir
Miðvikudagur
Hakk ogg spagettí, salat, ávextir
Fimmtudagur
Lambasnitsel, kartöflur, rauðkál, grænar baunir, ávextir
Föstudagur
Soðinn fiskur, soðnar kartöflur, grænmeti, rugbrauð, ávextir
Fréttir vikunnar 28.okt-1.nóv 2019
Það er alltaf stuð hjá okkur í skólanum. Í liðinni viku fengum við heimsóknina ,,Skáld í skólum“ sem er bókmenntadagskrá á vegum rithöfundasambands Íslands. Þau Linda Ólafsdóttir, teiknari og barnabókahöfundur og Vilhelm Anton Jónsson söngvari, tónlistarmaður og barnabókahöfundur komu og voru með skemmtilega dagskrá fyrir 1.-4.bekk. Meiriháttar miðstig var svo með bekkjarskemmtun á miðvikudaginn þar sem farið var í leiki, spilað, borðuð pitsa og margt fleira til gamans gert. Stór hluti nemenda á unglingastigi fór á Halloween-ball til Ísafjarðar í gærkvöldi og skemmti sér hið besta. Svo sjá má að hér er alltaf eitthvað um að vera.
Okkur gengur þokkalega að vinna að föstudagsverkefninu okkar þar sem nemendur sjálfir velja sér viðfangsefni fyrir fjórar samliggjandi kennslustundir. Nemendur unglingastigs eru mjög færir í þessari vinnu en þeir yngri þurfa að vonum meiri aðstoð en tilgangur þessa er að veita nemendum tækifæri til að fræðast um viðfangsefni sem þeir sjálfir hafa áhuga á og jafnframt að kynna þeim fjölbreyttar leiðir við nám og kynningu á niðurstöðum.
Í næstu viku verða tveir kennaranemar hjá okkur, þeir eru okkur ekki alveg ókunnugir en það eru þær Ólöf Birna og Álfdís Hrefna. Föstudaginn 8.nóvember sem er baráttudagur gegn einelti á Íslandi verðum við svo með annað nemendaþing vetrarins og að þessu sinni verður fjallað um samskipti og hvernig má koma í veg fyrir einelti.
Fréttir vikunnar 28.okt-1.nóv 2019
Það er alltaf stuð hjá okkur í skólanum. Í liðinni viku fengum við heimsóknina ,,Skáld í skólum“ sem er bókmenntadagskrá á vegum rithöfundasambands Íslands. Þau Linda Ólafsdóttir, teiknari og barnabókahöfundur og Vilhelm Anton Jónsson söngvari, tónlistarmaður og barnabókahöfundur komu og voru með skemmtilega dagskrá fyrir 1.-4.bekk. Meiriháttar miðstig var svo með bekkjarskemmtun á miðvikudaginn þar sem farið var í leiki, spilað, borðuð pitsa og margt fleira til gamans gert. Stór hluti nemenda á unglingastigi fór á Halloween-ball til Ísafjarðar í gærkvöldi og skemmti sér hið besta. Svo sjá má að hér er alltaf eitthvað um að vera.
Okkur gengur þokkalega að vinna að föstudagsverkefninu okkar þar sem nemendur sjálfir velja sér viðfangsefni fyrir fjórar samliggjandi kennslustundir. Nemendur unglingastigs eru mjög færir í þessari vinnu en þeir yngri þurfa að vonum meiri aðstoð en tilgangur þessa er að veita nemendum tækifæri til að fræðast um viðfangsefni sem þeir sjálfir hafa áhuga á og jafnframt að kynna þeim fjölbreyttar leiðir við nám og kynningu á niðurstöðum.
Í næstu viku verða tveir kennaranemar hjá okkur, þeir eru okkur ekki alveg ókunnugir en það eru þær Ólöf Birna og Álfdís Hrefna. Föstudaginn 8.nóvember sem er baráttudagur gegn einelti á Íslandi verðum við svo með annað nemendaþing vetrarins og að þessu sinni verður fjallað um samskipti og hvernig má koma í veg fyrir einelti.
Matseðill 28.okt-1.nóv
Pistill vikunnar 21.-25.október
Ekki gekk nú allt samkvæmt áætlun hjá okkur þessa vikuna þar sem við þurftum að fresta foreldrafundinum sem vera átti á þriðjudaginn þar sem fyrirlesararnir komust ekki til okkar. Við finnum annan dag með þeim og auglýsum hann um leið og það er klárt.
Með þessari frétt fylgir meðal annars mynd úr söngstund sem er alltaf hjá okkur kl.11:10 á miðvikudögum. Markmið með henni eru margvísleg, meðal annars að kenna nemendum algeng lög sem sungin eru á mannamótum svo þeir verði færir um að taka þátt í söng af öryggi, líka að æfa framburð og leikni í að segja íslensk orð og svo síðast en ekki síst að æfa nemendur í að læra texta. Í þessari viku spilaði einn nemandi á gítar með Söru í undirspilinu og var það sérstaklega skemmtilegt. Ég minni á að gestir eru velkomnir á söngstundina okkar svo ef þið eigið heimangengt á miðvikudegi milli 11 og 12 væri gaman að sjá ykkur.
Við erum búin að vera með ,,gestakennara“ þessa viku, það er hún Margrét Halldórsdóttir sem er í námi við Háskóla Íslands og hefur fengið að gera eitt æfingaverkefni hér við skólann, í dag voru hún og nemendur á yngsta stigi að fjalla um hvunndagshetjur.
Í dag var svo rýmingaræfing æfing hjá okkur þar sem við æfðum viðbrögð sem nota skal ef upp kemur eldur í skólanum. Slökkviliðið var með okkur á æfingunni og gaf okkur góða einkunn.
Starfsdagur eftir hádegi
Starfsdagur alls starfsfólks Ísafjarðarbæjar fer fram fimmtudaginn 24. október milli klukkan 12.30 og 16.00 í íþróttahúsinu á Torfnesi.
Starfsdagurinn er ekki hluti af innra starfi stofnana bæjarins, líkt og hefðbundnir starfsdagar eru, og í einhverjum tilvikum er hann því ekki skráður t.d. á skóladagatöl. Hver og ein stofnun ákveður lokunartíma, enda getur hann verið mismunandi eftir vegalengd á milli staða. Eins og auglýst hefur verið er skólinn hjá okkur lokaður frá kl.12:00 vegna þessa.
Dagurinn samanstendur af fyrirlestrum og verkefnavinnu með þann tilgang að stuðla að því að starfsfólk Ísafjarðarbæjar nái góðri stjórn á streitu, líðan, verkefnum og einbeitingu.Kveðja
Jóna