VALMYND ×

Fréttir

Fréttir vikunnar 8.-12.apríl

Nemendur á yngsta stigi í unglingastigs stofu
Nemendur á yngsta stigi í unglingastigs stofu
1 af 3

Það hefur verið mjög mikið að gera hjá okkur þessa viku eins og sjá má á þessari færslu.  Á mánudag og þriðjudag héldum við áfram vinnu með góð samskipti á unglingastiginu, það hefur gengið mjög vel þó að auðvitað sé ekki alveg sársaukalaust að horfast í augu við sjálfan sig og skoða eigin hegðun.  En krakkarnir eru ótrúlega skynsamir og vita alveg hvað þarf að gera, en það verður að hafa í huga að þetta eru allt unglingar og þeir eru ekki alltaf að hugsa um hvaða áhrif hegðun þeirra hefur.  Við erum komin með góðan grunn til að byggja á sáttmála um samskipti sem við getum vonandi klárað strax eftir páska.

Á þriðjudaginn var síðasti tími í heimilisfræði í bili og þá fengu nemendur að baka marengstertur eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. 

Við lok dags á þriðjudag fengum við svo niðurstöður úr sýnum sem send höfðu verið til athugunar á því hvort myglusveppur leyndist í húsnæðinu og sá grunur sem við höfðum haft um það reynist að hluta til réttur.  Mygla greindist í stofu yngsta stigs og samkvæmt ráðleggingum lokum við henni þar til viðgerð hefur farið fram.  Á miðvikudaginn vorum við því með nemendur yngsta stigs á bókasafninu sem var þeim nokkuð erfitt.  Kynningarbréf vegna þessa voru send heim eftir að starfsmenn höfðu verið upplýstir um stöðuna.  Til að leysa úr þessu fram á vorið stóðum við flutningum á fimmtudaginn.  Unglingarnir fluttu sig á bókasafnið og yngsta stigið í unglingastigsstofuna.  Þetta var talsverður burður á húsgögnum og krakkarnir stóðu sig eins og hetjur við þetta.  Sem betur fer er ekki langt eftir af skólaárinu og viðgerð er áætluð í sumar. 

Á miðvikudaginn var Dagný talmeinafræðingur hjá okkur og tók nokkur börn í þjálfun.

Í dag kom svo Helena hjúkrunarfræðingur og var með fræðslu um slysavarnir fyrir nemendur yngsta stigs.  Hún fjallaði meðal annars um hvað á að gera ef einhver meiðir sig eða verður alvarlega hræddur, en aðal umfjöllunaratriði hennar að þessu sinni var þó hjálmanotkun.  Ég er viss um að krakkarnir geta sagt ykkur frá hvernig hún sýndi þeim hvað gæti komið fyrir höfuðkúpuna ef maður dettur á hjóli án þess að vera með hjálm.  Það var svo mikil gleði í þessu að okkur láðist alveg að taka myndir til að sýna ykkur.

Helena var ekki eini gesturinn í dag, því rapparinn, Sesar A kom í heimsókn til okkar og var með kynningu á rappi fyrir mið- og unglingastig.  Yngstu nemendurnir voru svo forvitnir að þeir fengu svo smá kynningu líka.

Vikunni lauk svo með Tarsan-leik í íþróttahúsinu sem unglingarnir settu upp og þar var tóm gleði eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi. https://www.youtube.com/watch?v=oqSSTM33gmc

Við erum byrjuð að velta fyrir okkur möguleikum á uppsetningu skólastarfsins næsta vetur.  Þær hugmyndir verða betur kynntar síðar en ég legg áherslu á að nemendur á unglingastigi geti sótt hluta af valtímunum sínum til Ísafjarðar.  Þar er hægt að bjóða fjölbreyttara val, flestir sem kenna eru með sérmenntun á sínu sviði og aðstaða er yfirleitt mjög góð.  Með því móti myndu nemendur einnig byrja að mynda tengsl við þá krakka sem væntanlega verða þeim samferða í framhaldsskóla.

Að lokum

Við erum byrjuð aftur með ,,orð vikunnar“.  Reglurnar í leiknum eru þær að nemendur setja svörin sín í kassa, rétt svar gefur þrjú stig, ágiskun sem þó er ekki rétt gefur tvö stig og ef nemendur nota google til að hjálpa sér fá þeir eitt stig.  Orð þessarar viku var ,,víðsýni“ og enginn nemandi var með það alveg rétt.

Matseðill 8-12.apríl

Mánudagur

Skyr, brauð með osti og kæfu, mjólk, gúrka og vinber

Þriðjudagur

Plokkfiskur, soðnar kartöflur, gulrætur, mjólk, epli

Miðvikudagur

Kjuklingur í súrsætri sósu, salat, epli

Fimmtudagur

Hakk og spaghetti, salat, ávextir

Föstudagur

Sóðinn lax, kartöflur, grænmeti, hvitlaukssósa, ávextir

Árshátíðarvika

Í gær var uppskeruhátíð hjá okkur, vinna við undirbúning hátíðarinnar hefur tekið nokkrar vikur og flesta tíma í skólanum í þeirri sem nú er að líða.  Það er ekki einfalt að koma saman eigin leikverki og reynir á marga námsþætti aðalnámskrár grunnskóla.  Til dæmis sköpun, samvinnu, ritun, handverk, tjáningu, samstarf og það að vera fær um að setja sig í spor annarra.  Það gengur oft á ýmsu þegar verið er að vinna textann, þá þarf að hafa hugrekki til að koma hugmyndum sínum á framfæri og stundum að leggja talsvert á sig til að sannfæra aðra um ágæti þeirra. Texti og boðskapur miðast við hugarheim nemenda  og gefur okkur innsýn í hvað þeim finnst sniðugt þó að við skiljum kannski ekkert í því.  Það er líka flókið að raða í hlutverk og nemendur eru sjaldnast allir sammála um hver á að gera hvað svo þar reynir verulega á samningatækni.  Þannig að það að setja saman eigið árshátíðarleikrit, eins og krakkarnir völdu að gera að þessu sinni, er mjög lærdómsríkt ferli fyrir alla nemendur.  Það skilar sér einnig til framtíðar því þeir nemendur sem fara í gegnum svona ferli nokkrum sinnum á skólagöngu sinni verða opnari fyrir því að gefa af sér og taka þannig virkan þátt í samfélagi sínu.  Í næstu viku verður svo skólastarf með hefðbundnari hætti, og eins og fram kom í síðustu viku munum við leggja áherslu á að vinna með samskipti og vináttu með eldri nemendum með formlegum hætti.

Við þökkum ykkur kærlega fyrir komuna og vonum að þið hafið haft jafn gaman af þessu og við.

Vikan 25.-29.mars

Vináttuþema á yngsta stigi.
Vináttuþema á yngsta stigi.
1 af 2

Enn ein vikan er nú að verða liðin.  Skólastarfið hefur gengið að mestu samkvæmt venju þessa viku, við erum þó að undirbúa árshátíðina og það litar viðfangsefnin nokkuð.  Textar eru æfðir og leikmyndir málaðar en allt er þetta þáttur í að skapa nemendum fjölbreytt starfsumhverfi þar sem takast þarf á við ólík viðfangsefni.  

Yngsta stigið hefur verið að vinna með vináttuþema að undanförnu eins og sjá má á myndunum sem fylgja hér með og eftir árshátíðina munum við fara í sambærilega vinnu með unglingunum.  Mikið var um tilraunir í náttúrufræðikennslunni og á meðfylgjandi mynd má sjá nemendur finna út loftmagn í snjó.

Fimmtudaginn 4.apríl höldum við svo okkar hefðbundnu árshátíð.  Nemendur hafa ásamt kennurunum sínum verið að semja og æfa leikrit.  Tvær sýningar verða í Félagsheimilinu, kl.17:30 og klukkan 20:00.  Aðgangseyrir á sýningarnar er 1000 krónur.  Það er mikil áskorun fyrir nemendur að koma fram fyrir áhorfendur og ekki síst með frumsamið efni og því vonumst til að sem flestir bæjarbúar sjái sér fært að koma og gleðjast með okkur þennan dag.  Nemendur fengu bréf með sér heim í dag með betri upplýsingum um fyrirkomulagið.

 

Matseðill 25-29.mars

Mánudagur

Hamborgarar, kartöflubátar, grænmeti, ávextir

Þriðjudagur

Fiskréttur (hrísgrjón, fískur og heitt tómatsósa), grænmetisalat, ávextir

Miðvikudagur

Grænt kjúklingasúpa, ávextir

Fimmtudagur

Grisasnitsel, ofnbakaðar kartöflur, grænmetisalat, ávextir

Föstudagur

Soðinn fiskur, soðnar kartöflur, ofnbakaðar grænmeti, rugbrauð, ávextir

 

Þjóðmenningarhátíð 2019

1 af 2

Í okkar samfélagi er afskaplega fjölbreytt og falleg menning og var henni fagnað laugardaginn 16 mars þegar um 140 manns fylltu félagsheimilið. Hátíðin sýndi ólíka menningarheima með munum, atriðum og mat frá sex mismunandi þjóðum, Filippseyjum, Íslandi, Póllandi, Nígeríu og Tælandi. Við innganginn voru borð sem sýndu muni frá löndunum, þar var til dæmis að finna peninga, fatnað, gamla og nýja muni frá löndunum. Börnin í grunn- og leikskólunum sáu um að skemmta gestum með söng, leik og upplestri á ýmsum tungumálum. Foreldrar áttu svo heiðurinn af matnum sem var á hlaðborðinu sem svignaði undan glæsilegum og þjóðlegum réttum.

Hátíðin var einkar vel heppnuð og það voru saddir og sælir gestir sem yfirgáfu félagsheimilið eftir frábæran dag. Þessi stórglæsilega hátíð, vinnan sem stjórnir foreldrafélagana og foreldrar lögðu á sig er samfélagi okkar til mikils sóma.

Sjá fleyri myndir hér

Matseðill 18-22.mars

Mánudagur

Grænmeti- og kjötsúpa, brauð með osti, epli

Þriðdjudagur

Soðinn fiskur, soðnar kartöflur, gulrætur og rófur, ávextir

Miðvikudagur

Lambagúlas, kartöflur, grænmetisalat, ávextir

Fimmtudagur

Hakkréttur og hrísgrjón, salat, ávextir

Föstudagur

Fiskiklattar, köld sósa, ofnbakaðar kartöflur og gulrætur, grænmeti og ávextir

 

Vikan 11.-15.mars

Lesararnir tilbúnir á Þingeyri.
Lesararnir tilbúnir á Þingeyri.
1 af 6

Þessa viku er búið að vera mjög mikið að gera hjá okkur eins og þið sjálfsagt vitið. Á þriðjudaginn fórum við til Þingeyrar þar sem nemendur 7.bekkjar tóku þátt í undankeppni litlu skólanna vegna Stóru upplestrarkeppninnar og nemendur 6.bekkjar fóru með til að undirbúa sig fyrir næsta vetur.  Einn nemandi frá okkur komst áfram og annar var valinn sem varamaður.

Nú á þriðjudaginn fengum við einnig tæknideild Ísafjarðarbæjar í heimsókn til að athuga, í annað sinn, hvort hætta sé á að mygla sé vandamál í skólanum. Þeir tóku sýni víða úr húsnæðinu og ég mun láta ykkur vita þegar niðurstöður úr þeim koma.

Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag þreyttu nemendur 9.bekkjar samræmd próf í íslensku, stærðfræði og ensku. 

Eftir hádegi á miðvikudaginn héldu svo nemendur 9. og 10.bekkjar til Reykjavíkur þar sem við fórum, ásamt nemendum frá Flateyri og Þingeyri, á tvær sýningar.  Annars vegar Norðurljósasýningu og ,,Vatnið í náttúru Ísland" í Perlunni og hins vegar sýninguna ,,Mín Framtíð" sem er kynning allra framhaldsskóla á landinu og um leið Íslandsmeistaramót í iðngreinum.  Það voru því nokkuð þreyttir unglingar sem komu heim seint á fimmtudagskvöld.

Nú vikunni lauk svo með því að nemendur á miðstigi fóru í heimsókn til Orkubús Vestfjarða og skoðuðu virkjunina í Engidal.  Þessi heimsókn var í tengslum við orkuverkefni sem þeir hafa verið að vinna undanfarna daga.

Svo þið sjáið að það var engin lognmolla hjá okkur frekar en fyrri vikurnar.

Á morgun er svo fjölmenningarhátíðin haldin í Félagsheimilinu og ég hvet ykkur öll til að fjölmenna á hana.  Þar verður örugglega gaman.

Matseðill 11-15. mars

Mánudagur

Grjónagratur, brauð með áleggi, ávextir

Þriðjudagur

Fiskur í raspi, soðnar kartöflur, tómatar, sósa, ávextir

Miðvikudagur

Hakk og spaghetti, salat, ávextir

Fimmtudagur

Kjötfarsbollur, soðnar kartöflur, hvitkál, brætt smjör, ávextir

Föstudagur

Fiskur með osti, ofnbakaðar kartöflur, grænmeti, ávextir

Matseðill 4-5.mars

Mánudagur BOLLUDAGUR

Heimagerðar fiskibollur, ofnbakaðar kartöflur, grænmeti, sykurlaust tómatsósa, ávextir

Þriðjudagur SPRENGIDAGUR

Saltkjöt, kartöflumús, soðnar grænmeti (rófur og gulrætur), baunasúpa, ávextir