Fréttir vikunnar 8.-12.apríl
Það hefur verið mjög mikið að gera hjá okkur þessa viku eins og sjá má á þessari færslu. Á mánudag og þriðjudag héldum við áfram vinnu með góð samskipti á unglingastiginu, það hefur gengið mjög vel þó að auðvitað sé ekki alveg sársaukalaust að horfast í augu við sjálfan sig og skoða eigin hegðun. En krakkarnir eru ótrúlega skynsamir og vita alveg hvað þarf að gera, en það verður að hafa í huga að þetta eru allt unglingar og þeir eru ekki alltaf að hugsa um hvaða áhrif hegðun þeirra hefur. Við erum komin með góðan grunn til að byggja á sáttmála um samskipti sem við getum vonandi klárað strax eftir páska.
Á þriðjudaginn var síðasti tími í heimilisfræði í bili og þá fengu nemendur að baka marengstertur eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Við lok dags á þriðjudag fengum við svo niðurstöður úr sýnum sem send höfðu verið til athugunar á því hvort myglusveppur leyndist í húsnæðinu og sá grunur sem við höfðum haft um það reynist að hluta til réttur. Mygla greindist í stofu yngsta stigs og samkvæmt ráðleggingum lokum við henni þar til viðgerð hefur farið fram. Á miðvikudaginn vorum við því með nemendur yngsta stigs á bókasafninu sem var þeim nokkuð erfitt. Kynningarbréf vegna þessa voru send heim eftir að starfsmenn höfðu verið upplýstir um stöðuna. Til að leysa úr þessu fram á vorið stóðum við flutningum á fimmtudaginn. Unglingarnir fluttu sig á bókasafnið og yngsta stigið í unglingastigsstofuna. Þetta var talsverður burður á húsgögnum og krakkarnir stóðu sig eins og hetjur við þetta. Sem betur fer er ekki langt eftir af skólaárinu og viðgerð er áætluð í sumar.
Á miðvikudaginn var Dagný talmeinafræðingur hjá okkur og tók nokkur börn í þjálfun.
Í dag kom svo Helena hjúkrunarfræðingur og var með fræðslu um slysavarnir fyrir nemendur yngsta stigs. Hún fjallaði meðal annars um hvað á að gera ef einhver meiðir sig eða verður alvarlega hræddur, en aðal umfjöllunaratriði hennar að þessu sinni var þó hjálmanotkun. Ég er viss um að krakkarnir geta sagt ykkur frá hvernig hún sýndi þeim hvað gæti komið fyrir höfuðkúpuna ef maður dettur á hjóli án þess að vera með hjálm. Það var svo mikil gleði í þessu að okkur láðist alveg að taka myndir til að sýna ykkur.
Helena var ekki eini gesturinn í dag, því rapparinn, Sesar A kom í heimsókn til okkar og var með kynningu á rappi fyrir mið- og unglingastig. Yngstu nemendurnir voru svo forvitnir að þeir fengu svo smá kynningu líka.
Vikunni lauk svo með Tarsan-leik í íþróttahúsinu sem unglingarnir settu upp og þar var tóm gleði eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi. https://www.youtube.com/watch?v=oqSSTM33gmc
Við erum byrjuð að velta fyrir okkur möguleikum á uppsetningu skólastarfsins næsta vetur. Þær hugmyndir verða betur kynntar síðar en ég legg áherslu á að nemendur á unglingastigi geti sótt hluta af valtímunum sínum til Ísafjarðar. Þar er hægt að bjóða fjölbreyttara val, flestir sem kenna eru með sérmenntun á sínu sviði og aðstaða er yfirleitt mjög góð. Með því móti myndu nemendur einnig byrja að mynda tengsl við þá krakka sem væntanlega verða þeim samferða í framhaldsskóla.
Að lokum
Við erum byrjuð aftur með ,,orð vikunnar“. Reglurnar í leiknum eru þær að nemendur setja svörin sín í kassa, rétt svar gefur þrjú stig, ágiskun sem þó er ekki rétt gefur tvö stig og ef nemendur nota google til að hjálpa sér fá þeir eitt stig. Orð þessarar viku var ,,víðsýni“ og enginn nemandi var með það alveg rétt.