VALMYND ×

Fréttir

Lestrarátak

Í dag mánudaginn 29. október hefst lestrarátak hjá nemendum á yngsta stigi. Það stendur yfir til 16. nóvember en þá er stefnana að hafa lestrarhátíð hér hjá okkur. Nemendur fengu efnið með sér heim í dag og vona ég að allir taki virkan þátt. Það er mikilvægt að hlúa vel að lestrinum þar sem lestur er undirstaða allt náms.

Niðurstöður úr samræmdum prófum, skýring vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku

Ágætu foreldrar

Nú var skólinn að fá niðurstöður nemenda úr samræmdum könnunarprófum í íslensku og stærðfræði. Menntamálastofnun óskar eftir að þetta próf sé lagt fyrir alla nemendur í 4. og 7.bekk á íslandi á sama tíma. Eftir að prófinu lauk sendi ég, í nafni skólans, bréf til Menntamálastofnunar þar sem ég benti á margskonar óréttlæti, gagnvart nemendum sem eiga annað móðurmál en íslensku, sem er innbyggt í þessi próf.  Til dæmis að spurt sé um orð sem varla eru notuð í nútíma talmáli þegar verið er að kanna orðaforða og að í lesskilningstextum séu notaðir textar úr vinsælum íslenskum barnabókum sem augljóslega eru ekki lesnar nema fyrir börn þar sem íslenska er samskiptamálið á heimilinu.  Ég bið ykkur að hafa þessi atriði í huga þegar þið skoðið einkunnir barnanna ykkar því niðurstaða úr þessu prófi er ekki raunhæfur mælikvarði á kunnáttu þeirra í íslensku. 

Hér er hlekkur á bréfið sem ég sendi Menntamálastofnun.

http://skolavardan.is/raddir/Hugleidingar-eftir-samraemt-prof

Þessi færsla mun einnig birtast á pólsku þar sem við vorum svo heppin að fá þýðingu á henni.

 

Drodzy Rodzice

Szkoła otrzymala dzisiaj wyniki egzaminów z języka islandzkiego oraz z matematyki. Zgodnie z rozporządzeniem Ministerstwa Edukacji, wszyscy uczniowie 4. oraz 7. klas w Islandii są zobowiązani do przystąpienia do tych egzaminów w tym samym czasie. Po przeprowadzonych egzaminach wysłałam list, w imieniu szkoły, do Ministerstwa Edukacji, w którym zwróciłam uwagę na wiele niesprawiedliwości przeciwko uczniom, dla których język islandzki nie jest językiem ojczystym, a na podbudowie którego wyżej wymieniony egzamin jest zbudowany. Jako przykład, w teście zawarte są pytania o znaczenie wyrazów, których się już nie używa w mowie potocznej, jak również teksty do czytania ze zrozumieniem, są na podbudowie popularnych islandzkich książek dziecięcych, które nie są czytane dla dzieci, u których w domach nie rozmawia się w języku islandzkim.  Chciałam Was prosić o to, aby mieć to na uwadze podczas oglądania wyników z wyżej wymienionych testów, gdyż wyniki nie są adekwatne do rzeczywistej znajomości języka islandzkiego u Waszych dzieci.

Tutaj jest link do listu, który wysłałam do Ministerstwa Edukacji

http://skolavardan.is/raddir/Hugleidingar-eftir-samraemt-prof

 

 

Föstudagspistill 26.október 2018

Það hafa verið annasamir dagar í skólanum að undanförnu og þá sérstaklega hjá unglingunum.  Á miðvikudag fóru þeir í heimsókn til Flateyrar á fyrirlestur sem nefnist ,,Skáld í skólum”. Í honum kynna rithöfundar vinnulag sitt og leiðbeina um skapandi skrif.  Í gær var svo Íþróttahátíðin í Bolungarvík, þar var dagskrá frá 10 – 18:45 og svo ball að henni lokinni og í dag eru unglingarnir okkar í FabLabinu á Ísafirði að kynna sér möguleikana á því sem hægt er að gera þar.  Leiðbeinendur þar eru Laufey Eyþórsdóttir og Þórarinn Breiðfjörð og Bryndís fer með þeim og er þeim til halds og trausts.

Niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum eru komnar í hús og nemendur fara með þær heim í dag.  Þær eru misjafnar eins og gengur og mikilvægt er að hafa í huga að allir gerðu sitt besta í próftökunni.  Allskonar þættir geta svo haft áhrif á hvort svör nemenda eru rétt eða röng.  Þetta eru ekki heildarniðurstöður um námsgetu nemenda, heldur aðeins ein mæling á tiltölulega afmörkuðum námsþáttum.  Í heildina erum við ánægð og stollt af okkar krökkum og höfum þarna fengið vísbendingar um atriði sem vinna þarf betur með.

Fyrra tímibili í sundkennslunni er nú að ljúka og við tökum þann þráð upp að nýju þegar fer að halla undir vor.

Búið er að stofna nýja facebook síðu fyrir skólann, síðan er hugsuð til að koma upplýsingum um fréttir og tilkynningar til foreldra og annarra sem hafa áhuga á skólastarfinu.  Heiti síðunnar er Grunnskólinn á Suðureyri.

Í næstu viku verða foreldraviðtöl, umsjónarkennarar úthluta foreldrum og nemendum tímum, mikilvægt að er foreldrar og börn komi saman í þessi viðtöl til að hægt sé að ræða hvernig gengur í skólanum og hvað er hægt að gera til að hver nemandi megi ná sem mestum framförum.

Á þriðjudaginn verður svo ,,Halloween- ball” í skólanum.  Ballið byrjar kl.19:00 og gaman væri ef sem flestir kæmu í búningum.  Nemendur fengu auglýsingu um ballið með sér heim í dag.

Kveðja

Jóna

Foreldrafræðsla

Þriðjudaginn 23. október 2018 verður Heimili og skóli og Rannsókn og greining með fræðslu fyrir foreldra ungmenna 13-18 ára.
Fræðslan fer fram í Grunnskólanum á Ísafirði og hefst kl. 17:00

Dagskrána má sjá hér að neðan og hvetjum við alla foreldra/forráðamenn til að mæta, það er alltaf hægt að bæta við sig þekkingu.

Dagskrá:
Hvernig líður börnunum okkar?
Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu og kennari á íþróttafræðisviði Háskólans í Reykjavík fjallar um niðurstöður rannsókna meðal barna og unglinga í ykkar sveitarfélagi.
Foreldrar skipta máli
Bryndís Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Heimili og skóla fjallar um mikilvægi foreldra í forvörnum og 18 ára ábyrgð.

Miðað er við að fræðslan með umræðum og hléi taki um 2 klukkustundir.

 

Fréttir vikunnar 8.-12.október 2018

Þessi vika hefur verið nokkuð róleg hjá okkur í skólanum.  Sundkennsla er þó hafin og raskar hún venjubundinni stundatöflu nokkuð.  Það verður líka sund mánudaginn 15.okt. og svo byrjum við aftur þriðjudaginn 23.október.  Eins og núna munu nemendur þá fara í sund á hverjum degi.

Við fengum erlenda gesti á miðvikudaginn, en þá komu kennararnir frá Grikklandi, Búlgaríu, Hollandi og Svíþjóð sem við munum verða í samstarfi við næstu tvö árin, í Erasmusverkefninu, í heimsókn.  Þeir skoðuð skólann og fannst mikið til um hvað aðstaðan hér er almennt góð.  Svo fóru þeir í ,, Seafood trail” gönguna og voru yfir sig ánægðir.

Í dag fóru svo nemendur unglingastigsins yfir á Þingeyri á fyrirlestur hjá Siggu Dögg, kynfræðingi og vonandi koma allir fróðari heim.

Við erum búin að fá fyrstu niðurstöður okkar úr lesfimi þetta árið.  Þar sjáum við hvernig okkar krakkar standa miðað við landsmeðaltal.  Við erum hærri en landsmeðaltal í einum árgangi, á landsmeðaltali eða alveg við það í fjórum árgöngum en undir því í fimm árgöngum.  Það er margsannað að æfingin skapar meistarann og það á við í lestrinum eins og í öllu öðru.  Mig langar því að biðja ykkur, ágætu foreldrar, að muna eftir að hlusta á krakkana ykkar lesa í að minnsta kosti 15 mínútur á hverjum virkum degi.  

Ég minni svo að lokum á að enn vantar okkur fjóra fulltrúa í stjórn foreldrafélagins.

Öðruvísi-leikarnir

1 af 3

Í dag voru ,,Öðruvísi-leikarnir” haldnir í Grunnskólanum á Suðureyri.  Öðruvísi-leikarnir er árviss samkoma nemenda í 1.-7.bekk í minni skólunum á norðanverðum Vestfjörðum  og eru hugsaðir sem mótvægi við stóru íþróttahátíðina í Bolungarvík og til að gefa krökkunum tækifæri á að kynnast milli skóla.  Skólarnir skiptast á að halda leikana og í ár var það Grunnskólinn á Suðureyri sem sá um skipulagningu.  Farið var í leiki, unnin stöðvavinna og endað með grillveislu.  Svona leikjadagur hefur margvíslegt gildi.  Nemendur vinna saman í hópum að verkefnum sem reyna á fjölbreytta hæfni og með krökkum sem þeir þekkja oft lítið. Við slíkt reynir á sveiganleika, samvinnu og samskiptafærni.  Eldri nemendur taka ábyrgð á leikjastöðvum og aðstoða þá yngri eftir þörfum og fá við það tækifæri til nýta eigið frumkvæði og sýna hjálpsemi.  Að mínu mati eru þetta gildi sem mikilvægt er að rækta alla daga og eitt það besta sem við getum sent nemendur með út í lífið er að vera sveigjanlegir, samvinnufúsir, hjálpsamir og færir um að sýna frumkvæði.  Í lok dagsins heyrði ég stúlku sem var í pylsuröðinni segja:,,Vá, ég eignaðist þrjá nýja vini í dag”.  Þetta var eitt af þeim atvikum sem fær kennarann til að brosa út að eyrum og hugsa ,,sannarlega höfum við gert gagn í dag”. Takk fyrir frábæran dag nemendur og starfsmenn.

Í næstu viku verður svo sund hjá öllum nemendum á hverjum degi.

Foreldrafélag og skólaráð

Vel gekk að fá fulltrúa í skólaráð og nú vantar okkur aðeins fulltrúa samfélagsins og samkvæmt reglugerð á ráðið að gera tillögu um hann á fyrsta fundi.

Af foreldrafélaginu er það að frétta að einn stjórnarmaður úr núverandi stjórn er tilbúinn að halda áfram.  Það er hún Ólöf Birna.  Okkur vantar því fjóra foreldra sem eru tilbúnir að koma í þetta verkefni með henni.  Þetta er ekki mjög mikil vinna en mjög mikilvæg fyrir nemendur og samfélagið.  Það væri frábært að fá sjálfboðaliða í þetta.

Kveðja
Jóna

Sundkennsla


Nú horfa mál til betri vegar með sundkennsluna og hefst hún á mánudaginn.  Kennt verður dagana 8.-12. október og svo 23.-26.október.  Allir hópar fara í sund á hverjum degi.  Þessa daga verða því ekki aðrar íþróttir.  Í vikunni þarna á milli langar okkur að hafa útiíþróttir ef veður verður sæmilegt en geta farið inn ef það verður leiðinlegt.
Kveðja
Jóna

Helstu fréttir liðinnar viku

Nemendur saman í leik.
Nemendur saman í leik.
1 af 3

Á þriðjudaginn kom Þorgrímur Þráinsson rithöfundur og fótboltakeppi í heimsókn til okkar.  Þá komu líka til okkar nemendur frá Þingeyri og Flateyri.  Þorgrímur var með fyrirlestur sem tengist lífsleikni fyrir unglinga og skapandi skrifum fyrir miðstig.  Meðan Þorgrímur var með unglingana var miðstigið allt saman í leikjum með Óskari og svo öfugt.  Þarna fór saman hin besta skemmtun og fræðsla.  Á þriðjudag og miðvikudag voru svo haustfundir foreldra og þakka ég ykkur, ágætu foreldrar, kærlega fyrir góða mætingu og þátttöku í umræðum.  Þegar börnin okkar upplifa að við stöndum saman um nám þeirra og uppeldi gengur okkur best.  Á fimmtudag og föstudag þreyttu svo nemendur 4.bekkjar sín samræmdu próf og allir lögðu sig fram og gerðu sitt besta.  Á fimmtudaginn skelltum við okkur líka í Norræna skólahlaupið.  Nemendur skólans hlupu samtals 252 kílómetra, eða 6,2 kílómetra á hvern nemanda.  Það er aldeilis vel af sér vikið.

Næsta vika verður ekki viðburðalaus frekar en aðrar.  Á mánudaginn er yngsta stigi boðið á óperu um Gilitrutt í Edinborgarhúsinu.  Á miðvikudag er starfsdagur hjá okkur og frí hjá nemendum og á föstudaginn verða svo ,,öðruvísileikarnir”.  Þá koma nemendur frá Þingeyri, Flateyri og Súðavík og við verðum með sameiginlega dagskrá sem endar með grillveislu klukkan 12:00.  Það væri frábært ef einhverjir foreldrar gætu komið og aðstoðað okkur við það.

Nokkrar myndir frá vikunni fylgja hér með.

Nú erum við búin að finna sundkennara og verður kennsla vikurnar 8.-12.okt og 23.-26.okt.

Á morgun, fimmtudaginn 27.september

Ef veður leyfir ætlum við að skella okkur í Norræna skólahlaupið klukkan 10 í fyrramálið.  Allir sem  vilja eru velkomnir með og boðið verður upp á hreyfingu við allra hæfi.  Að hlaupinu loknu munum við bjóða upp á ávexti.