VALMYND ×

Fréttir

Fréttir vikunnar 11.-15.janúar 2021

1 af 2

Skólastarfið hefur gengið mjög vel þessa viku og veðrið leikið við okkur.  Nemendur hafa verið að fást við fjölbreytt viðfangsefni sem öll miða þó að því að efla þroska þeirra og veita þeim tækifæri til að læra eitthvað nýtt. 

Á öllum skólastigum leggjum við megináherslu á uppbyggingu orðaforða og skilning á tungumálinu, en reynum að gera það sem mest í gegnum leiki eða verkefni þar sem sköpun og leikgleði fá að njóta sín.  Með þessari frétt fylgja myndir af vinnu yngsta stigs þar sem annars vegar verið var að finna orð sem hafa stafinn ,,l“ í sér og hinsvegar að reyna að flokka orð í falleg og ljót. 

Miðstigið er að vinna mikið með kurteisi þessa dagana og hvað hægt er að gera til að námsaðstæður nemenda verði sem allra bestar. Þar fóru fram samræður um hvað bæði kennarar og nemendur gætu gert til að auka líkur á vinnufriði svo hægt væri að ná betri árangri.  Þetta er umræða sem stöðugt þarf að vera í gangi til að nemendur skilji að þeir sjálfir eru aðal hreyfiaflið í uppbyggingu námsumhverfis.  Við vitum að þið foreldrar og velunnarar skólans aðstoðið okkur í báðum þessum verkefnum því ykkar þáttur í uppeldi og mótun viðhorfa barna ykkar er auðvitað risastór.

Í næstu viku eigum við von á uppfærslu tölvubúnaðarins í skólanum og munum við þá losna við ,,ceroclientana“ sem við höfum verið með í stað raunverulegra tölva og hlökkum við mikið til þess.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í skólanum

Fréttir vikunnar 4.-8.janúar 2021

Sameiginleg bókahilla
Sameiginleg bókahilla
1 af 2

Gleðilegt nýtt ár ágætu lesendur

Þessi fyrsta vika okkar hefur gengið glimrandi vel. Mánudaginn 4.jan. vann starfsfólk að innra mati á skólastarfinu. Í þeirri vinnu leggjum við drög að áhersluatriðum komandi mánaða og næsta skólaárs á grundvelli þeirra áhrifa sem við sjáum af núverandi verkefnum.  Við munum halda áfram að leggja áherslu á uppbyggingu orðaforða hjá öllum nemendum og það gerum við helst í gegnum lestur, samræður og almenna vinnu með samhengi tungumálsins.  Þá ætlum við einnig að leggja enn meiri áherslu á almenna kurteisi þar sem rannsóknir sýna bein tengsl milli þess að vera fær um- og hafa vilja til að sýna kurteisi og almennrar vellíðunar.

Þá var einnig tekin ákvörðun um að undirbúa ekki hefðbundna árshátíð á þessu skólaári. Það gerum við í ljósi frétta af bólusetningum þar sem við teljum ólíklegt að leyfi verði komið fyrir stórum samkomum í lok mars. Ef það breytist munum við rigga upp einhverri skemmtun fyrir foreldra og aðra velunnara okkar.

Eftir að nemendur hófu skólagöngu þann 5.jan. hefur allt gengið sinn vanagang, það tók smá tíma fyrir marga að komast í gang aftur en í dag eru allir komnir í vinnugír og ákveðnir í að leggja sig vel fram á nýju ári.  Eins og áður sagði er lestur eitt af okkar áhersluverkefnum og í vikunni settum við upp bókahillu þar sem við söfnum í titlum þeirra bóka sem við lesum.  Hugmyndin er svo að veita viðurkenningu þegar búið er að fylla í ákveðnar hillur. Þetta er 100% samvinnuverkefni því bækur eru ekki merktar einstaklingum enda gengur okkur mun betur þegar við hjálpumst að heldur en þegar við erum í samkeppni.

Með þessari frétt fylgir einnig mynd frá fyrsta náttúrufræðiverkefni vorannar hjá miðstigi, nemendur fóru út og náðu snjó sem þeir bræddu og fylgdust með hvernig rúmmál hans minnkaði eftir því sem hitinn óx.

Að lokum ítrekum við svo óskir okkar um aðstoð við að koma upp búningasafni í skólanum.

Í vinnu nemenda við áhugasviðsverkefnin eru oftar en ekki teknir upp ýmiskonar leikþættir og nú langar okkur til að koma okkur upp ,,búningasafni“ í skólanum. Það er að koma okkur upp safni af húfum, höttum, veskjum og jafnvel hárkollum og öðru sem nota má til að búa sér til fjölbreytt gervi.  Við yrðum þakklát ef þið eigið eitthvað slíkt sem þið væruð til í að gefa okkur.

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

 

Jólakveðja

Hurðaskreyting með qr kóða
Hurðaskreyting með qr kóða
1 af 5

Þessi vika hefur einkennst af jólastússi og gaman hefur verið að sjá hversu hugmyndaríkir kennararnir eru að finna verkefni sem tengjast bæði námsgreinum grunnskólans og jólunum.  Í áhugasviðsverkefninu var unnið með þemað ,,jólamyndir“ og út frá því skreyttu nemendur hurðar skólans. Þeir lærðu jafnframt að setja inn qr kóða með upplýsingum eins og sjá má á einni af myndunum sem fylgja þessari frétt. Ef tekin er mynd af kóðanum fást upplýsingar um út frá hvaða bíómynd útfærslan er og hvaða stærðfræði kom við sögu við gerð skreytingarinnar.

Í dag héldum við litlu jólin með óvenjulegu sniði sem kennir okkur um leið að það er alveg hægt að víkja frá hefðum og það getur bara verið skemmtilegt þegar fólki tekst að gera það besta úr því sem hægt er eins og við teljum að hafi verið gert hér í dag. Allir lögðu sig fram um að gera daginn skemmtilegan, við fengum óvænta heimsókn frá jólasveinunum frá Þingeyri, heimajólasveinarnir létu einnig sjá sig og gáfu krökkunum mandarínur, nemendur skiptust á pökkum og kennararnir lásu sögur og sungu með hópunum sínum. Svo fengu allir að prófa sleða jólasveinsins sem búinn er að vera í smíðum hjá fablab-hópnum undanfarnar vikur. Þau hafa að vísu notið góðrar aðstoðar sem sýnir einmitt hvað hægt er að gera þegar allir hjálpast að.

Skólablaðið verður væntanlega selt í byrjun næstu viku.

Við óskum ykkur góðrar hátíðar og vonum að allir hafi það sem best.

Skólinn hefst aftur þriðjudaginn 5.janúar samkvæmt stundaskrá.

Bestu jólakveðjur frá starfsfólkinu í skólanum.

Fréttir vikunnar 7.-11.desember

Ævar Þór les fyrir nemendur
Ævar Þór les fyrir nemendur
1 af 3

Þessi vika var um margt viðburðarík hjá okkur og sum verkefni hennar sýndu okkur með áþreifanlegum hætti að þó að maður búi landfræðilega séð á enda veraldar þarf það ekki að trufla það að maður geti haft samskipti við fólk víða að og notið menningarviðburða, jafnvel þó að þeir séu langt í burtu. 

Við fengum upplestur frá Ævari vísindamanni, hann las fyrir miðstigið úr bókinni sinni ,,Þín eigin undirdjúp“. Krakkarnir voru áhugasamir og spurðu margra spurninga, þetta var kannski ekki eins og að fá rithöfund í eigin persónu á staðinn en kostaði líka bara brotabrot af því sem það hefði kostað og var mjög skemmtilegt.

Svo fylgir með þessari frétt mynd af miðstiginu þar sem krakkarnir voru að gæða sér á pitsusnúðum sem þeir bökuðu með kennaranum sínum í viðurkenningarskyni fyrir góða ástundun í lestrarátaki síðustu vikna. 

Á föstudaginn var svo unglingastigið þátttakandi í fjölþjóðlegri ráðstefnu um mannréttindi í tengslum við Erasmus+ verkefnið okkar. Þetta var síðasti hluti þeirrar vinnu og þessi partur var skipulagður af okkur hér á Íslandi og við stýrðum þessari ráðstefnu.  Nemendur frá samstarfslöndunum áttu að að heimsækja okkur í þessari lotu en auðvitað var það ekki hægt.  Krakkarnir gerðu í staðinn flott myndband af áhugaverðum stöðum á Íslandi undir tónlist frá Mugison til að sýna þeim sem ekki fengu að koma í heimsókn.  Í verkefnavinnunni lögðum við áherslu á hvað einstaklingar gætu gert til að vinna með því að mannréttindi séu virt og fengum meðal annars fyrirlestra frá Amnesty International.  Krakkarnir voru búnir að kynna sér málefni íbúa Chagoseyja og greina hvernig nánast allar greinar Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna voru brotnar af Bretum þegar þeir voru fluttir burt frá heimkynnum sínum í kringum 1970.  Nemendur okkar gerðu líka samantekt yfir hvað þeir eru búnir að læra í allri þessari mannréttindavinnu sem við höfum verið í síðustu tvö ár. Hlekkur á myndbandið með þeirri samantekt er hér https://youtu.be/pfq1xE5GG7Y

Næsta vika

Næsta vika er síðasta skólavikan fyrir jólafrí.  Vegna sóttvarnafyrirmæla munum við ekki vera með venjulega jóladagskrá að þessu sinni. Skóladagarnir verða að mestu hefðbundnir mánudag til fimmtudags þó að eitthvað verði gert af jólaföndri og við reynum að hafa dagskránna létta.  Á föstudaginn eru svo litlu jólin í skólanum. Þá er skóli frá klukkan 9:00 -11:30 og ekki hádegismatur í skólanum.  Þá er gert ráð fyrir að nemendur komi prúðbúnir í skólann og kennararnir sjá um að dagskráin verði bæði hátíðleg og skemmtileg. Við höldum í þá hefð að hafa pakkaleik á litlu jólunum, allir nemendur eru beðnir að koma með litla gjöf í skólann þann dag, hún má ekki kosta meira en 1000 krónur. Nemendur draga svo um hver fær hvaða gjöf. 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum

Fréttir vikunnar 30.nóv-4.des. 2020

Allir spenntir yfir jóladagatali Samgöngustofu.
Allir spenntir yfir jóladagatali Samgöngustofu.
1 af 2

Nú í upphafi aðventu er rétt að nefna aftur að eins og áður munum við leggja áherslu á að hafa jólaundirbúning í skólanum lágstemmdan. Mörg börn eru spennt og við viljum ekki auka á spenninginn að óþörfu. Það mun samt verða smá föndur og sungin jólalög og litlu jólin verða á sínum stað þó að þau verði með breyttu sniði þetta árið vegna sóttvarnafyrirmæla.  Þá er líka rétt að geta þess að Ísafjarðarbær, eins og flest sveitarfélög, hefur sett saman verklagsreglur vegna þeirra sem ferðast til útlanda um jólin og þær voru sendar til foreldra í tölvupósti nú rétt í þessu.

Í þessari viku lauk formlegu lestarátaki miðstigsins.  Þar kepptust nemendur við að lesa sem flestar mínútur á heilum mánuði.  Alls lásu nemendur 16 231 mínútur aukalega þennan mánuð og sá sem las mest las 4900 mínútur eða tæplega 82 klukkustundir.  Veitt voru heildarverðlaun fyrir bekkinn sem mun fara í margskonar skemmtilega dagskrá í næstu viku vegna þessa og svo einstaklingsverðlaun fyrir bestu ástundunina. 

Yngsta stigið tekur þátt í jóladagatali Samgöngustofu með kennaranum sínum á virkum dögum og það væri nú gaman ef einhverjir gætu tekið þátt um helgar líkar og svo fengu  nemendur 3. og 4. bekkjar eldvarnafræðslu frá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar í dag

Hlekkur á dagatalið er hér Jóladagatal Samgöngustofu (umferd.is)

Búningasafn

Í vinnu nemenda við áhugasviðsverkefnin eru oftar en ekki teknir upp ýmiskonar leikþættir og nú langar okkur til að koma okkur upp ,,búningasafni“ í skólanum. Það er að koma okkur upp safni af húfum, höttum, veskjum og jafnvel hárkollum og öðru sem nota má til að búa sér til fjölbreytt gervi.  Við yrðum þakklát ef þið eigið eitthvað slíkt sem þið væruð til í að gefa okkur.

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Matseðill vikunnar 30.nóv-4.des

Mánudagur, fiskur í raspi, hrásalat, remolaði, ávextir.

Þriðjudagur, skyr með rjóma, flatkökur með hangikjöti, ávextir og grænmeti.

Miðvikudagur, kjúklingapasta, salat, ávextir.

Fimmtudagur, tortillabátar með hakki, salat, ávextir.

Föstudagur, ofnbakaður fiskur, sósa, ofnbakaðar kartöflur, grænmeti og ávextir.

Fréttir vikunnar 23.-27.nóv

Okkur er farið að leiðast mjög að geta ekki boðið foreldrum í skólann á ýmsa viðburði og gerðum því tilraun með að bjóða gestum á lestrarhátíðina okkar gegnum fjarfund á zoom á mánudagsmorgun. Krökkunum fannst þetta svolítið skrýtið en þeir stóðu sig mjög vel og við vonum að þeir sem hlustuðu hafi haft gaman af. Börnunum finnst alltaf mjög spennandi að sýna foreldrum sínum það sem þeir eru að vinna að í skólanum og ef samkomutakmörkunum fer ekki að létta gerum við kannski fleiri svona tilraunir.

 Niðurstöður nemendaþings frá 20.nóvember liggja nú fyrir. Nemendur lýstu skoðun sinni á hvað væri mikilvægast að læra í skólanum og flest af því sem þeir nefndu skipar þegar stóran sess í skólastarfinu, eina undantekningin er heimilisfræði, en 50% nemenda finnst hún mjög mikilvæg. Það er ekki alveg einfalt fyrir okkur að auka kennslu í heimilisfræði þar sem við erum bundin af ákvæðum viðmiðunarstundaskrár sem segir til um hversu margir tímar eiga að vera í hverri námsgrein. En okkur datt í hug að foreldrum gæti þótt þetta áhugavert og þeir væru kannski til að hafa þetta í huga við skipulag heimilisstarfa.  Nemendur nefndu nokkur viðfangsefni sem þeir vilja fá að læra um í skólanum en eru ekki með skipulögðum hætti á dagskrá grunnskóla. Við höfum tekið listann saman og stefnum á þemadaga á næsta ári þar sem hægt verður að velja um 5-6 vinsælustu viðfangsefnin sem þarna voru nefnd.  Þá var einnig talsvert rætt um samskipti og ósk nemenda til starfsfólks hefur verið hengd upp á kaffistofu og óskir þeirra til foreldra eru:

Foreldrar eiga að hjálpa okkur með námsefnið og vita hvað er í gangi í skólanum, þeir eiga líka að hjálpa manni með annað sem mann vantar. Þeir eiga að spyrja og taka eftir hvernig okkur líður og styðja börnin sín.

 Á miðvikudaginn vorum við með fræðslufund fyrir starfsfólk um samskipti við fjöl- og tvítyngda foreldra, skólastarf í fjölmenningarumhverfi og pólska skólamenningu. Þetta er partur af þróunarverkefninu okkar og vonandi getum við tekið upp þráðinn með foreldrum þarf sem horfið var frá vegna covid í fyrra vor, við bíðum spennt eftir því. Þær Kriselle og Magdalena sem voru með fræðsluna núna sendu okkur glærur sem eru ætlaðar foreldrum, þær hafa verið vistaðar á heimasíðunni undir ,,skrár“ og heita verkfærakista fyrir foreldra.

Matseðill 23.-27.nóv

Mánudagur 23.

Kjúklingabollur, kartöflur, sósa, salat og ávextir

Þriðjudagur 24.

Soðinn fiskur og kartöflur, grænmeti og ávextir

Miðvikudagur 25.

Hakkréttur, kartöflumús, salat og ávextir

Fimmtudagur 26.

Íslensk kjötsúpa, ávextir

Föstudagur 27.

Salsafiskur, hrísgrjón, grænmeti og ávextir

Fréttir vikunnar 16.-20.nóvember. 2020

Allir segja sína skoðun
Allir segja sína skoðun
1 af 2

Í þessari viku fóru foreldraviðtöl fram að loknum skóladegi nemenda. Þau voru með óvenjulegu sniði að þessu sinni þar sem við erum enn beðin um að takmarka aðgengi fullorðinna að skólanum eins og við getum og viðtölin fóru því fram gegnum fundaforritið zoom. Það gekk bara ljómandi vel í flestum tilvikum þó að netsambandið hafi aðeins verið að stríða okkur.

Skólastarfið var að mestu hefðbundið að öðru leyti en því að í dag, föstudaginn 20.nóvember héldum við annað nemendaþing skólaársins. Dagurinn er alþjóðlegur dagur réttinda barna og að þessu sinni tengdum við vinnu þingsins við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Aðstæður barna í ólíkum löndum eru mjög misjafnar og til að vekja nemendur til umhugsunar um að það hafa það ekki allir jafn gott og langt er frá því að réttindi allra barna séu tryggð byrjuðum við á að sýna myndbönd frá Unicef þar sem fjallað er um heimilisleysi og barnaþrælkun. Að því loknu tók nemendur til við spurningarnar sex sem voru til umfjöllunar í dag. Þær voru

  1. Hvað finnst ykkur mikilvægast að læra í skólanum?
  2. Er eitthvað sem er ekki kennt í skólanum en þið mynduð vilja læra?
  3. Hvaða námsgrein teljið þið að nýtist ykkur best fyrir framtíðina?
  4. Hvernig finnst ykkur að starfsmenn skólans eigi að vera í samskiptum við ykkur?
  5. Hversu mikið og hvernig finnst ykkur að foreldrar ykkar eigi að taka þátt í skólastarfinu eða aðstoða ykkur í náminu? (Hvað geta foreldrar gert til að hjálpa?)
  6. Hversu miklu máli skiptir að líða vel í skólanum? Hvað skapar vellíðan í skólanum?

Þar sem enn er ekki leyfilegt að blanda nemendum milli sóttvarnarhólfa tók yngsta stigið ekki þátt í hópvinnunni en var með sérstakan umræðufund um tvær fyrstu spurningarnar í sinni bekkjarstofu. Það er skemmst frá að segja að nemendur stóðu sig frábærlega í þessari vinnu og eru orðnir mjög færir í að tjá skoðanir sínar með skipulegum hætti.  Frekari úrvinnsla niðurstaðna bíður og verða þær birtar um leið og þær liggja fyrir.

Á mánudaginn ætlum við svo að reyna að gefa kórónuveirunni langt nef og halda lestrarhátíðina okkar þó að við megum ekki fá gesti í skólann. Krakkarnir eru búnir að æfa margskonar upplestur og ljóðaflutning og hátíðin hefst klukkan 10:15. Þeir sem vilja fylgjast með eru beðnir um að senda póst á jonab@isafjordur.is og fá þá hlekk á mánudaginn þar sem hægt verður að hlusta á krakkana

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Matseðill 16.-20.nóv

16.mánudagur

Skyr, pitsusnúðar, grænmeti og ávextir.

17.þriðjudagur

Fiskur í raspi, kartöflur, salat og ávextir.

18.miðvikudagur

Hakk og spagettí, grænmeti og ávextir.

19.fimmtudagur

Kjúklingaleggir, kartöflur, salat og ávextir.

20.föstudagur

Fiskur í karrýsósu, hrísgrjón, grænmeti og ávextir.