Fréttir vikunnar 11.-15.janúar 2021
Skólastarfið hefur gengið mjög vel þessa viku og veðrið leikið við okkur. Nemendur hafa verið að fást við fjölbreytt viðfangsefni sem öll miða þó að því að efla þroska þeirra og veita þeim tækifæri til að læra eitthvað nýtt.
Á öllum skólastigum leggjum við megináherslu á uppbyggingu orðaforða og skilning á tungumálinu, en reynum að gera það sem mest í gegnum leiki eða verkefni þar sem sköpun og leikgleði fá að njóta sín. Með þessari frétt fylgja myndir af vinnu yngsta stigs þar sem annars vegar verið var að finna orð sem hafa stafinn ,,l“ í sér og hinsvegar að reyna að flokka orð í falleg og ljót.
Miðstigið er að vinna mikið með kurteisi þessa dagana og hvað hægt er að gera til að námsaðstæður nemenda verði sem allra bestar. Þar fóru fram samræður um hvað bæði kennarar og nemendur gætu gert til að auka líkur á vinnufriði svo hægt væri að ná betri árangri. Þetta er umræða sem stöðugt þarf að vera í gangi til að nemendur skilji að þeir sjálfir eru aðal hreyfiaflið í uppbyggingu námsumhverfis. Við vitum að þið foreldrar og velunnarar skólans aðstoðið okkur í báðum þessum verkefnum því ykkar þáttur í uppeldi og mótun viðhorfa barna ykkar er auðvitað risastór.
Í næstu viku eigum við von á uppfærslu tölvubúnaðarins í skólanum og munum við þá losna við ,,ceroclientana“ sem við höfum verið með í stað raunverulegra tölva og hlökkum við mikið til þess.
Hafið það gott um helgina
Starfsfólkið í skólanum