VALMYND ×

Fréttir

Fréttir vikunnar 19.-23 apríl 2021

Algeng öpp sem nemendur nota
Algeng öpp sem nemendur nota

Þessi vika stutt hjá nemendum, aðeins þrír dagar en það var nú samt góður gangur í málum.

Nemendur 5.bekkjar byrjuðu vikuna á fræðslufyrirlestri frá VÁ Vest um notkun samfélagsmiðla. Það er aldrei of oft talað um notkun þeirra við nemendur og mikilvægt að foreldrar ræði einnig um hvaða hegðun er viðeigandi þar eins og annars staðar. Þá bauðst foreldrum einnig fræðslufundur um sama mál að kvöldi mánudags. Við sem sinnum uppeldi verðum að vera meðvituð um hvað börnin okkar gera á internetinu, við mælum með því að foreldrar skoði reglulega síma nemenda og séu virkir á samfélagsmiðlum ef börnin þeirra eru það. Það verða allir foreldrar að vita hvaða öpp börnin þeirra eru að nota og þekkja helstu virkni þeirra.  Í þessum heimi eru ótal hættur sem börn geta komið sér í með sakleysislegum viðbrögðum og eins senda þau hvert öðru oft skilaboð með orðum sem þau myndu aldrei nota við aðra og lenda svo í vandræðum vegna þeirra. Góð regla er að gera ekkert á samfélagsmiðlum sem þú vilt ekki að ,,amma þín og afi“ frétti af því ömmur og afar nútímans eru einmitt oft mjög virk í þessari notkun.

Sundkennslan hófst á mánudag og sundkennarinn, hún Guðríður Sigurðardóttir er mjög ánægð með framkomu nemenda og færni þeirra í sundi.

Í dag, fimmtudag, var svo starfsdagur í skólanum sem við notuðum til að vinna með innra mat í skólastarfi sem er eitt af verkunum sem allir skólar eiga að vinna og á því grundvallast svo starfsmarkmið næsta skólaárs.  Við þáðum einnig veitingar frá Kvenfélaginu Ársól sem við þökkum fyrir.

Við höfum tekið upp aftur liðinn ,,Orð vikunnar" í síðustu viku var að orðið ,,árrisull" sem nemendur komu með tillögur að hvað þýddu. Einn var með það rétt en önnur góð tillaga var ,, að vakna blautur". Það gefur auga leið að orðið árrisull hlýtur að hafa eitthvað með vatnssull að gera.

Við höfum enn einu sinni fært foreldrafræðsluna til og nú til 18.maí. Vonandi getum við verið með þetta þá en ef ekki færist hún fram á næsta haust.

Á morgun er svo vetrarfrísdagur hjá nemendum og svo skóli næst á mánudag.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í skólanum

Fréttir vikunnar 12.-16.apríl

Þessa vikuna hefur flest verið með hefðbundu sniði hjá okkur. Nemendur komu glaðir og vinnusamir úr páskafríi og njóta vorblíðunnar í frímínútum. Það voru skipti í smiðjum hjá okkur í þessari viku og piltarnir okkar í 7.bekk voru svo ánægðir með baksturinn í gæt að ég mátti til með að setja mynd af þeim með þessari frétt.

Við verðum því miður að færa foreldrafræðsluna einu sinni enn vegna Covid-19 og sóttvarnaráðstafana og næsta fyrirhugaða dagsetning er 18.maí.

VáVest býður foreldrum 5.-10.bekkjar  upp á forvarnafyrirlestra í þessari viku og næstu, hlekkir vegna þeirra hafa verið sendir í mentor pósti.

Ég minni á að sundkennsla hefst á mánudag og verður á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum í fjórar vikur.  Það eru dagar sem við erum með íþróttahúsið en við viljum ekki að allir íþróttatímar falli niður vegna þessa og því þurfa nemendur alltaf að koma með bæði íþrótta og sundföt þessa daga.

Að lokum minni ég á að það er bara þriggja daga skólavika hjá nemendum í næstu viku þar sem á fimmtudag er sumardagurinn fyrsti og starfsdagur á föstudag.

Kveðja úr skólanum

Fréttir vikunnar 6.-9.apríl 2021

Gæsir reyna að komast í leik
Gæsir reyna að komast í leik
1 af 2

Þessi vika hefur verið nýtt til að klára verkefnin sem hafin voru á þemadögunum og eru þau nú flest fullkláruð og munu verða til sýnis um leið og færi gefst á því. Við veitum ykkur smá forskot með því að setja með þessari frétt mynd af líkani af kirkjunni okkar sem nemendur unglingastigs hafa verið að gera.

Við höfum líka verið upptekin af eldgosinu á Reykjanesi og höfum nýtt okkur það í stærðfræðinni. Einn rúmmetri var búinn til úr pappa og svo reiknuðum við út hve langan tíma tæki að fylla kennslustofu, allan skólann og íþróttasalinn miðað við hraunrennslið eins og það var 5.apríl.  Nemendur giskuðu fyrst á hversu langan tíma þetta tæki og urðu furðu lostnir þegar þeir áttuðu sig á að það tæki aðeins um 20 sekúndur að fylla kennslustofu, rúmar 3 mínútur að fylla allan skólann og aðeins 6 mínútur að fylla íþróttasalinn.

Gæsinar á tjörninni hafa verið æstar í að vera með krökkunum þessa viku við mikla ánægju margra, þær eyða líka löngum stundum fyrir framan íþróttahúsið við að spegla sig í gluggunum og krakkarnir hafa mjög gaman af að fylgjast með þeim við þessa iðju.

Foreldrafræðslunni sem átti að vera þann 13.apríl hefur enn og aftur verið frestað og núna aðeins um viku eða til 20.apríl. Von okkar er að 15.apríl verði slakað á sóttvörnum þannig að mögulegt verði að halda fundinn.

Sundkennsla hefst þann 19.apríl, kennt verður á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum til og með 14.maí.

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum

Spilapakkar og kennslumyndbönd

Heimsókn á leikskólann
Heimsókn á leikskólann
1 af 2

Við í skólanum vorum með þemadaga í síðustu viku og ætluðum að ljúka þeim með sýningu á verkefnum nemenda.  Þá stóð einnig til að bjóða nemendum á töfrasýningu með Einari Mikael þar sem þeir áttu að fá kennslu í að gera spilagaldra og fleira.  Vegna sóttvarnaráðstafana gátum við ekki lokið þessu eins og við vildum en okkur langaði samt að koma spilum sem áttu að fylgja sýningunni til nemenda.  Við ákváðum að gera tilraun með að fara út með jólasleðann og keyra spilapökkunum heim til sem flestra nemenda, en það reyndist svo ógerlegt vegna margskonar hindrana svo farið var með sleðann í heimsókn á leikskólann og svo tók hann nokkra hringi á fótboltavellinum.  Því miður misstu sumir af þessum óvænta viðburði en þeir sem voru með voru mjög glaðir.  Allir foreldrar og þeir nemendur sem eru með skráð netföng í mentor hjá okkur hafa fengið sendan hlekk með kennslumyndbandi um spilagaldra, spilastokkar bíða nemenda hér í skólanum og þeirra má vitja þegar augljóst er að einhver er við.

Gleðilega páska

Skóla lokað vegna sóttvarnaráðstafana

Góðan dag
Með nýjum sóttvarnareglum er grunnskólum lokað til að minnsta kosti 1.apríl. Það er því ekki skóli á morgun og hinn. Við munum verða í sambandi við ykkur þegar nýjar fréttir berast. Ef skólinn verður enn lokaður eftir páskafrí munum við keyra út bækur og önnur námsgögn til nemenda og vera með fjarkennslu eftir því sem hægt er.
Vonandi verða þetta ekki fleiri dagar en þessir tveir fram að páskafríi.
Kveðja
Jóna

Fréttir vikunnar 15.-19.mars

Útiíþróttir í mars
Útiíþróttir í mars

Við erum nú í óða önn við að skipuleggja þemadaga sem verða hjá okkur í næstu viku. Unnið verður með þemað ,,Ísland“ og nemendur munu vonandi læra margt bæði um landafræði og sögu í þeirri vinnu.  Við bjóðum ykkur að koma og sjá afrakstur vinnunnar næsta föstudag, það er þann 26.mars.  Þá munu nemendur kynna vinnuna, syngja fyrir ykkur og svo verða boðnar veitingar. Eins og áður reynum við að koma til móts við sem flesta og munum keyra prógrammið tvisvar. Það er klukkan 9:40 – 10:25 og svo aftur klukkan 11:00 – 11:45. Við vonum að sem flestir geti komið á öðrum hvorum þessum tíma.

Við erum enn að fikra okkur áfram með sýndarveruleikann, þetta er algjörlega nýr heimur sem tekur nokkurn tíma að koma sér inn í. Nemendur mið- og unglingastigs hafa nú fengið að prófa aðeins og hér fylgir með myndband sem unglingarnir gáfu góðfúslega leyfi til að yrði deilt með ykkur.  https://youtu.be/yFst_dcT7pE

Annars hefur þessi vika verið að mestu hefðbundin skólavika eins og flestir þekktu í gamla daga en eru ekki svo algengar lengur, nemendur hafa notið góðviðrisins og völdu að hafa íþróttir úti þó að það væri nú heldur kalt á stuttbuxunum enda bara mars.

Við erum búin að bóka flugið fyrir Brúarsmiðina og þeir verða með foreldrafræðsluna 13.apríl. Við vonum að allir foreldrar geti tekið það síðdegi frá í þágu barnanna sinna og samfélagsins hér á Suðureyri. 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Fréttir vikunnar 1.-5.mars 2021

Undankeppni Stóru upplestrarkeppninnar á Þingeyri
Undankeppni Stóru upplestrarkeppninnar á Þingeyri
1 af 3

Í fréttum vikunnar er það helst að nemendur 7.bekkjar tóku þátt í forkeppni vegna Stóru upplestrarkeppninnar. Litlu skólarnir í Ísafjarðarbæ velja sameiginlega úr sínum hópi og mega senda tvo nemendur sem aðalmenn til þátttöku og skemmst er frá því að segja báðir fulltrúarnir koma úr okkar skóla að þessu sinni. Þeir eru búnir að vera duglegir að æfa sig og við óskum þeim góðs gengis í lokakeppninni sem verður í Hömrum miðvikudaginn 10.mars.

Nemendur okkar keppast nú við að lesa og það gengur alveg glimrandi að fylla í sameiginlegu bókahilluna. Við settum upp ákveðna umbun eftir tiltekinn fjölda bóka og í vikunni var auka Tarsanleikur hjá nemendum og næsti áfangi var svo að bjóða upp á pitsu í hádeginu.  Þegar ljóst var að aðeins vantaði nokkrar bækur upp á það, tóku nokkrir nemendur unglingastigs sig til, kláruðu bækur og skrifuðu bókamiða, svo nú lítur út fyrir að pitsan verði í næstu viku.

Við erum byrjuð að skipuleggja skólastarfið með hefðbundnari hætti á nýjan leik og þar sem okkur finnst við vera orðin of sein að setja af stað árshátíð með pompi og pragt ætlum við að nota síðustu vikuna fyrir páskafrí í þemavinnu. Þeirri vinnu á svo að ljúka með uppskeruhátíð sem við bjóðum foreldrum, og öðrum velunnurum skólans til, þann 26.mars.  Þemað verður Ísland og við lofum að eitt og annað mun koma ykkur á óvart á sýningunni.

Nú svo erum við að setja stóra foreldraverkefnið í gang aftur og Brúarsmiðirnir sem ætluðu að koma með fræðslu fyrir okkur í fyrra eru núna tilbúnir að koma þann 13.apríl. Við biðjum ykkur að taka það síðdegi frá fyrir fræðslufund sem verður fyrir alla foreldra á Suðureyri.

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Fréttir vikunnar 22.-26.febrúar 2021

Í þessari viku fóru fram foreldraviðtöl þar sem nemendur sýndu foreldrum sínum verkefnin sín. Við lögðum áherslu á að nemendur veldu eitthvað sem þeir væru stoltir af og ræddu líka um það sem þeim finnst erfitt ef um eitthvað slíkt væri að ræða. Viðtölin fóru fram á zoom þar sem nemendur buðu foreldrum sínum á fundi og deildu með þeim efni af ipödunum sínum. Tæknileg vandamál komu því miður upp í sumum viðtölum en þau er hægt að leysa þar sem nú er búið að aflétta takmörkunum á heimsóknum í skólann og því hægt að fá foreldra í skólann til að skoða verkefnin með kökkunum. Þeir fundir verða boðaðir í næstu viku.

Okkur langar að vera fær um að leyfa nemendum að kynnast tækninni og því sem hún býður upp á því þar liggur framtíðin. Við fjárfestum nýlega í þrívíddardóti sem við bindum vonir við opni nýja möguleika í kennslu, en fyrst þurfum við auðvitað að gefa okkur smá tíma til að læra að nota þetta.  Á þessum hlekk má sjá starfsmann í fyrstu tilraun. https://www.youtube.com/watch?v=CAyDxrImB64

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

 

 

 

Fréttir vikunnar 8.-12.febrúar 2021

Nemendur velja greinar í snjóþrúgur
Nemendur velja greinar í snjóþrúgur
1 af 2

Nemendur mið- og unglingastigs eru núna, og næstu þrjár vikur, að vinna útiverkefni á þriðjudögum og föstudögum.  Skipt er í fjóra hópa sem fást við sömu verkefni, en í ólíkri röð og gerðar eru misjafnar kröfur til nemenda eftir aldri og þroska. Verkefnin sem verið er að fást við eru meðal annars útieldun, snjóþrúgugerð, persónusköpun úr greinum úr skóginum og kortalestur sem felur í sér fjársjóðsleit þar sem nemendur finna viðfangsefni tengd ólíkum trúarbrögðum.  Með þessu verkefni tengjum við saman fjölmargar námsgreinar um leið og nemendur fara um heimabyggðina og læra um umhverfi sitt.

Skólablaðið kom út í vikunni, nemendur unglingastigs hafa gengið í hús og selt og ef einhver missti af þeim má senda skilaboð á Bryndísi og fá eintak.

Næsta vika verður óhefðbundin, á miðvikudag er öskudagur og vegna covid verður margt með öðru sniði en venjulega. Við höfum verið í samstarfi við Stefni og Foreldrafélagið um dagskrá þennan dag. Hefðbundin kennsla verður til klukkan 11:00. Þá ætlum við að vera með ball í íþróttahúsinu þar sem ,,kötturinn verður sleginn úr tunnunni“.  Ballinu lýkur kl 12:10 en þá ætla samstarfsaðilar okkar að bjóða öllum nemendum upp á pitsu og ís í eftirmat svo ekki þarf að koma með hádegisnesti þennan dag.  Eftir hádegið verður svo hver kennari með sínum hópi samkvæmt stundaskrá.  Við vonum að sem flestir mæti í búning á öskudaginn en biðjum foreldra að gæta þess að fylgihlutir sem flokkast sem vopn séu geymdir heima.

Á fimmtudag er svo starfsdagur, þá munum við vinna að skipulagi og áætlanagerð og á föstudag er svo vetrarfrí.  Þannig að í næstu viku eru aðeins þrír skóladagar hjá nemendum.

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum

Fréttir vikunnar 1.-5.febrúar 2021

1 af 9

Hápunktur þessarar viku var hjá okkur í dag. Við héldum nemendaþing þar sem nemendur 3.-10.bekkjar fengu fyrst fræðsluerindi frá Björgu Sveinbjörnsdóttur um jafnrétti og fjölluðu í framhaldinu um fimm spurningar sem varða það málefni.  Eitt aðalefni í erindi Bjargar var að það er fólk sem breytir heiminum, allar kynslóðir breyta einhverju og það er mikilvægt að gera sér grein fyrir hverju maður vill breyta.  Nemendur frá Grunnskóla Önundarfjarðar voru með okkur í þessari vinnu og Önfirðingar úr 1.og2.bekk voru í heimsókn hjá okkar 1. og 2.bekk meðan á þinginu stóð.

Nemendur komu okkur skemmtilega á óvart með einlægum hugmyndum sínum um málefnið og margt af því sem þeir höfðu fram að færa var hreinlega magnað og enn og aftur sýndi það sig að ,,börn vita sínu viti“.  Þá var líka ákaflega gaman að sjá hversu góðir og hjálpsamir eldri nemendur eru við þá yngri, til dæmis með því veita þeim tækifæri til að taka þátt í kynningum og hvetja þá til að lesa hluta af niðurstöðum hópanna. 

Framtíðin er sannarlega björt með þetta unga fólk sem hluta af samfélaginu.

Hér koma örfá sýnishorn af því sem nemendur nefndu í dag þið munið sjá meira af því í næstu viku.

  • 1) Hvað getur skólinn ykkar gert til að auka líkur á jafnrétti?

Tala um vandamálin og segja okkur hvernig við getum breytt þeim og verið sanngjörn

  • 2) Hvað geta foreldrar gert til að auka líkur á jafnrétti?

Fræða börnin sín um réttindi þeirra og ekki flokka leik og athafnir í kynbundna flokkar

  • 3) Hvað getið þið sjálf gert til að auka líkur á jafnrétti?

Láta alla vitað að þeir skipti máli og eiga rétt á að lifa eðlilegu lífi

 

Í lok dagsins skelltum við okkur svo í bingó, enda vinna morgunsins búin að vera mjög krefjandi.

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.