VALMYND ×

Fréttir

Fréttir vikunnar 30.nóv-4.des. 2020

Allir spenntir yfir jóladagatali Samgöngustofu.
Allir spenntir yfir jóladagatali Samgöngustofu.
1 af 2

Nú í upphafi aðventu er rétt að nefna aftur að eins og áður munum við leggja áherslu á að hafa jólaundirbúning í skólanum lágstemmdan. Mörg börn eru spennt og við viljum ekki auka á spenninginn að óþörfu. Það mun samt verða smá föndur og sungin jólalög og litlu jólin verða á sínum stað þó að þau verði með breyttu sniði þetta árið vegna sóttvarnafyrirmæla.  Þá er líka rétt að geta þess að Ísafjarðarbær, eins og flest sveitarfélög, hefur sett saman verklagsreglur vegna þeirra sem ferðast til útlanda um jólin og þær voru sendar til foreldra í tölvupósti nú rétt í þessu.

Í þessari viku lauk formlegu lestarátaki miðstigsins.  Þar kepptust nemendur við að lesa sem flestar mínútur á heilum mánuði.  Alls lásu nemendur 16 231 mínútur aukalega þennan mánuð og sá sem las mest las 4900 mínútur eða tæplega 82 klukkustundir.  Veitt voru heildarverðlaun fyrir bekkinn sem mun fara í margskonar skemmtilega dagskrá í næstu viku vegna þessa og svo einstaklingsverðlaun fyrir bestu ástundunina. 

Yngsta stigið tekur þátt í jóladagatali Samgöngustofu með kennaranum sínum á virkum dögum og það væri nú gaman ef einhverjir gætu tekið þátt um helgar líkar og svo fengu  nemendur 3. og 4. bekkjar eldvarnafræðslu frá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar í dag

Hlekkur á dagatalið er hér Jóladagatal Samgöngustofu (umferd.is)

Búningasafn

Í vinnu nemenda við áhugasviðsverkefnin eru oftar en ekki teknir upp ýmiskonar leikþættir og nú langar okkur til að koma okkur upp ,,búningasafni“ í skólanum. Það er að koma okkur upp safni af húfum, höttum, veskjum og jafnvel hárkollum og öðru sem nota má til að búa sér til fjölbreytt gervi.  Við yrðum þakklát ef þið eigið eitthvað slíkt sem þið væruð til í að gefa okkur.

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Matseðill vikunnar 30.nóv-4.des

Mánudagur, fiskur í raspi, hrásalat, remolaði, ávextir.

Þriðjudagur, skyr með rjóma, flatkökur með hangikjöti, ávextir og grænmeti.

Miðvikudagur, kjúklingapasta, salat, ávextir.

Fimmtudagur, tortillabátar með hakki, salat, ávextir.

Föstudagur, ofnbakaður fiskur, sósa, ofnbakaðar kartöflur, grænmeti og ávextir.

Fréttir vikunnar 23.-27.nóv

Okkur er farið að leiðast mjög að geta ekki boðið foreldrum í skólann á ýmsa viðburði og gerðum því tilraun með að bjóða gestum á lestrarhátíðina okkar gegnum fjarfund á zoom á mánudagsmorgun. Krökkunum fannst þetta svolítið skrýtið en þeir stóðu sig mjög vel og við vonum að þeir sem hlustuðu hafi haft gaman af. Börnunum finnst alltaf mjög spennandi að sýna foreldrum sínum það sem þeir eru að vinna að í skólanum og ef samkomutakmörkunum fer ekki að létta gerum við kannski fleiri svona tilraunir.

 Niðurstöður nemendaþings frá 20.nóvember liggja nú fyrir. Nemendur lýstu skoðun sinni á hvað væri mikilvægast að læra í skólanum og flest af því sem þeir nefndu skipar þegar stóran sess í skólastarfinu, eina undantekningin er heimilisfræði, en 50% nemenda finnst hún mjög mikilvæg. Það er ekki alveg einfalt fyrir okkur að auka kennslu í heimilisfræði þar sem við erum bundin af ákvæðum viðmiðunarstundaskrár sem segir til um hversu margir tímar eiga að vera í hverri námsgrein. En okkur datt í hug að foreldrum gæti þótt þetta áhugavert og þeir væru kannski til að hafa þetta í huga við skipulag heimilisstarfa.  Nemendur nefndu nokkur viðfangsefni sem þeir vilja fá að læra um í skólanum en eru ekki með skipulögðum hætti á dagskrá grunnskóla. Við höfum tekið listann saman og stefnum á þemadaga á næsta ári þar sem hægt verður að velja um 5-6 vinsælustu viðfangsefnin sem þarna voru nefnd.  Þá var einnig talsvert rætt um samskipti og ósk nemenda til starfsfólks hefur verið hengd upp á kaffistofu og óskir þeirra til foreldra eru:

Foreldrar eiga að hjálpa okkur með námsefnið og vita hvað er í gangi í skólanum, þeir eiga líka að hjálpa manni með annað sem mann vantar. Þeir eiga að spyrja og taka eftir hvernig okkur líður og styðja börnin sín.

 Á miðvikudaginn vorum við með fræðslufund fyrir starfsfólk um samskipti við fjöl- og tvítyngda foreldra, skólastarf í fjölmenningarumhverfi og pólska skólamenningu. Þetta er partur af þróunarverkefninu okkar og vonandi getum við tekið upp þráðinn með foreldrum þarf sem horfið var frá vegna covid í fyrra vor, við bíðum spennt eftir því. Þær Kriselle og Magdalena sem voru með fræðsluna núna sendu okkur glærur sem eru ætlaðar foreldrum, þær hafa verið vistaðar á heimasíðunni undir ,,skrár“ og heita verkfærakista fyrir foreldra.

Matseðill 23.-27.nóv

Mánudagur 23.

Kjúklingabollur, kartöflur, sósa, salat og ávextir

Þriðjudagur 24.

Soðinn fiskur og kartöflur, grænmeti og ávextir

Miðvikudagur 25.

Hakkréttur, kartöflumús, salat og ávextir

Fimmtudagur 26.

Íslensk kjötsúpa, ávextir

Föstudagur 27.

Salsafiskur, hrísgrjón, grænmeti og ávextir

Fréttir vikunnar 16.-20.nóvember. 2020

Allir segja sína skoðun
Allir segja sína skoðun
1 af 2

Í þessari viku fóru foreldraviðtöl fram að loknum skóladegi nemenda. Þau voru með óvenjulegu sniði að þessu sinni þar sem við erum enn beðin um að takmarka aðgengi fullorðinna að skólanum eins og við getum og viðtölin fóru því fram gegnum fundaforritið zoom. Það gekk bara ljómandi vel í flestum tilvikum þó að netsambandið hafi aðeins verið að stríða okkur.

Skólastarfið var að mestu hefðbundið að öðru leyti en því að í dag, föstudaginn 20.nóvember héldum við annað nemendaþing skólaársins. Dagurinn er alþjóðlegur dagur réttinda barna og að þessu sinni tengdum við vinnu þingsins við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Aðstæður barna í ólíkum löndum eru mjög misjafnar og til að vekja nemendur til umhugsunar um að það hafa það ekki allir jafn gott og langt er frá því að réttindi allra barna séu tryggð byrjuðum við á að sýna myndbönd frá Unicef þar sem fjallað er um heimilisleysi og barnaþrælkun. Að því loknu tók nemendur til við spurningarnar sex sem voru til umfjöllunar í dag. Þær voru

  1. Hvað finnst ykkur mikilvægast að læra í skólanum?
  2. Er eitthvað sem er ekki kennt í skólanum en þið mynduð vilja læra?
  3. Hvaða námsgrein teljið þið að nýtist ykkur best fyrir framtíðina?
  4. Hvernig finnst ykkur að starfsmenn skólans eigi að vera í samskiptum við ykkur?
  5. Hversu mikið og hvernig finnst ykkur að foreldrar ykkar eigi að taka þátt í skólastarfinu eða aðstoða ykkur í náminu? (Hvað geta foreldrar gert til að hjálpa?)
  6. Hversu miklu máli skiptir að líða vel í skólanum? Hvað skapar vellíðan í skólanum?

Þar sem enn er ekki leyfilegt að blanda nemendum milli sóttvarnarhólfa tók yngsta stigið ekki þátt í hópvinnunni en var með sérstakan umræðufund um tvær fyrstu spurningarnar í sinni bekkjarstofu. Það er skemmst frá að segja að nemendur stóðu sig frábærlega í þessari vinnu og eru orðnir mjög færir í að tjá skoðanir sínar með skipulegum hætti.  Frekari úrvinnsla niðurstaðna bíður og verða þær birtar um leið og þær liggja fyrir.

Á mánudaginn ætlum við svo að reyna að gefa kórónuveirunni langt nef og halda lestrarhátíðina okkar þó að við megum ekki fá gesti í skólann. Krakkarnir eru búnir að æfa margskonar upplestur og ljóðaflutning og hátíðin hefst klukkan 10:15. Þeir sem vilja fylgjast með eru beðnir um að senda póst á jonab@isafjordur.is og fá þá hlekk á mánudaginn þar sem hægt verður að hlusta á krakkana

 

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Matseðill 16.-20.nóv

16.mánudagur

Skyr, pitsusnúðar, grænmeti og ávextir.

17.þriðjudagur

Fiskur í raspi, kartöflur, salat og ávextir.

18.miðvikudagur

Hakk og spagettí, grænmeti og ávextir.

19.fimmtudagur

Kjúklingaleggir, kartöflur, salat og ávextir.

20.föstudagur

Fiskur í karrýsósu, hrísgrjón, grænmeti og ávextir.

Fréttir vikunnar 9.-13.nóv

Miðstig á kynningu
Miðstig á kynningu

Krakkarnir okkar hafa verið ótrúlega duglegir að fara eftir sóttvarnarreglunum þessa viku og eiga skilið hrós fyrir það.  Við vonum að við losnum við grímurnar sem fyrst, en meðan þær eru skylda notum við þær.

Á miðvikudaginn unnu unglingarnir með félögum okkar í Svíþjóð, Hollandi, Grikklandi og Búlgaríu í Erasmus+verkefninu okkar. Vinnan fór fram í gegnum Teams og tókst bara mjög vel. Eins og áður vorum við að fjalla um Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og næsta verkefni okkar í þessu, sem jafnframt er það síðasta, verður ráðstefna sem við munum halda þann í samstarfi við Amnesty international þann 11.desember.

Við höfum ákveðið að fresta lestrarhátíðinni okkar um viku í þeirri von að þá verði búið að létta þannig á sóttvörnum að við megum vera grímulaus. Hún verður því 23.nóvember. Þið munið fá nánari fréttir af henni þegar nær dregur.

Í dag voru nemendur miðstigs að skila af sér í áhugasviðsverkefni. Að þessu sinni var verið að fjalla um höfundarrétt og nemendur gerðu ýmist útvarpsleikrit eða vídeoþætti. Þeim fer stöðugt fram í þessari vinnu og það verður gaman þegar við getum farið að bjóða gestum á lokakynningar.

Nú ættu allir að vera búnir að fá heim miða um foreldraviðtölin sem munu fara fram í gegnum forritið zoom að þessu sinni, það er talsverð áskorun og við hlökkum til að prófa þetta því ef vel gengur getum við líka boðið ykkur að fylgjast með öðrum viðburðum í skólanum með þessari tækni.

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum

Matseðill 9.11 – 13.11

 

Mánudagur

Grjónagrautur, slátur, grænmeti, pizzabrauð og ávextir

Þriðjudagur

Fiskisúpa, baguette brauð og ávextir

Miðvikudagur

Pólsk hátíð

Fimmtudagur

Grísalundir, kartöflur, salat og ávextir​

Föstudagur

Plokkfiskur, rúgbrauð, grænmeti og ávextir

Fréttir vikunnar 2.-6.nóvember

Hér sést hvernig okkar nemendur meta ánægju af lestri miðað við skóla af sambærilegri stærð, landsmeðaltal er rauða línan.
Hér sést hvernig okkar nemendur meta ánægju af lestri miðað við skóla af sambærilegri stærð, landsmeðaltal er rauða línan.
1 af 5

Þá er þessari fyrstu viku skólastarfs með nýjum sóttvarnarreglum að ljúka. Eldri nemendurnir okkar hafa staðið sig vel í að vera með grímur og gert sitt besta til að virða tveggja metra regluna þó að auðvitað gleymist það stundum.  Við erum ánægð með að geta haldið úti allri þeirri kennslu sem veitt er í okkar skóla og að það eina sem hafi þurft að fella niður sé valið í GÍ, en þar eru valgreinar ekki kenndar meðan á þessu stendur þar sem í þeim blandast nemendur úr ólíkum námshópum.  Við vonum nú samt öll að þetta ástand vari sem styst.

Á fimmtudaginn ræddum við um Kompásþátt miðvikudagsins við nemendur mið- og unglingastigs.  Þátturinn var um stafrænt kynferðisofbeldi og við leggjum til að foreldrar horfi á þennan þátt með börnum sínum og ræði efni hans.  Hlekkurinn er https://www.visir.is/g/20202032830d

Í þessari viku fengum við niðurstöður úr bæði nemendakönnun Skólapúlsins og samræmdum prófum í 4.og 7. bekk.  Þessar kannanir eru hluti af þeim mælikvörðum sem notaðir eru til að leggja mat á skólastarf og við tökum að sjálfsögðu mark á þeim og bregðumst við eftir því sem er í okkar valdi.

Af niðurstöðum okkar úr Skólapúlsi er það helst að frétta að nemendur okkar eru áhugasamari um lestur og stærðfræði en gengur og gerist og þeim líður einnig almennt vel í skólanum, en við eigum lönd að vinna þar sem þeir meta hvernig þeim gengur að finnast þeir tilheyra nemendahópnum.  Nokkrar skýringarmyndir af niðurstöðunum fylgja með þessari frétt.  Þess ber þó að geta að svona niðurstöður eru ekki neinn stóri sannleikur heldur mat nemenda á þeim degi sem þeir svara spurningakönnuninni samanborið við svör annarra nemenda á landinu.

Niðurstöður okkar í samæmdum könnunarprófum voru mjög góðar í stærðfræði en ekki eins góðar í íslensku, rétt eins og við bjuggumst við.  Það að nemendur okkar nái svona góðum árangri í stærðfræðinni segir okkur að hægt sé að gera mun betur í íslenskunni því námsgetan er í lagi og því er ekki ásættanlegt að svona margir krakkar hjá okkur séu undir landsmeðaltali í íslensku.  Við höfum verið með sérstök verkefni í gangi til að styðja við íslenskuna og vonandi eru þau að byrja að skila sér því staðan er betri í ár en í fyrra, en betur má ef duga skal og allt mun þetta ganga enn betur ef við hjálpumst öll að, skóli, heimili og samfélag, við að hvetja nemendur til dáða.

Við minnum svo á foreldraviðtölin sem verða í þarnæstu viku og verða rafræn að þessu sinni og að þeim foreldrum sem vilja nota tækifærið og æfa sig í rafrænum fundum er boðið á prufufund mánudaginn 9.nóv. kl.17:00.  Til að taka þátt í honum þarf að senda póst á jonab@isafjordur.is.

Bestu kveðjur úr skólanum og hafið það gott um helgina

Um takmarkanir á skólastarfi vegna sóttvarna

Á morgun taka gildi nýjar reglur um sóttvarnir sem hafa nokkur áhrif á skólastarfið þó að við reynum að láta þetta trufla okkur sem minnst. Við eigum að skilgreina sóttvarnarhólf og okkar eini möguleiki á því að skilgreina umferð nemenda um hvora hæð fyrir sig. Sameiginleg rými svo sem salerni, anddyri og gangar eru undanþegin þessu. Í hádegishléi munum við leysa málið þannig að kl.12:10 fara nemendur yngsta stigs í mat og svo í frímínútur klukkan 12:30 og mið- og elsta stig fara fyrst í frímó og svo í matinn.

Almennar breytingar eru þær að nú eiga allir í 5.bekk og eldri að vera með grímur inni í skólanum, við mælumst til þess að þeir nemendur sem eiga fjölnota grímur komi með þær í skólann en við munum verða með einnota grímur sem nemendur fá.  Það er líka mikilvægt að nemendur læri að umgangast grímurnar og við munum taka það fyrir í fyrramálið.  Þá munum við líka ítreka mikilvægi handþvottar.

Í 1.-4.bekk verða minnstu breytingarnar. Þó munu íþróttatímar ekki verða í íþróttahúsinu, íþróttakennari mun skipuleggja aðra kennslu með hópnum, gera má ráð fyrir útivist ef veður leyfir. Sóttvarnahólf 1.-4.bekkjar miðast við neðri hæð skólans.

Í 5.-7.bekk miðast sóttvarnahólf við efri hæð, nemendur mega þó fara á salerni og í matsal og þar sem það er leyfilegt teljum við einnig hægt að vera með kennslu í heimilisfræðistofu. Við munum gera undanþágu fyrir 5.bekk til að fara í smíði, kennari mun taka til áhöld og spritta þau bæði við upphaf og lok kennslustundar.  Þar sem ekki er heimilt að vera með íþróttir mun dönskukennsla verða efld meðan á þessu stendur. Í dansi mun verða farið í klappleiki og annað rólegt sem ekki krefst mikillar snertingar eða hreyfingar.

Í 8.-10.bekk gilda sömu ráðstafanir og hjá miðstigi varðandi íþróttir og dans. Valgreinar í Grunnskólanum á Ísafirði falla niður en að öðru leyti verður stundataflan óbreytt.

Við erum enn beðin um að takmarka umgengni foreldra og annarra gesta um skólann eins og hægt er.

Það verður áskorun að kenna nemendum miðstigs að virða 2.metra fjarlægðarmörkin og við vitum að þið munið hjálpa okkur við það með því að ítreka þau líka við krakkana.

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum