VALMYND ×

Fréttir

Fréttir vikunnar 9.-13.nóv

Miðstig á kynningu
Miðstig á kynningu

Krakkarnir okkar hafa verið ótrúlega duglegir að fara eftir sóttvarnarreglunum þessa viku og eiga skilið hrós fyrir það.  Við vonum að við losnum við grímurnar sem fyrst, en meðan þær eru skylda notum við þær.

Á miðvikudaginn unnu unglingarnir með félögum okkar í Svíþjóð, Hollandi, Grikklandi og Búlgaríu í Erasmus+verkefninu okkar. Vinnan fór fram í gegnum Teams og tókst bara mjög vel. Eins og áður vorum við að fjalla um Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og næsta verkefni okkar í þessu, sem jafnframt er það síðasta, verður ráðstefna sem við munum halda þann í samstarfi við Amnesty international þann 11.desember.

Við höfum ákveðið að fresta lestrarhátíðinni okkar um viku í þeirri von að þá verði búið að létta þannig á sóttvörnum að við megum vera grímulaus. Hún verður því 23.nóvember. Þið munið fá nánari fréttir af henni þegar nær dregur.

Í dag voru nemendur miðstigs að skila af sér í áhugasviðsverkefni. Að þessu sinni var verið að fjalla um höfundarrétt og nemendur gerðu ýmist útvarpsleikrit eða vídeoþætti. Þeim fer stöðugt fram í þessari vinnu og það verður gaman þegar við getum farið að bjóða gestum á lokakynningar.

Nú ættu allir að vera búnir að fá heim miða um foreldraviðtölin sem munu fara fram í gegnum forritið zoom að þessu sinni, það er talsverð áskorun og við hlökkum til að prófa þetta því ef vel gengur getum við líka boðið ykkur að fylgjast með öðrum viðburðum í skólanum með þessari tækni.

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum

Matseðill 9.11 – 13.11

 

Mánudagur

Grjónagrautur, slátur, grænmeti, pizzabrauð og ávextir

Þriðjudagur

Fiskisúpa, baguette brauð og ávextir

Miðvikudagur

Pólsk hátíð

Fimmtudagur

Grísalundir, kartöflur, salat og ávextir​

Föstudagur

Plokkfiskur, rúgbrauð, grænmeti og ávextir

Fréttir vikunnar 2.-6.nóvember

Hér sést hvernig okkar nemendur meta ánægju af lestri miðað við skóla af sambærilegri stærð, landsmeðaltal er rauða línan.
Hér sést hvernig okkar nemendur meta ánægju af lestri miðað við skóla af sambærilegri stærð, landsmeðaltal er rauða línan.
1 af 5

Þá er þessari fyrstu viku skólastarfs með nýjum sóttvarnarreglum að ljúka. Eldri nemendurnir okkar hafa staðið sig vel í að vera með grímur og gert sitt besta til að virða tveggja metra regluna þó að auðvitað gleymist það stundum.  Við erum ánægð með að geta haldið úti allri þeirri kennslu sem veitt er í okkar skóla og að það eina sem hafi þurft að fella niður sé valið í GÍ, en þar eru valgreinar ekki kenndar meðan á þessu stendur þar sem í þeim blandast nemendur úr ólíkum námshópum.  Við vonum nú samt öll að þetta ástand vari sem styst.

Á fimmtudaginn ræddum við um Kompásþátt miðvikudagsins við nemendur mið- og unglingastigs.  Þátturinn var um stafrænt kynferðisofbeldi og við leggjum til að foreldrar horfi á þennan þátt með börnum sínum og ræði efni hans.  Hlekkurinn er https://www.visir.is/g/20202032830d

Í þessari viku fengum við niðurstöður úr bæði nemendakönnun Skólapúlsins og samræmdum prófum í 4.og 7. bekk.  Þessar kannanir eru hluti af þeim mælikvörðum sem notaðir eru til að leggja mat á skólastarf og við tökum að sjálfsögðu mark á þeim og bregðumst við eftir því sem er í okkar valdi.

Af niðurstöðum okkar úr Skólapúlsi er það helst að frétta að nemendur okkar eru áhugasamari um lestur og stærðfræði en gengur og gerist og þeim líður einnig almennt vel í skólanum, en við eigum lönd að vinna þar sem þeir meta hvernig þeim gengur að finnast þeir tilheyra nemendahópnum.  Nokkrar skýringarmyndir af niðurstöðunum fylgja með þessari frétt.  Þess ber þó að geta að svona niðurstöður eru ekki neinn stóri sannleikur heldur mat nemenda á þeim degi sem þeir svara spurningakönnuninni samanborið við svör annarra nemenda á landinu.

Niðurstöður okkar í samæmdum könnunarprófum voru mjög góðar í stærðfræði en ekki eins góðar í íslensku, rétt eins og við bjuggumst við.  Það að nemendur okkar nái svona góðum árangri í stærðfræðinni segir okkur að hægt sé að gera mun betur í íslenskunni því námsgetan er í lagi og því er ekki ásættanlegt að svona margir krakkar hjá okkur séu undir landsmeðaltali í íslensku.  Við höfum verið með sérstök verkefni í gangi til að styðja við íslenskuna og vonandi eru þau að byrja að skila sér því staðan er betri í ár en í fyrra, en betur má ef duga skal og allt mun þetta ganga enn betur ef við hjálpumst öll að, skóli, heimili og samfélag, við að hvetja nemendur til dáða.

Við minnum svo á foreldraviðtölin sem verða í þarnæstu viku og verða rafræn að þessu sinni og að þeim foreldrum sem vilja nota tækifærið og æfa sig í rafrænum fundum er boðið á prufufund mánudaginn 9.nóv. kl.17:00.  Til að taka þátt í honum þarf að senda póst á jonab@isafjordur.is.

Bestu kveðjur úr skólanum og hafið það gott um helgina

Um takmarkanir á skólastarfi vegna sóttvarna

Á morgun taka gildi nýjar reglur um sóttvarnir sem hafa nokkur áhrif á skólastarfið þó að við reynum að láta þetta trufla okkur sem minnst. Við eigum að skilgreina sóttvarnarhólf og okkar eini möguleiki á því að skilgreina umferð nemenda um hvora hæð fyrir sig. Sameiginleg rými svo sem salerni, anddyri og gangar eru undanþegin þessu. Í hádegishléi munum við leysa málið þannig að kl.12:10 fara nemendur yngsta stigs í mat og svo í frímínútur klukkan 12:30 og mið- og elsta stig fara fyrst í frímó og svo í matinn.

Almennar breytingar eru þær að nú eiga allir í 5.bekk og eldri að vera með grímur inni í skólanum, við mælumst til þess að þeir nemendur sem eiga fjölnota grímur komi með þær í skólann en við munum verða með einnota grímur sem nemendur fá.  Það er líka mikilvægt að nemendur læri að umgangast grímurnar og við munum taka það fyrir í fyrramálið.  Þá munum við líka ítreka mikilvægi handþvottar.

Í 1.-4.bekk verða minnstu breytingarnar. Þó munu íþróttatímar ekki verða í íþróttahúsinu, íþróttakennari mun skipuleggja aðra kennslu með hópnum, gera má ráð fyrir útivist ef veður leyfir. Sóttvarnahólf 1.-4.bekkjar miðast við neðri hæð skólans.

Í 5.-7.bekk miðast sóttvarnahólf við efri hæð, nemendur mega þó fara á salerni og í matsal og þar sem það er leyfilegt teljum við einnig hægt að vera með kennslu í heimilisfræðistofu. Við munum gera undanþágu fyrir 5.bekk til að fara í smíði, kennari mun taka til áhöld og spritta þau bæði við upphaf og lok kennslustundar.  Þar sem ekki er heimilt að vera með íþróttir mun dönskukennsla verða efld meðan á þessu stendur. Í dansi mun verða farið í klappleiki og annað rólegt sem ekki krefst mikillar snertingar eða hreyfingar.

Í 8.-10.bekk gilda sömu ráðstafanir og hjá miðstigi varðandi íþróttir og dans. Valgreinar í Grunnskólanum á Ísafirði falla niður en að öðru leyti verður stundataflan óbreytt.

Við erum enn beðin um að takmarka umgengni foreldra og annarra gesta um skólann eins og hægt er.

Það verður áskorun að kenna nemendum miðstigs að virða 2.metra fjarlægðarmörkin og við vitum að þið munið hjálpa okkur við það með því að ítreka þau líka við krakkana.

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum

Fréttir vikunnar 26.-30. okt. 2020

Bekkjarsáttmáli elsta stigs
Bekkjarsáttmáli elsta stigs
1 af 3

Vinna með samskipti er rauður þráður í öllu skólastarfi. Með þessari frétt fylgja meðal annars myndir af bekkjarsáttmálum elsta stigs og miðstigs. Það sem er svo skemmtilegt við bekkjarsáttmálavinnuna er að í henni kemur vel fram að nemendur vita alveg hvernig þeir vilja vera og hvernig þeir vilja hafa skólastarfið, þeim tekst bara ekki alltaf að fara eftir því. En fyrsta skrefið er að skilgreina fyrir sjálfum sér hvernig maður vill vera og hafa hlutina og svo þarf maður að æfa sig og fá ábendingar bæði þegar tekst vel og illa.

Það styttist nú bæði í lestrarhátíðina okkar og í foreldraviðtölin. Samkomutakmarkanir og sóttvarnir hafa sett heilmikið strik í allt samstarf hjá okkur það sem af er þessu skólaári og við höfum verið að leita leiða til að finna lausnir á því. Við gerum ekki ráð fyrir að búið verði að létta þessum takmörkunum í þriðju viku nóvember þegar bæði lestrarhátíðin og foreldraviðtölin eru á dagskrá. Við erum orðin vön að nota forritið zoom við ýmsar aðstæður og ætlum að gera tilraun með að nota það til að bjóða ykkur til þátttöku í þessum viðburðum. Varðandi lestrarhátíðina munum við biðja þá sem vilja fylgjast með upplestrinum að senda okkur póst með nokkurra daga fyrirvara og þeir fá þá síðan póst til baka frá okkur með hlekk til að smella á til að fylgjast með í beinni útsendingu. Varðandi foreldraviðtölin munu þau fara fram með sama hætti, það er hvert foreldri fær hlekk frá okkur sem það smellir á og þá mun opnast fundur.  Í báðum tilvikum munum við senda fundarboðin með skömmum fyrirvara svo við biðjum ykkur að fylgjast vel með þessu þegar nær dregur.

Skólavefurinn var að setja í loftið síðu til að aðstoða krakka með pólskan bakgrunn við að ná betri tökum á íslensku, hlekkur á síðuna er hér https://nytt.skolavefurinn.is/namsgrein/islenska-bekkir/nybua/laerum-islensku-polska

Nýja trommusettið okkar var tekið í notkun í dag og er þetta allt annað líf bæði fyrir nemendur og starfsmenn og gerir einnig kleift að færa trommukennsluna á hærra plan því nú verður hægt að tromma með lögum.  Við þökkum Klofningi og  Kvenfélaginu Ársól kærlega fyrir að styðja þetta verkefni og allan annan stuðning í gegnum tíðina.

Nú rétt í þessu var ríkisstjórnin að kynna hertar sóttvarnareglur. Ljóst er að þær munu hafa áhrif á skólastarfið þar sem boðaðar eru takmarkanir sem eiga að gilda fyrir alla fædda eftir 2015. Ráðamenn gefa sér helgina til að vinna reglugerð sem við eigum að fara eftir.  Miðað við það sem við þó vitum gerum við ráð fyrir að þurfa að endurskipuleggja stundatöflur nemenda og verðum því með skipulagsdag á mánudaginn. Sem sagt ekki skóli hjá nemendum á mánudaginn.

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Matseðill vikunnar 2.-6.nóv

Mánudagur, spagettísúpa, grænmeti og ávextir

Þriðjudagur, fiskur í raspi, kartöflur, salat og ávextir

Miðvikudagur, kjúklingaréttur, pasta, salat og ávextir

Fimmtudagur, kjötbollur, ofnbakaðar kartöflur og grænmetissalat

Föstudagur, soðinn fiskur, kartöflur og soðið grænmeti

Fréttir vikunnar 19.-23.okt

1 af 2

Um þessar mundir eru námshóparnir okkar á fullu við að vinna með samskipti. Eitt af því sem gerum til að byggja upp góð samskipti er að ræða með krökkunum hvernig góð samskipti eru og hvernig samskipti leiða til erfiðleika.  Þessa vikuna var miðstigið að ræða hvernig nemendur vilja hafa samskiptin og kennslustundirnar, hvers þeir þarfnast og hvað þeir vilja ekki. Einnig hvernig þeir vilja að kennarar komi fram við þá og hvernig þeir vilja alls ekki að kennarar komi fram. Yngsta stigið var að skilgreina  hlutverk nemenda og kennara í kennslustofunni og það er ljóst að nemendur vita alveg hvaða hegðun kemur sér vel og er gagnleg fyrir þá, þeir geta bara ekki alltaf fylgt henni eftir. Myndirnar sem hér fylgja með eru af samantekt úr þessari vinnu.  Gaman væri ef foreldrar gætu rætt þetta líka heima því auðvitað hafa börn og foreldrar ólík hlutverk þar og það getur einnig verið mjög gott að skýra þau.

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Lestrarátak

Í dag hefst lestrarátak hjá yngstu nemendunm og stendur það til 6.nóvember. Að þessu sinni er fimman tekin fyrir en þá er lesið í eina mínútu í senn og endurtekið síðan fimm sinnum. Með þessu er verið að þjálfa lesfimina sem og lestraröryggið. Nemendur fengu með sér blað heim sem merkja á við í hvert sinn sem lesið er. 

Matseðill 20.10 - 23.10

 

 Þriðjudagur 20. október:

 Fiskur í raspi, kartöflur, hrásalat, remolaði og ávextir

 Miðvikudagur 21. október:

 Mexikósk kjúklingasúpa, snittubrauð og ávextir.

 Fimmtudagur 22. október:

 Tortillabátar m/hakki og grænmeti og ávextir.

 Föstudagur 23.október:

 Gratínfiskur, kartöflur, grænmeti og ávextir.

 

Fréttir vikunnar 12.-16.okt

Leikið með fallhlíf
Leikið með fallhlíf
1 af 5

Þessir dásamlegu haustdagar stytta svo sannarlega veturinn sem okkur finnst vera nýbyrjaður og samt er komið að haustfríinu.

Nemendur hafa að vanda verið að fást við eitt og annað, nemendur miðstigs hafa verið að vinna eftirlíkingu af víkingarefli í samfélagsfræðinni og hluti af þeirri vinnu er nú tilbúinn. Þetta hefur bæði krafist þess að þeir áttuðu sig á lífsháttum fólks á söguöld og gætu sýnt samvinnu við að koma henni á blað.

Við höfum æft okkur í tæknimálum og kennari sem var heima vegna flensueinkenna kenndi að heiman frá sér einn dag, nemendur voru í sinni skólastofu og allir með kennarann á skjánum og það gekk mjög vel. Nú eru bæði nemendur unglinga- og miðstigs búnir að prófa sig áfram með vinnu í zoom og ef til þess þarf að koma að nemendur, einn eða fleiri, þurfa að vera heima vegna sóttvarnaráðstafana erum við tilbúin í fjarkennslu.

Það eru breytingar í starfsmannamálum hjá okkur um þessar mundir, hún Aldís hefur lokið störfum hjá okkur, við þökkum henni kærlega fyrir góð störf undanfarin ár. Við hennar kennslu taka þau Ólöf Birna og Einar Mikael Sverrisson. Einar er nýr hjá okkur og við bjóðum hann velkominn til samstarfsins.

Í dag stóð til að við færum á hina hefðbundnu ,,Öðruvísileika“ sem að þessu sinni áttu að vera á Þingeyri. Það var auðvitað ekki hægt vegna sóttvarnaráðstafana og þess í stað héldum við okkar eigin ,,Kórónuleika“ þar sem nemendur fóru á milli stöðva og tóku þátt í margskonar leikjum og það verður að segjast að hin íslenska glíma sló í gegn hjá mörgum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hafið það gott um helgina og munið að það er hvorki skóli á föstudag né mánudag.

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.