VALMYND ×

Fréttir

Í næstu viku

Eins og staðan er núna vitum við ekki betur en að við megum hefja skólastarf í næstu viku. Það verða þó ennþá sömu takmarkanir og við vorum með fyrir páskafrí. Það er nemendur ljúka skóladegi um hádegi, ekki má nota búningsklefa og kennarar og nemendur fara ekki á milli hópa. Þetta þýðir að unglingastigið mætir kl. 8:10 og nemendur fara á ólíkum tímum í frímínútur. Eins og fyrir páska bjóðum við nemendum inn einum og einum í einu eftir því sem þeir koma í skólann að morgni og gætum þess að nemendur úr ólíkum hópum séu ekki í anddyrinu á sama tíma. Við erum ekki laus úr sóttvarnaaðstæðum og verðum að halda þetta út aðeins lengur. 

Við höfum vonandi öll lært heilmikið í þessum skrýtnu aðstæðum og við í skólanum hlökkum til að hitta krakkana á mándagsmorgun.

Gleðilegt sumar

Snjórinn er nú óðum að bráðna á skólalóðinni og sumardagurinn fyrsti er á morgun. Eftir helgi gerum við ráð fyrir að geta byrjað með skólastarfið alveg eins og það var í síðustu vikunni fyrir páska. það er skóli frá 8 (8:10) til 12.30 (12:40) hjá nemendum. Við munum áfram gæta þess að nemendur blandist ekki milli hópa og þar sem allir verða búnir um hádegisbil þarf ekki mat. Eftir 4.maí vonumst við svo til að geta farið í gang með allt með hefðbundnum hætti. En þangað til verðum við öll að muna eftir að passa okkur, sóttvarnatímabilinu er ekki lokið og það er mjög mikilvægt að halda það út.

Bestu kveðjur og gleðilegt sumar

Aflétting hafta 4.maí

Góðan dag

Ég set hér inn hlekk á spuringar frá ýmsum aðilum um hvernig skólastarfi skal háttað eftir 4.maí og hefur verið svarað af almannavörnum. Ég hvet foreldra til að kynna sér þetta vel.  Í stuttu máli má segja að skólastarf verði með hefðbundnum hætti eftir 4.maí, nema að aðgengi annarra fullorðinna en starfsmanna er takmarkað.

https://www.stjornarradid.is/verkefni/menntamal/spurt-og-svarad-skolastarf-a-neydarstigi-almannavarna/

 

Sálfræðiþjónusta

Tilkynning frá Skólasviði

Þar sem ekki hefur verið hægt vegna ástandsins í þjóðfélaginu að veita sérfræðiaðstoð sálfræðinga sl. vikur þá hafa sálfræðingarnir okkar þær Sólveig Norðfjörð og Björg Norðfjörð ákveðið að opna fyrir ráðgjöf með símaviðtölum við nemendur, foreldra og kennara. Einnig ætla þær að hafa samband við þá foreldra sem bíða eftir niðurstöðum viðtala frá því í febrúar.

Þeir sem telja sig þurfa ráðgjöf er bent á að hafa samband við Sólveigu eða Björgu í gegnum tölvupóst: solveignordfjord@gmail.com  eða bjorg00@hotmail.com gefa upp nafn, símanúmer og jafnvel nafn barnsins ef það hefur verið í viðtölum hjá þeim. Þær munu síðan hafa samband við viðkomandi við fyrsta tækifæri.

Sálfræðingarnir sem starfa við leik- og  grunnskóla Ísafjarðarbæjar eru hluti af skólaþjónustu sveitarfélagsins og sinna allri almennri sálfræðivinnu við skólanna. Sálfræðingarnir vinna í nánu samstarfi við starfsfólk leik- og grunnskólanna og aðra þá sem koma að málefnum barna.

Með bestu kveðju

Guðrún Birgisdóttir

Skóla- og sérkennslufulltrúi

Ísafjarðarbæjar

Í upphafi viku tvö

Nú við upphaf annarrar vikunnar sem skólinn er lokaður eru ýmis skilaboð sem yfirvöld og aðilar sem sinna velferð barna og ungmenna vilja koma til foreldra.  Ég set hér inn hlekk á skilaboð frá Heimili og skóla og svo efni sem kom frá Umboðsmanni barna. þessi skjöl koma líka til ykkar í gegnum tölvupóst í mentor.

Hér eru upplýsingar frá Heimili og skóla:

Heimili og skóli og SAFT hafa gefið út efni í samstarfi við Evrópuráðið sem finna má á heimasíðunni www.saft.is

 Um er að ræða góðar ábendingar um netnotkun með börnum á tímum Covid 19 og skemmtilegt spil þar sem reynir á þekkingu barna og fullorðinna á veirunni, áhrifum hennar og hvernig má forðast smit. Við hvetjum foreldra og aðra aðstandendur til að kynna sér leiðbeiningarnar og leikinn sem allir geta haft bæði gagn og gaman af.

 Beinn tengill á efnið er hér: https://saft.is/wp-content/uploads/2020/04/Covid-SAFT.pdf

Og hér frá Umboðsmanni barna:

Í starfi umboðsmanns barna er skýr áhersla lögð á 12. gr. Barnasáttmálans, og unnið að því markmiði að við mótun stefnu og töku ákvarðana sem varða börn verði ávallt leitað eftir og tekið tillit til sjónarmiða þeirra, enda búa börn yfir einstakri reynslu og þekkingu sem og innsýn í málefni og reynsluheim barna.

Við lifum á sögulegum tímum þar sem ýmsar samfélagslegar breytingar hafa orðið í kjölfar þess faraldurs sem nú stendur yfir. Umboðsmaður barna vill gjarnan heyra frá börnum og fá þeirra sýn og reynslu af því að vera barn á þessum tímum.

 Í samstarfi við KrakkaRÚV vinnur umboðsmaður barna að nýju verkefni undir heitinu „Áhrif kórónuveirunnar á líf barna“. Tilgangur þess er að safna saman frásögnum barna um líðan þeirra og reynslu af þeim breytingum sem kórónufaraldurinn hefur haft á daglegt líf svo sem skólagöngu barna, þátttöku í tómstundum og aðstæður þeirra heima fyrir. Þannig sköpum við mikilvæga samtímaheimild um leiðir barna til að takast á við samfélags áhrif heimsfaraldurs og áður óþekktar aðstæður.

 Frásagnirnar geta verið af ýmsum toga og á þann máta sem hentar hverjum og einum. Við viljum gjarnan fá myndbönd en einnig er hægt að senda inn ljóð, ritaðar hugleiðingar, hljóðbrot, hlaðvörp, teikningar, viðtöl o.s.frv. Tekið er við efni á netfanginu barn@barn.is. Stórar skrár er hægt að senda á sama netfang í gegnum WeTransfer.

 Einnig er hægt að nota þetta form til að skila inn skrifuðu efni eða hugleiðingum - https://forms.gle/pEBTQ22BRf6KEZnZ8

 Tekið er á móti efni til 21. maí nk.

Veturinn 2009 – 2010 stóð umboðsmaður barna fyrir sambærilegu verkefni sem bar heitið „Hvernig er að vera barn á Íslandi?“. Þá bárust okkur rúmlega þúsund teikningar og frásagnir barna sem voru að alast upp á tímum efnahagsþrenginga. Við vonumst til að fá jafn góðar undirtektir í þetta sinn og hlökkum til að heyra frá börnunum.

Ef óskað er frekari upplýsinga má svara þessum pósti eða senda tölvupóst á barn@barn.is. Einnig er hægt að hringja í síma 552-8999 eða 862-6999.

Með kærri kveðju,

Salvör Nordal, umboðsmaður barna

 

Fréttir vikunnar 14.-17.apríl

Fyrst er hér tilkynning frá Almannavörnum um hópamyndanir sem við vorum beðin um að koma á framfæri við ykkur.

Við höfum fengið ábendingu um að hópamyndum unglinga á leiksvæðum að kvöldlagi hefur verið að aukast. Ástæðan er líklega gott veður og þær jákvæðu fréttir sem hafa verið að berast af þróun mála hjá okkur. Það er aftur á móti mjög mikilvægt að við höldum fókus og sofnum alls ekki á verðinum.

Viljum við hvetja ykkur til að vekja foreldra til vitundar um að við verðum öll halda áfram að fara eftir fyrirmælum og sporna gegn allri hópamyndum.

En af skólastarfinu þessa viku eru auðvitað sérkennilegar fréttir þar sem skólinn er lokaður vegna sóttvarna.  Það hefur samt verið heilmargt í gangi og við erum öll að læra saman.  Unglingarnir hafa verið í kennslu gegnum forritið zoom frá klukkan 9-12 alla daga og það hefur gengið framar okkar björtustu vonum, enda frábærir krakkar. Þeir hafa svo líka fengið verkefni gegnum google-classroom sem þeir skila beint til kennara. Í næstu viku verður sama skipulag hjá þeim nema að íþróttir færast eftir hádegið og þá skapast rými fyrir eina kennslustund til viðbótar. Bryndís verður með tvo tíma á dag og Jóhannes og Sigmar tvo tíma hvor í vikunni. 

Miðstigið fékk námsefnispakka og ipadana sína heim. Við höfum verið að prófa að senda þeim verkefni gegnum google- classroom og það hefur gengið mjög vel hjá sumum en við sjáum að aðrir eru í smá vandræðum með þetta. Enda ekki nema von þar sem við vorum ekki búin að æfa þetta neitt með þeim áður en skólanum var lokað. Héldum jafnvel að þau væru of ung til að fást við þetta en þau hafa sýnt og sannað að það eru þau ekki.  Í dag sendum við þeim frekari leiðbeiningar í tölvupósti og ef foreldrar óska er sjálfsagt að fá tíma hjá Jónu eða Eddu á mánudaginn til að fá frekari aðstoð með þetta ef þarf. Við biðjum ykkur bara að senda tölvupóst svo við getum passað að það komi ekki margir á sama tíma.

Nemendur á yngsta stigi eru vonandi duglegir að lesa heima og nokkrir fengu stærðfræðiefni til viðbótar í dag. Ef foreldrar óska eftir frekari verkefnum fyrir þá má senda tölvupóst á Ásu.

Svo minnum við á að það er hægt að koma í skólann til að endurnýja lestrarbækur, en nauðsynlegt er að senda póst á undan sér til að passa fjöldatakmarkanir.

Gangi ykkur vel með lesturinn og skólavinnuna, ekki hika við að senda póst á okkur ef eitthvað er óljóst.

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.

Heimanám nemenda vegna sóttvarna

Á þessum fyrsta degi sem skólinn er lokaður hefur starfsfólk skipulagt heimanám fyrir nemendur. Við gerum ekki ráð fyrir öðru en daglegum lestri fyrir yngstu nemendur og hafa foreldrar þeirra fengið tölvupóst um það. 

Nemendur á unglingastigi eru með ipadana heima og fara í kennslustundir gegnum zoom. Sú fyrsta verður klukkan 9:00 í fyrramálið. Þeir hafa líka fengið vikuáætlanir og æfingaplan fyrir hreyfingu.

Haft var samband við foreldra nemenda á miðstigi vegna hugmyndar um að senda þeim einnig ipadana sína heim og allir sem náðst hefur í eru nú búnir að sækja ipadana í skólann ásamt öðrum skólaverkefnum sem liggja fyrir vegna þessarar viku. Þeir sem við náðum ekki í dag fengu sms og við biðjum þá að hringja og svo mælum við okkur mót á morgun. 

Svo vonum við bara að allir verði duglegir að lesa og vinna verkefnin sín þessa daga sem skólinn er lokaður.

Bestu kveðjur

Starfsfólkið í skólanum

Á morgun

 



Ágætu nemendur og foreldrar

Nú eru skrýtnir tíma og við höfum ekki áður lent í því að þurfa að skipuleggja nám nemenda án þess að mega hitta þá til að leiðbeina um einstök atriði en þetta er staðan sem við verðum að vinna með núna.

Á morgun mun starfsfólk skólans ,,hittast" og gera áætlanir um hvernig er hægt að hafa hlutina næstu tvær vikur á meðan á hertu samkomubanni stendur. Nemendur eiga því ekki að koma í skólann á morgun.  

Það þarf að finna út hvaða gögnum þarf að koma á hvern nemendahóp og hvernig er best að gera það.  Einnig hvernig kennarar geta verið í sambandi við nemendur.  Þetta er einfaldast hjá unglingunum þar sem þar voru allir búnir að setja upp zoom-fjarfundarappið og eru með ipadana heima en aðeins flóknara hjá öðrum nemendahópum en við munum finna einhverjar lausnir á því að vera í sambandi við alla.

Lögð verður áhersla á halda uppi námi með einhverjum hætti hjá öllum aldurshópum meðan á þessum takmörkunum stendur. Frekari upplýsingar verða sendar út seinni partinn á morgun.

Það geta allir verið duglegir að lesa og hreyfa sig og það er mjög góð þjálfun bæði fyrir huga og líkama.

Kveðja

Starfsfólk grunnskólans.

 

Þriðjudagur 14.apríl

Þar sem hertar aðgerðir vegna sóttvarna hafa verið framlengdar til 26.apríl verður skólastarf ekki með hefðbundnum hætti eftir páskafrí. Kennarar skólans þurfa að skoða hvernig þeir geta skipulagt fjarkennslu fyrir nemendur og því verður starfsdagur hjá okkur þriðjudaginn 14.apríl.

Fréttir vikunnar 30.mars - 3.apríl

Gleði
Gleði
1 af 2

Þar sem við vitum að rútína og reglur henta börnum best þá höfum reynt að halda úti sem eðlilegustu skólastarfi þessar síðustu vikur. Því hafa fylgt ýmsar áskoranir bæði fyrir starfsmenn og nemendur en við erum þakklát fyrir hvernig þetta hefur þó gengið.  Við getum ekki sagt til með vissu hvernig starfið verður hjá okkur eftir páskafrí en ef aðstæður breytast ekki, gerum við ráð fyrir að skipulagið verði með sama hætti og núna. Það er að Bryndís, Sigmar og Arnheiður séu með elsta stigi, Edda, Jóhannes og Sara með miðstigi og Ása, Linda og Jóna með yngsta stigi. Skóladagurinn verði frá 8.00 – 12:20 hjá yngsta stigi, 8.00 – 12:30 hjá miðstigi og 8:10 – 12.40 hjá elsta stigi. Við erum að reyna að passa að nemendur hittist ekki í anddyrinu og þess vegna byrja ekki allir á sama tíma og fara út á ólíkum tímum.

Við biðjum ykkur að fylgjast vel með fréttum á heima-og facebooksíðum skólans á annan í páskum, þar munum við birta upplýsingar um skólastarfið eftir páskaleyfi.

En það eru líka jákvæðir hlutir að gerast. Fjórir nemendur frá okkur tóku þátt í skólaskámóti Vestfjarða og lönduðu 2. og 3. sæti, við erum hæst-ánægð með það. Næsta umferð verður spiluð á fimmtudaginn, tölvupóstur var sendur í vikunni um hvernig maður tekur þátt.

Í dag var svo allskonar húllumhæ í skólanum til að fagna páskafríi eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hafið það gott um páskana og gott er að hafa í huga ýmis ráð sem hafa verið birt sem eiga að létta manni lífið þessa daga og mikilvægt er að gæta að sóttvörnum allan daginn alla daga.

Við vonum að allir verði duglegir að lesa og hreyfa sig í páskafríinu og komi hressir til starfa að því loknu.

Kveðja

Starfsfólkið í skólanum.