VALMYND ×

Fréttir

Hert samkomubann, 1.apríl

Vegna aðstæðna hafa reglur um samkomubann verið hertar á Ísafirði og í Bolungarvík. Nú er beðið um að ekki fleiri en fimm manneskjur safnist saman og búið er að takmarka fjölda sem má fara inn í verslanir. Skólunum á Ísafirði og í Bolungarvík hefur verið lokað. Þessar takmarkanir á skólastarfi ná ekki til okkar enn sem komið er en ég bið ykkur að fylgjast vel með því staðan getur breyst hratt. 

Hér er hlekkur á upplýsingarnar sem voru að birtast núna rétt áðan. Þær eru á íslensku, ensku og pólsku.

http://hvest.is

27.mars 2020

Vikan hefur bara gengið nokkuð vel þrátt fyrir allskonar breytingar og bras og við munum setja dagskrá næstu viku upp með svipuðum hætti. Allir nemendur verða í skólanum í 6 kennslustundir á dag. Yngsta- og miðstig frá 8:00 - 12:30, unglingarnir frá 8:10 - 12:40 og Bryndís mun bjóða unglingunum upp á aukaaðstoð ef þarf á þriðjudag  og miðvikudag frá 13:00- 13:40.

Við höfum endurskoðað hvernig við skiptum hópum milli okkar á grundvelli reynslu þessarar viku. Starfsmenn eiga að fara sem allra minnst á milli hópa og í næstu viku munu Bryndís, Sigmar og Adda sjá um unglingastigið, Edda, Jóhannes og Sara um miðstigið og Ása, Linda og Jóna um yngsta stigið. Þetta á við bæði um kennslustundir og frímínútur og þýðir að kennslugreinar raskast nokkuð.  Við gerum okkar besta til að passa að nemendur hittist ekki milli hópa í skólanum og vonum að það hjálpi til við að halda smithættu í lágmarki.

Svo set ég hér að lokum hlekk á endurnýjun tilmæla Landlæknis til heimila. Það er mikilvægt að heimilin taki þetta líka alvarlega og geri sitt til að vinna gegn smithættu. Þó að hér sé fámennt gæti Suðureyri farið mjög illa út úr veikindum sem eru svona bráðsmitandi ef við gætum ekki að okkur.

https://www.heimiliogskoli.is/2020/03/20/samkomubann-og-born-leidbeiningar-fra-landlaekni/

Kveðja

Jóna

Frá Ísafjarðarbæ 25.mars

Vegna aðstæðna sem uppi eru í samfélaginu vegna Covid-19 hefur Ísafjarðarbær ákveðið eftirfarandi leiðir:

Mötuneyti

  • Engir reikningar verða sendir út vegna mötuneytis fyrir apríl í þeim skólum þar sem mötuneyti hafa lokað. Hver skóli heldur utan um leiðréttingar vegna skertar þjónustu frá 16.-31.mars 2020.
  • Áskrift frá 16. mars verður endurgreidd.

Leikskólar

Leikskólagjöld frá 16.mars og í aprílmánuði 2020 taka breytingum í samræmi við veitta þjónustu:

  • Ekkert gjald verður innheimt fyrir barn sem foreldrar hafa heima á tímabilinu. Niðurfelling fæst aðeins ef fjarveran er samfelld og/ eða reglubundin. Nauðsynlegt er að tilkynna fjarveruna til stjórnenda viðkomandi leikskóla.
  • Ekkert gjald verður innheimt fyrir barn í leikskóla sem er lokað á tímabilinu.
  • 50% gjald fyrir barn sem er annan hvern dag í leikskóla á tímabilinu.
  • 100% gjald fyrir barn sem er alla daga í leikskóla vegna forgangs.

 

 

Dægradvöl
Vegna skertrar þjónustu í Dægradvöl verður innheimt eftir fjölda daga sem nýttur er hjá hverju barni á tímabilinu frá 16.mars 2020. Niðurfelling fæst aðeins ef fjarvera er tilkynnt til forstöðumanns.  

Leiðrétting á skertri þjónustu frá 16.mars fer fram samhliða útgáfu á reikningi aprílmánaðar.

20.mars, frá skólanum

Góðan dag

Eins og síðustu daga gekk okkur bara nokkuð vel að halda umbeðinni fjarlægð milli nemenda. Hádegismaturinn skapar okkur talsvert viðbótarálag þar sem matráðurinn okkar má ekki koma í skólann. Við höfum því verið að reyna að græja matinn, skammta á diska og ganga frá, jafnframt því sem við þurfum að dekka 12 tíma í forföll vegna starfsmanna sem kenna líka við aðra skóla og mega ekki fara á milli. Hádegið er sá álagspunktur sem við ráðum síst við. Við viljum gera það sem við getum til að hægt sé að halda úti skóladegi við þessar skrýtnu aðstæður en lýsum okkur mát með matinn. Við biðjum ykkur því að senda nemendur með nesti til að borða í hádeginu í næstu viku. Þá getur hver nemendahópur einfaldlega borðað í sinni stofu. Ég er búin að ræða við Ísafjarðarbæ um þetta og þar eru menn að bíða eftir samræmdum viðbrögðum sveitarfélaga um hvernig farið verður með endurgreiðslur til foreldra sem hafa greitt fyrir mat. 

Annars var bara gaman hjá okkur dagana sem hægt var að hafa skóla í þessari viku, snjórinn kallaði á fullt af verkefnum og hér er ein mynd sem sýnir verkefni nemenda.

20.mars frá Almannavörnum

Set hér bréf frá Almannavörnum með leiðbeiningum til foreldra, sem barst til okkar í dag. Við erum búin að biðja um að fá þetta á fleiri tungumálum, ég set það inn um leið og það berst.

Reykjavík 20. mars 2020

Efni: Samkomubann og börn

Skólar, leikskólar og íþróttafélög hafa skipulagt vandlega fyrirkomulag næstu daga og vikur til að fara eftir fyrirmælum heilbrigðisráðherra um takmarkanir á skólastarfi og samkomum.

Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi á sama tíma úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum ráðstöfunum. Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla. Hafi börnin þroska til að fara eftir leiðbeiningum sem snúa að minni snertingu við vini er ekki útilokað að þau geti hist í leikjum. Leikirnir mega ekki fela í sér beina snertingu, notkun á sameiginlegum leikföngum eða búnaði sem snertur er með berum höndum. Börn og ungmenni ættu ávallt að þvo sér vel um hendur bæði áður en þau hitta félaga sína og eftir að þau koma heim. Fjölskyldur ættu að hafa í huga að ef börnin umgangast mikið vini eða frændsystkini úr öðrum skólum eða skólahópum þá verður til tenging milli hópa sem annars væru aðskildir. Slíkt ætti að forðast eins og kostur er. Fjölskyldur eru hvattar til að nýta sér tæknina til að halda góðum tengslum við ástvini sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 sýkinga, eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Einnig væri hægt að nota tækifærið að kenna börnunum að skrifa sendibréf og æfa í leiðinni skrift, stafsetningu, virkja ímyndunaraflið og hugsa í lausnum þegar kemur að samskiptum við ástvini okkar.

Varðandi heimili þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki:

Börn sem hafa þroska og getu til að sinna eigin hreinlæti og halda viðeigandi fjarlægð við foreldra sem eru í sóttkví sem og við skólafélaga geta áfram sinnt námi í skólastofu. Mikilvægt er að gæta að hreinlæti t.d. nota sér salernisaðstöðu. Foreldrar stálpaðra barna sem eru í sóttkví og geta haldið viðeigandi fjarlægð frá börnunum meðan á sóttkví stendur geta áfram sinnt vinnu á vinnustað ef fjarvinna er ekki í boði. Heimilið verður allt að fara í sóttkví ef börn hafa ekki þroska eða getu til að virða þær ráðstafanir sem gilda í sóttkví. Önnur leið til að leysa slíkt væri ef þeir sem ekki eru í sóttkví færu eitthvað annað á meðan á henni stendur.

 

 

 

Fimmtudagurinn 19.mars

Góðan dag
Þessi annar dagur okkar í samkomubanni gekk bara ágætlega.
Tilmæli Landlæknis og Almannavarna eru skýr, við eigum að koma í veg fyrir að nemendur sem ekki eru saman í stofu hittist. Þetta gengur fínt í kennslustundum og okkur tókst að skipuleggja frímínúturnar í dag þannig að þetta væri ekki vandamál. Við erum helst í basli með að láta matartímann ganga upp en látum reyna á hvort okkur gengur betur á morgun.
 
Það er mikilvægt að þið fylgist líka vel með nýjustu upplýsingum og hafið í huga hverja börnin ykkar umgangast því það er til lítils að passa upp á að nemendur hittist ekki milli hópa í skólanum ef allir leika svo saman eftir að skóla lýkur.
Kveðja
Jóna

18.mars 2020

Vegna sóttvarna

 Við, eins og aðrir þurfum að gera ýmsar breytingar til uppfylla tilmæli Landlæknis vegna sóttvarna.

Þar sem kennarar og nemendur mega nú ekki fara á milli stofnana þarf ýmist að útvega forfallakennslu eða fækka tímum hjá nemendum. En þar sem staðan breytist ört gerum við ekki áætlanir langt fram í tímann, hér eru samt nokkur atriði sem við erum búin að sjá að þarf að gera.

Nemendur fara ekki í val á Ísafirði meðan á þessu stendur.

Við vitum að við verðum að fresta árshátíðinni en leggjum áherslu á að allir verði búnir að læra textann sinn þegar kemur að því að við getum farið að æfa.

Íþróttir verða úti ef veður leyfir og nemendur þurfa því ekki íþróttaföt og munu ekki fara í sturtu í skólanum.

Það er einna flóknast að sjá út hvernig hægt er að koma nemendum inn og út úr skólanum án þess að hópar hittist í anddyrinu og til að reyna að tryggja það biðjum við unglingana að mæta kl.8:10 á morgun og hinn. Unglingarnir verða inni í frímínútum fram að páskum og mið- og yngsta stig fara í frímínútur á sitthvorum tímanum.

Það verða smávægilegar breytingar hjá 4., 6. og 7.bekk á morgun, viðfangsefni í smiðjutíma geta ekki haldið sér og dönskutími 7.bekkjar færist fram þannig að skóladegi þeirra lýkur kl.12:30.

Við erum að reyna að gera okkar besta til að framfylgja því að nemendur blandist ekki milli hópa og hittist ekki á göngum skólans. Unglingarnir sækja sér mat í mötuneytið, nemendur yngsta stigs fá matinn sinn inn í stofuna sína og miðstigið borðar svo í mötuneytinu.

Við vitum að þetta verða skrýtnir dagar og biðjum ykkur að hjálpa okkur að útskýra þetta fyrir nemendum.

Kveðja

Jóna

17. mars 2020

Enn geisar vetrarstormur og appelsínugul veðurviðvörun er í gangi. Þegar svona er ráða foreldrar hvort þeir senda börn í skólann. Við biðjum ykkur að láta vita ef þið ákveðið að halda börnum heima. Það má senda póst á jonab@isafjördur.is eða láta okkur vita gegnum facebook síðuna.

Fréttir af skólastarfinu vegna veirunnar

Það reyndi ekki mikið á breytingar hjá okkur í dag þar sem fá börn mættu í skólann vegna veðurs. 

Við höfum séð að við þurfum að gera nokkrar breytingar á daglegu starfi til að geta látið allt falla að tilmælum yfirvalda. Kennarar sem fara milli skóla munu ekki koma, því verður ekki dans og Ninna námsráðgjafi mun bjóða upp á símatíma eða skype - viðtöl. Við aðstoðum nemendur með það ef þarf. 

Nemendur munu ekki heldur fara á milli skóla og því verður ekkert val á Ísafirði - enda eru valgreinar þar felldar niður.

Við þurfum að skoða hvernig við förum með verkgreinar hjá 6.og 7. bekk og 2.-4. bekk, en á það reynir ekki fyrr en á fimmtudag. Þið fáið upplýsingar um það á miðvikudag.

Við höfum nú þegar aukið við þrif í skólanum og munum fá nemendur með okkur í lið við að uppfylla öll skilyrði hvað það varðar.

Og til viðbótar er svo mjög vond veðurspá fyrir morgundaginn og ef hún gengur eftir verður aðeins lágmarksstarfssemi í skólanum og þeir foreldrar sem það geta beðnir um að hafa börn sín heima og endilega láta okkur vita.

Frekari fréttir verða settar hér inn og á facebook síðu skólans rétt fyrir 7 í fyrramálið þegar við verðum búin að sjá hvernig staðan er.

Svo hlýtur vorið nú að fara að koma

Kveðja

Jóna

Fréttir vikunnar 9.-13.mars

Óskilamunir í skólanum
Óskilamunir í skólanum

Við, eins og aðrir höfum þurft að innleiða breytingar á daglegu starfi til að reyna að hindra útbreiðslu Covid-19 veirunnar.  Við höfum sett spritt í allar skólastofur og leggjum aukna áherslu á handþvott. Núna þurfa til dæmis allir að fara og þvo sér um hendur áður en þeir fara í mötuneytið sem er jú bara góður siður og þar er öllum skammtað á diska. Við fylgjumst með tilmælum frá Landlækni og Almannavörnum og förum eftir þeim leiðbeiningum sem þar eru gefnar eftir bestu getu. Útfærsla á samkomu banni hefur lítil áhrif hjá okkur þar sem við erum sjaldan svo mörg í einu á sama stað. Ef frekari takmarkanir verða mun ég setja fréttir af því inn á heima- og facebook síður skólans.

Æfingar á leikritinu eru komnar á fullt og nemendur hafa fengið með sér heim lýsingu á hvernig búningurinn þeirra gæti verið. Ef þið eruð í vandræðum með að útvega það sem þarf, endilega hafið samband við okkur sem fyrst. Við höfum ákveðið að halda æfingaplani vegna árshátíðarinnar þó að líklega verðum við að fresta sjálfri sýningunni, allavega miðað við fréttir dagsins í dag.

Í tengslum við þróunarverkefni skólanna hér á Suðureyri höfum við skipulagt seinni fræðslufundinn fyrir foreldra á þessu skólaári þann 14.apríl. Þar verður fjallað um fjölmenningu og fleira. Ítarleg lýsing hefur verið send ykkur í tölvupósti og við vonumst eftir að allir geti verið með okkur þennan dag.

Mynd af óskilamunum sem safnast upp í skólanum er nú komin á facebook-síðuna. Við höfum beðið nemendur að skoða hvort þeir eigi eitthvað af þessu en enginn þeirra kannast við fötin sem öll eru ómerkt. Við viljum endilega koma þessu til skila svo eigendur geti notað fötin sín svo ef þið kannist við eitthvað af þessu biðjum við ykkur um að sækja.  Allir óskilamunir verða sendir í Rauða krossinn þegar skóla lýkur í vor.